Kjarnorkuiðnaðurinn – Þróunin, sagan 2008

Grein/Linkur:  Sprenging í kjarnorkuiðnaðinum

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Mynd – visualcapitalist.com 13.03.2021 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

.

Júlí 2008

Sprenging í kjarnorkuiðnaðinum

 Nú verður athyglinni beint að því hvernig kjarnorkuiðnaðurinn muni þróast á næstu árum. Sennilega verður kjarnorkuáætlun Írana stöðvuð með hervaldi. Takist þeim að svara með því að loka Hormuz-sundi verður sprenging í olíuverði. Tímabundið. Líklega myndi mesta verðhækkunin verða rétt áður eða í þann mynd sem atburðirnir brystu á. Og olíuverðið svo lækka snögglega á ný – en samt etv. haldast nokkuð hátt. „Buy on the rumour and sell on the fact“ eru a.m.k. góð og gömul sannindi.

Það mun enn frekar hvetja Vesturlönd til að auka fjárfestingar í nýjum kjarnorkuverum. En satt að segja þarf enga árás á Íran til þess. Nánast daglega aukast líkur á því að ný og enn fleiri kjarnorkuver verði byggð í Bandaríkjunum og í Kína og á Indlandi. Og í S-Kóreu. O.s.frv!

Nuclear_china

Nuclear_china 

Á þessu andartaki er verið að byggja sex ný kjarnorkuver í Kína. Kínverjar voru seinir til að byggja kjarnorkuver. Byrjuðu ekki fyrr en um miðjan 9. áratuginn. Og fyrstu verin voru loks tilbúin eftir 1990; fyrst Qinshan-verið í Zhejiang-héraðinu í lok árs 1991 og svo tvö kjarnorkuver við Daya-flóann í SA-Kína 1993 og 1994. En síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Og kunna að verða enn hraðari.

Já – í Kína eru nú 11 kjarnorkuver starfandi sem framleiða skitin 9.000 MW. Sem jafngildir rúmlega 1% af rafmagnsframleiðslunni í Kína í dag (er nú alls um 700 þúsund MW og eykst hratt). Sem fyrr segir eru Kínverjar að byggja 6 ný ver (athugið að heildartalan á kortinu hér til hliðar er nokkru hærri, því hún nær til Kína og Taiwan samtals). Þar að auki eru um 50 önnur kjarnorkuver a teikniborði Kínverjanna! Af þessum verum á um helmingurinn að vera risin árið 2020.

Uranium_july2008

Uranium_july2008

Og Kínverjar eru á fullu að fylgja eftir þessari stefnu sinni. Ekki er langt síðan kínversk stjórnvöld gerðu langtíma samninga við bæði Ástralíu og Níger um kaup á úrani. Þeir samningar áttu tvímælalaust stóran þátt í því að úranverðið rauk upp um mitt ár 2007. Og fór í um 135 USD pundið. Síðan þá hefur verðið lækkað aftur. Um 50%! Og það þrátt fyrir gengislækkun bandaríkjadals. Það er mikil lækkun. Til að fræðast um verðmyndun og kaup á úrani, bendi ég á færsluna „Úran“ hér þarnæst á undan þessari hér.

Kjarnorkuáætlun Kínverja fram til ársins 2020 var birt 2006. Þar er stefnt að því að 2020 verði framleidd 40.000 MW með kjarnorku. Þá var framleiðslan rétt um 7.000 MW og er í dag um 9.000 MW. Vegna stóraukinnar orkunotkunar í Kína er gert ráð fyrir, í umræddri áætlun frá 2006, að þessi 40.000 MW verði aðeins 4% rafmagnsframleiðslunnar í Kína 2020. Til samanburðar framleiða Bandaríkin nú 100.000 MW með kjarnorku, sem eru 20% rafmagnsins þar í landi. Kínverska kjarnorkuáætlunin er byrjunin á sannkallaðri sprengingu í kjarnorkunni.

China_Tianwan_nuclear

China_Tianwan_nuclear

Reyndar eru Kínverjar nú að hækka takmark sitt enn meira. Í mars s.l. hækkuðu þeir nefnilega kjarnorkumarkmið sitt úr 4% í 5% af rafmagnsframleiðslu, m.v. árið 2020. Og það þýðir 60.000 MW – því markmið um heildar rafmagnsframleiðslu hefur einnig hækkað. Til að takmarkið náist þarf að meðaltali að bæta við kjarnorkuverum á hverju ári, sem framleiða rúm 5.000 MW. Já – það er allt stór i Kína. Minna má á að Þriggja gljúfra orkuverið á fullreist að framleiða yfir 20.000 MW. Best gæti ég trúað að Kínverjum þyki 60.000 MW frá kjarnorku fljótlega full lítið. Og að enn fleiri ver verði smíðuð. Minni aftur á að bandarísku kjarnorkuverin hafa 100.000 MW framleiðslugetu. Og þau eru öll meira en 30 ára gömul.

Svo virðist sem þessi nýlega ákvörðun Kínverja um að hraða enn frekar uppbyggingu kjarnorkuiðnaðarins, sé enn ekki farin að endurspeglast í verði á úrani. Kannski trúa menn þessu hreinlega ekki – þetta eru of stórar tölur til að geta gleypt þær. En Orkubloggið skilur þetta alveg prýðilega. Enda lærði ég að telja upp að skrilljón-gilljónir, bara 6 ára gamall.

Menn gera ekki aðeins ráð fyrir mikilli fjárfestingi Kínverja í nýjum kjarnorkuverum. Það er einnig búist við því að þeir setji óhemjufé í erlendan kjarnorkuiðnað. Önnur Asíuríki sem treysta mjög á kjarnorkuna, hafa af þessu talsverðar áhyggjur. T.d. Japan og S-Kórea. Þetta er t.d. ein helsta ástæða þess að japanska fyrirtækið Toshiba keypti bandaríska kjarnorkurisann Westinghouse Electric árið 2006. Og síðan þá hefur WE keypt nokkur kjarnorkuver víða um heim. Menn vita sem er, að það verður mikil barátta um úranið og nauðsynlegt að tryggja sér sterka stöðu á kjarnorkumarkaðnum.

Nuclear_plants_world

Nuclear_plants_world

En af hverju eru Kínverjar svo stórtækir í kjarnorkunni? Og eru áætlanir þeirra kannski bara blautir draumar? Ég held ekki. Minnumst þess að í dag framleiðir kjarnorkan 17% af allri raforku í heiminum. Sambærileg tala er 20% í Bandaríkjunum og a.m.k. níu ríki framleiða meira en 40% rafmagnsnotkunar sinnar með kjarnorku. Kína aftur á móti framleiðir nú einungis innan við 2% rafmagnsins með kjarnorku, eins og áður var nefnt. Þessu ætla Kínverjar að breyta.

Og umhverfismálin standa ekki í Kínverjum. Þeir eru reyndar með skýra stefnu í úrgangsmálum vegna kjarnorkunnar. Til stendur að nota hálfan milljarð dollara til að útbúa geymslu fyrir kínverska kjarnorkuúrganginn í fjalllendi á strjálbýlu svæði langt inní Mið-Asíu. Þetta er svona svipuð áætlun og Bandaríkjastjórn hefur haft uppi um að grafa kjarnorkuúrgang í Yukka-fjöllum í Nevada. Munurinn er bara sá að þarna fyrir vestan varð allt vitlaust út af þessu plani og óvíst að það nái fram að ganga. Hlutirnir eru aðeins öðruvísi austur í Kína. Þar er bara ákvörðun tekin og svo gengið í verkið. Ekkert lýðræðiskjaftæði. Minnir mig á það þegar Kátir piltar sungu „Ég vil fá'ana strax og ekkert ástarkjaftæði eða rómantík hér“. Ég er reyndar ekki þessi röff týpa, þannig að kínverska leiðin er ekki alveg mín.

Nuclear_reactors_world_under-construction-ww

Nuclear_reactors_world_under-construction

En það eru fleiri ríki en Kína með kjarnorkuver í pípunum. Sérstaklega er vert að hafa í huga annað „smáríki“. Indland er t.d. líka með stör plön um ný kjarnorkuver. Indverjar hafa langa kjarnorkusögu og mikla þekkingu, enda opnuðu þeir fyrsta kjarnorkuverið sitt 1969. Á Indlandi eru nú 17 kjarnorkuver, sem líklega framleiða um 4-5.000 MW, og önnur 8 í byggingu sem munu hugsanlega allt að tvöfalda framleiðslugetuna.

Rafmagnsframleiðsla frá kjarnorkuverum á Indlandi er einungis u.þ.b. 3% af heildinni. Stefna indverskra stjórnvalda er að þetta hlutfall verði 25% árið 2050 – og jafnvel fyrr. Það mun kalla á mikla uppbyggingu í kjarnorkuiðnaði Indverja. Og af því Indverjar eru mjög háðir innflutningi á úrani, hafa þeir lagt mikla áherslu á að þróa kjarnorkutækni sem mun byggja á öðrum kjarnakleyfum frumefnum.

Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að mega sprenging verði í eftirspurn eftir úrani. Þó er hugsanlegt að tækniframfarir leiði til þess að menn fari að nýta önnur efni í kjarnorkuiðnaðinum. Þar er einkum litið til þóríums. Ef og þegar af því verður, kann kjarnorkan að verða mun umhverfisvænni orkugjafi en er í dag. Þetta er samt enn framtíðarmúsík. Annars er vert að hafa í huga að það mun finnast heilmikið þóríum í Noregi. Ætli það verði ekki gull Norðmanna um það leyti sem þeir dæla upp síðustu olíudropunum? Það væri a.m.k. alveg dæmigert fyrir lukku Norðmanna.

Fleira áhugavert: