Vinnustaðanám, ný reglugerð – Umsagnir, samráðgátt

Grein/Linkur:  Tryggja aðgang iðnnema að vinnustaðanámi

Höfundur: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Heimild:

.

.

Desember 2020

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (03.12.2020–17.12.2020). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Kynnt er til umsagnar ný reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun sem ætlað er að koma í stað eldri reglugerðar. Með nýrri reglugerð eru skólar gerðir ábyrgir fyrir því að iðnnámsnemandi komist í vinnustaðanám, nemendum er gert auðveldara að ljúka starfsþjálfun sinni óháð stöðu í atvinnulífinu og tímalengd vinnustaðanámssamnings látin miðast við hæfni nemenda en ekki fjölda vikna á vinnustað.

Núverandi skipulag verk- og starfsnáms gerir ráð fyrir að starfsgreinaráð, fyrir hönd atvinnulífsins, skilgreini starfalýsingar og hæfnikröfur fyrir hvert starf og að þær séu endurskoðaðar reglulega. Starfsnámsskólarnir skipuleggja síðan námsbrautalýsingar svo nemendur öðlist þá hæfni sem atvinnulífið þarfnast á hverjum tíma. Í meginatriðum, og með fáum undantekningum, er vinnustaðanám skipulagt þannig að gerður er námssamningur milli iðnmeistara og iðnnema. Kveðið er á um umfang vinnustaðanáms í námsbrautalýsingum, þar sem vinnuviknafjöldi er tilgreindur. Fjöldi vinnuvikna er ólíkur milli iðngreina er yfirleitt á bilinu 48 – 120 vikur. Vinnustaðanámið fer þannig fram að gerður er starfsþjálfunarsamningur. Nemandinn er launþegi hjá því fyrirtæki sem meistarinn starfar hjá eða rekur og þiggur laun samkvæmt kjarasamningi um nemalaun. Samningstíminn er mældur með lífeyrissjóðsgreiðslum atvinnurekanda. Þegar tilteknum vikufjölda er náð samkvæmt lífeyrissjóðsgreiðslum telst viðkomandi nemandi hafa lokið vinnustaðanáminu.

Í núverandi atvinnuástandi hefur nemendum á starfsþjálfunarsamningum fækkað. Munar þar mestu um fækkun nema í matreiðslu, framreiðslu, húsasmíði og rafiðngreinum. Fyrirtæki hafa haldið að sér höndum og síður tekið nýja nema á námssamning í stað þeirra sem ljúka vinnustaðanámi. Einnig hefur borið á því að námssamningum nema hafi verið sagt upp og þeir ekki komist á námssamning aftur eða annars staðar. Á haustönn 2020 tóku starfsnámsskólarnir jafnframt inn fleiri nemendur en þeir hafa alla jafna gert vegna mikillar eftirspurnar. Sú fjölgun mun leiða til þess að fleiri nemar þurfa að komast á samning en áður, samhliða þrengingum í atvinnulífinu.

Sumar iðngreinar hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Til eru greinar sem eru að miklu leyti samansettar af einyrkjum og fámennum vinnustöðum. Slíkar greinar eiga erfitt með að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja því að taka nema í vinnustaðanám. Aðrar greinar hafa einnig orðið sérhæfðari og ekki hefur því verið unnt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til iðnmeistara á aðeins einum vinnustað. Kallað hefur verið eftir nýjum leiðum og auknu samstarfi skóla og atvinnulífis við að útskrifa nemendur við þessar kringumstæður. Þörf er á nýliðun í mörgum af þessum greinum og því nauðsynlegt að fjölga möguleikum nemenda og mynda sterkari tengsl atvinnulífs og skóla.

Í drögum að nýrri reglugerð um vinnustaðanám eru nú tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem er ný. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift hans verður á ábyrgð skóla. Hægt verður að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Með breytingum á reglugerðinni má einnig ætla að hægt verði að dragi úr líkum á brotthvarf nemenda.

Samkvæmt gildandi reglugerð er nemanda gert að finna sér iðnmeistara og gera við hann samning. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í nýrri reglugerð verður skólinn ábyrgur fyrir því að nemandinn komist á samning. Þessi breyting er í takt við umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar sagði m.a.: „Frumvarpið miðar að því:… að tryggja hag og stöðu nemenda í iðn- og verknámi, og starfsnámi almennt, m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi“ og „Að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Í dag er slíkt undir hælinn lagt, þ.e. hvort nemandinn komist í starfsþjálfun annars vegar og hins vegar hvort hún komi að því gagni sem þarf. Hér er um mjög mikla breytingu að ræða frá núverandi kerfi þar sem það er á ábyrgð nemandans að komast í starfsþjálfun að loknu námi á viðkomandi braut í skóla. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta. Með þessu skapast einnig sterkari tengsl skóla og vinnustaða.“

Eins og áður segir er skv. reglugerðinni gert ráð fyrir að um verði að ræða tvær leiðir í vinnustaðanáminu, annars vegar iðnmeistaraleið og hins vegar svokölluð skólaleið. Áður en skólaleiðin er farin skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags iðnarinnar. Í skólaleiðinni er gert ráð fyrir að skólinn sjái um að skipuleggja vinnustaðanámið. Áfram er gert ráð fyrir að nemandi á iðnmeistarasamningi fái laun í samræmi við gildandi kjarasamning, en miðað er við að nemendur á skólasamningi verði launalausir. Eins og áður hefur komið fram er vinnustaðanám á skólaleið skipulögð af skóla og framkvæmd í samvinnu við vinnustað, en vinnustaðanám samkvæmt iðnmeistarasamningi er skipulagt af vinnustað. Vegna mögulegrar sérhæfingar vinnustaðar gera báðar leiðir ráð fyrir því að nemandi gæti þurft að nema á fleiri en einum vinnustað til að uppfylla kröfur um hæfni.

Tímalengd starfsþjálfunar er í núverandi kerfi skilgreind í vikum og birt í námsbrautalýsingum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að birt tímamörk í námsbrautalýsingum séu hámarkstími starfsþjálfunar, en mat á hæfni nemanda ráði tímalengd starfsþjálfunar. Þannig geti námstími orðið mislangur. Miðað er við að fulltrúi skóla og vinnustaðar meti sameiginlega hæfni nemanda í einstökum þáttum og haldi rafræna ferilbók utan um ferlið bæði þegar um er að ræða iðnmeistarasamning og skólasamning.

Menntamálastofnun hefur umsjón með rafrænni ferilbók, en í hana er skráð hæfni nemandans. Með notkun rafrænnar ferilbókar má efla gæði og samræmingu starfsþjálfunar, tryggja yfirsýn yfir hæfni og framvindu nemandans og auðvelda nemanda og skóla að halda utan um námið. Í rafrænu ferilbókinni er tiltekin hæfni nemanda staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á.

Öll starfsgreinaráð vinna nú að því að endurnýja starfalýsingar og hæfnikröfur, undir stjórn Menntamálastofnunar sem einnig heldur utan um vinnu faghópa við að skilgreina hæfniþætti starfa sem skráðir eru í rafræna ferilbók.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Brynjar Kristjánsson – 07.12.2020

Miðað við þær samþykktu brautir sem ég hef skoðað, sýnist mér vanta allt samráð á milli skóla. Hver skóli virðist hafa sýna skoðun á því hvernig td Vélvirkja-braut skal vera. Sumar brautir eru settar upp með því markmiði að skera niður smíða áfanga til að geta aukið f-ein fjölda í áföngum sem áfangasmið þóknast ? Einnig sé ég ekki samræmi í því að nemandi sanni starfsnám sitt með greiðslu í lífeyrissjóð og hafi þar með klárað sitt starfsnám, þegar það er skýrt tekið fram að starfsnámi skal ljúka með hæfniviðmiðum ?

Af þeim brautum sem ég hef skoðað lýst mér best á BHS. Sú braut er byggð upp með kjarna og sérfögum, Vélvirkjun-Blikksníði-Stálsmíði-Rennismíði-Tæknistúdent.

Afrita slóð á umsögn

#2 Christian Emil Þorkelsson – 07.12.2020

Ég rek fyrirtæki í pípulögnum, hef útskrifað stóran hóp nema. Mér líst ekki á þessa skólaleið, þar missir stéttin sitt eina verkfæri til að fjölgunun fari ekki fram yfir eftirspurn í faginu.

Afrita slóð á umsögn

#3 Arnar Óskarsson – 08.12.2020

Ég tel að þessi reglugerð bæti starfsnámið. Þar vegur ferilbókin þungt. Í Ferilbókinni eru verkefnin tengd hæfnisviðmiðum iðngreinarinnar. Auðvelt er að uppfæra verkefni í ferilbókinni eftir því sem verklagið á markaði breytist. Það sem breytir iðngreininni eru ný verkfæri og efni. Samband iðngreinar og skóla verður meira og dýpra við ferilbókina. Ferilbókin þarf að vera lögvarið gagn með iðnnámi en ekki valkostur.

Það er jákvætt að reglugerðin sé nemendamiðuð. Ekki á að stoppa nemanda af ef markaðurinn getur ekki tekið við honum það augnablikið. Til að nemandinn læri öll hæfnisviðmið iðngreinarinnar þurfa þeir að fara á milli fyrirtækja þar sem fæst fyrirtæki hafa breiðan grunn.

Ferilbókin er nokkurra áratuga gömul, en stafræn ferilbók er ný og auðveld í notkun. Hægt er að skrá í ferilbókina með tölvum eða símum. Ferilbókin tekur skjöl, myndir, raddlestur, myndræmur og bíður upp á spjall. Nú hef ég notað stafræna ferilbók í tvo ár og líkar vel.

Afrita slóð á umsögn

#4 RAFMENNT ehf. – 09.12.2020

Stjórn RAFMENNTAR sendir meðfylgjandi umsögn.

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök iðnaðarins – 09.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins.

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#6 Baldvin B Ringsted – 10.12.2020

Án þess að taka nokkra afstöðu til þessara skipulagsbreytinga eru hér nokkrar athugasemdir við innihald fyrirhugaðrar reglugerðar.

Þessari reglugerð er ætlað að leysa af hólmi reglugerð 840/2011 sem er afar óljós hvað varðar hugtakanotkun. Þessi arftaki er í sama anda. Í kynningunni segir: Í núverandi atvinnuástandi hefur nemendum á starfsþjálfunarsamningum fækkað. Framhaldið sýnir að þarna er átt við námssamninga og eldri reglugerð gerir skýran greinarmun á þessu tvennu. Í kynningu segir líka: Hér er um mjög mikla breytingu að ræða og því veltir maður fyrir sér hvers vegna hlutaðeigandi aðilum, þ.e. verknámskennurum og atvinnulífi hafa ekki verið kynnt þessi áform.

Óljóst orðalag og misvísandi skilgreiningar hafa valdið skólum miklum ama og tafið námskrárgerð og skilning hlutaðeigandi aðila á hugtökum eins og vinnustaðanám, starfsþjálfun, námssamningur og starfsþjálfunarsamningur. Þetta verður að vera ljóst.

Athugasemdir við einstaka greinar reglugerðar:

1 og 2:

Í Aðalnámskrá frá 2011 (grein 6.3) og með sérstakri auglýsingu á síðu ráðuneytis frá nóvember 2016 er tíundað hver munur er á vinnustaðanámi og starfsþjálfun. Þar er notað yfirheitið starfsnám og undirflokkar eru meðal annars vinnustaðanám og starfsþjálfun sem notað er um nám utan skólans. Þær skilgreiningar hafa skólar notað við samningu námskráa hinna ýmsu greina og við skoðun á samþykktum námsbrautum má t.d. finna 3 brautir í rafvirkjun, allar með starfsþjálfun en engin með vinnustaðanám. Sama á við um 3 brautir í stálsmíði og 2 í bifvélavirkjun. Ein braut í húsasmíði hefur bæði vinnustaðanám og starfsþjálfun.

Nú er lagt til að orðið vinnustaðanám þýði bæði vinnustaðanám og starfsþjálfun. Er það til að minnka flækjustigið? Getum við látið námsgreinaheitið íslenska eiga við um íslensku og dönsku? Af hverju má ekki nota yfirheitið starfsnám eins og segir í aðalnámskrá?

Hver er ávinningur af því að breyta heiti námssamnings í iðnmeistarasamning?

3:

Undir heitinu vinnuvernd kemur ekkert fram um hver ber ábyrgð á nemanum á vinnustað: er það skólinn, vinnustaðurinn eða tilsjónarmaður á vegum vinnustaðar? Er tryggt að almennur starfsmaður verði ekki lögsóttur ef slys ber að höndum og að nemandi sem örkumlast fái bætur? Innan skólanna er þessi staða nógu óljós til að ekki sé farið með óvissuna út fyrir skólann. Nemi í starfsþjálfun er starfsmaður fyrirtækis en hvað með nema í vinnustaðanámi?

4:

Nú eiga framhaldsskólar að hafa umsjón með nemendum í vinnustaðanámi og líka starfsþjálfun miðað við grein 2. Í dag eru fyrirtæki, Iðan og Rafmennt, sem hafa umsýslu með námssamningum og starfsþjálfun og má ætla að ríkið greiði allnokkur stöðugildi vegna þeirrar vinnu sem munu þá líklega renna til skólanna. Eða hvað? Skólar hafa hingað til séð um vinnustaðanám enda er það nám til eininga í umsjá skólanna en hitt er nýtt. Í drögunum segir einnig að skólasamningur sé útgönguleið ef ekki tekst að koma nemanda í starfsþjálfun á iðnmeistarasamningi. Þýðir það að skóli má útskrifa nemanda sem aldrei hefur unnið í starfsgrein við raunverulegar aðstæður, á launum og undir pressu verkstjóra og annarra aðila á vinnustað, t.d. á byggingastað? Hvað á að gera ef þessi leið gengur í berhögg við útgefna og samþykkta námskrá? Vinnustaðanám er ekki það sama og starfsþjálfun frekar en að danska sé það sama og íslenska. Á að breyta námskrám eða fara aftur í eina aðalnámskrá?

Hvernig skólar eiga að áætla fjölda nema á samningi 6 mánuði fram í tímann er hins vegar eitthvað sem gæti orðið snúið nema átt sé við fjölda nema sem ljúka grunndeildum. Það segir samt bara hluta sögunnar; hverjir hafa áhuga á áframhaldi og hvað grein velja þeir innan sviðsins? Ekki kemur fram hvað á að gera með þær upplýsingar.

Ef skóla tekst ekki að koma nema á iðnmeistarasamnig skal tilkynna það meistarafélagi viðkomandi greinar. Eru til meistarafélög allra greina? Eru þessi félög skilgreind í lögum og mun Menntamálastofnun halda utan um skráningu þessara félaga á lands- og landshlutavísu? Eða Samtök Iðnaðarins? Hvað með fagfélög og stéttarfélög?

Ef skóli innritar 12 nemendur í rafvirkjun þarf að hafa tryggt pláss fyrir alla nemana áður en farið er af stað. Sama með allar aðrar greinar. Hvað margir skólar geta uppfyllt það?

5 og 6:

Hér er lögð sú skylda á herðar iðnmeistara að skipuleggja starfsþjálfunina og skóla að fylgjast með framgangi náms þar sem ekki er til rafræn ferilbók. Þær eru 10 sem eru til í dag. Ef reglugerðin á að taka gildi strax – án þess að nokkur af þeim sem á að taka á sig alla þá vinnu sem því fylgir viti af því – er ég hræddur um að álagið sé meira en viðtakendur verkefnanna ráða við. Skólar hafa fæstir bolmagn til að fjölga stöðugildum.

7:

Hér er fjallað um námstíma í starfsþjálfun og miðað við skilgreiningar í 2. grein nær hugtakið vinnustaðanám yfir bæði vinnustaðanám og starfsþjálfun en ekki í hina áttina. Það vinnustaðanám sem hér er um rætt á þá bara við um starfsþjálfun en ekki vinnustaðanám???

8:

Samkvæmt þessari grein á neminn að temja sér virðingu fyrir starfi sínu. Hvernig er það mælt?

9:

Í a) lið segir að fyrirtæki skuli hafa á að skipa hæfum tilsjónarmanni. Hvaða kröfur eru gerðar til slíks starfsmanns?

11:

Hér segir að skóli skuli útvega nema annað pláss ef samningi er slitið. Nú er það víða svo að aðeins eitt til tvö fyrirtæki hafa yfir nemaplássum að ráða í ákveðinni grein. Þetta setur skóla í ómögulega aðstöðu. Hver eru viðurlögin ef skóla tekst ekki að finna pláss fyrir nemann?

Að lokum: þetta plagg um mestu breytingu á iðnnámi frá upphafi er eflaust unnið af góðum hug en er fullt af villum, rangt farið með hugtök, og skilgreiningar skýra ekki þá flækju sem myndaðist við lög 92/2008 og reglugerð 840/2011. Lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við þá sem verkefnin lenda á, ekki við verkgreinakennara, atvinnulíf, fagfélög eða starfsgreinaráð. Hvergi kemur neitt fram um hvernig á að fjármagna þetta, það flytjast störf frá fyrirtækjum til skólanna og atvinnulífi er gert að halda úti kennslu, þetta kostar allt saman mikið fé en ekki er ljóst að það fjármagn verði tryggt. Ég legg til að byrjað verði upp á nýtt. Eða hefur Samtökum Iðnaðarins verið veitt umboð til skipulagningar og umsýslu iðnnáms og skólunum kemur það ekkert við?

Afrita slóð á umsögn

#7 Baldvin Björgvinsson – 13.12.2020

Reglugerð um vinnustaðanám

Umsögn Baldvins Björgvinssonar, rafvélavirkjameistara, raffræðings og rafiðnakennara við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, trúnaðarmaður kennara og stjórnarmaður í Félagi framhaldsskólakennara.

Í upphafi verð ég að gera athugasemd við þá staðreynd að mjög erfitt er að gera sér grein fyrir í texta samráðsgáttar hvenær verið er að tala um núgildandi reglugerð og hvenær verið er að tala um þá sem á að taka við. Eina leiðin er því að samlesa gildandi reglugerð og þá tilvonandi, það var mín aðferð.

Í 5. grein segir: Vinnustaðanámi telst lokið þegar nemandinn hefur, að mati iðnmeistara og umsjónarmanns skóla, náð öllum hæfniþáttum og þar með þeirri hæfni sem tilskilin er.

Það er ekki ásættanlegt að nemandinn sé undir það seldur að þurfa samþykki iðnmeistarans. Það er beinlínis hættulegt að setja nemann í þá stöðu. Þekkt er að ýmislegt getur orðið til þess að neminn getur ekki fengið uppáskrift iðnmeistarans. Þeim semur ekki, nemar hafa þurft að sækja laun sín fyrir dómstólum, hafa sætt ofbeldi af hálfu vinnuveitanda og svo framvegis. Það eru ótal ástæður til fyrir því að erfitt eða útilokað getur verið að fá uppáskrift iðnmeistarans. Uppáskrift opinbers aðila, til dæmis skóla á að duga. Þessi setning væri strax ásættanleg svona: Vinnustaðanámi telst lokið þegar nemandinn hefur, að mati iðnmeistara eða umsjónarmanns skóla, náð öllum hæfniþáttum og þar með þeirri hæfni sem tilskilin er.

Um 6. grein er það einfaldlega að segja að ef það fylgir ekki fjármagn með þessu til að greiða fyrir þá vinnu sem þarf að fara fram í skólanum við utanumhald vegna skólasamninga þá er þessi reglugerð tilgangslaus. Það fylgir því töluverð vinna sem fram kemur í þessari grein og auðvitað alveg útilokað að skólarnir geti bara bætt þessu á sig án þess að borgað sé fyrir þá vinnu.

Að lokum, það er ekki með nokkru móti hægt að samþykkja það að nemendur séu launalausir í vinnustaðanámi. Það er grundvallaratriði að fólk eigi að fá greitt fyrir vinnu sína, líka þau sem eru í vinnustaðanámi.

Að öðru leyti virðist vera almennt um að ræða jákvæðar breytingar samkvæmt tilvonandi reglugerð.

Afrita slóð á umsögn

#8 Ragnar A Wessman – 14.12.2020

Nokkrar athugasemdir vegna nýrrar reglugerðar um vinnustaðanám.

Athugasemdirnar eru teknar saman af Friðriki Sigurðssyni, matreiðslumeistara og fyrrverandi formanni sveinsprófsnefndar í matreiðslu, Guðmundi Guðmundssyni, fyrrverandi kennara við Hótel- og matvælaskólann og núverandi nefndarmanni í nemaleyfisnefnd í matreiðslu, Hermanni Þór Marinóssyni, kennara við Hótel- og matvælaskólann, Ragnari Wessman, fyrrverandi formanni sveinsprófsnefndar og kennara við Hótel- og matvælaskólann, Sigurði Daða Friðrikssyni, kennara og fagstjóra við Hótel- og matvælaskólann.

Í nýrri reglugerð um vinnustaðanám eru skilgreindar tvær ólíkar námsleiðir, þegar nánar er skoðað er vandséð að sjá hvaða tilgangur liggur að baki þessum breytingum.

Iðnmeistarasamningur er hin hefðbundna leið samkvæmt núverandi meistarakerfi. Með skólasamningi er gengið út frá því að fagskólinn sé ábyrgur fyrir því að tryggja væntanlegum iðnnema námssamning ef samningar nást ekki á milli nemanda og iðnmeistara. En hvað felst í þessu? Hér er væntanlega verið að tryggja jafnt aðgengi að iðnnámi? Nemandinn þarf þó samt sem áður að ná samningi við iðnmeistara en nú með milligöngu skólans. Í því ljósi má spyrja sig hvað fengið er með því umfram það sem alltaf hefur verið gert, en Hótel- og matvælaskólinn hefur í fjölmörgum tilfellum hjálpað til með að koma nemendum á samning.

Annað athyglivert atriði er að iðnemandi sem hefur nám sitt með skólasamningi er launalaus en sá sem er á iðnmeistarasamningi þiggur laun. Þetta skapar töluverðan mismun, en ekki verður annað séð að námslega séu þessar tvær leiðir sambærilegar. Ef svo er ekki þarf mismunurinn að koma fram með skýrum hætti hvað varðar lokamarkmið og námstíma.

Í greinargerð með reglugerðinni er fjallað um núverandi atvinnuástand vegna COVID-19 og að námssamningum hafi fækkað og jafnvel verið sagt upp. Þetta verður hins vegar að telja tímabundið ástand og að námssamningum muni fjölga aftur í náinni framtíð. Breytingar á reglugerð ættu því ekki að grundvallast á núverandi ástandi í veitingarekstri. Þá hefur iðnmeistarasamningur tryggt iðnnemum vinnu eftir að námstíma lýkur og hefur fjölgum iðnnema nokkurn veginn haldist í hendur við eftirspurn.

Jafnframt hafa fyrirtæki haldið að sér höndum í ráðningu nema síðustu tvö ár vegna minni afkomu í rekstri frá árinu 2019. Þá hefur mikil samkeppni og fjöldi gjaldþrota átt þátt í fækkun nýnema.

Það ekki ljóst með hvaða hætti þessar tvær leiðir, sem nefndar eru hér á undan, eigi að tryggja meiri nýliðun í greininni. En helsta breytingin virðist liggja í þessum tveimur samningsleiðum sem virðast ekki hafa verið ígrundaðar nægjanlega. Að mati ofanritaðra hefur margt verið vel gert og breytingar ættu ekki að vera breytinganna vegna.

Einn galli og um leið einn kostur við vinnustaðanám í matreiðslu er hversu ólíkt það er á hinum ýmsu námstöðum. Þessar ólíku aðstæður helgast af starfsemi, tækjakosti, verkefnum og metnaði á hverjum stað. Þannig leiðir vinnustaðanámið oft til mjög mismunandi niðurstaðna hvað varðar þekkingu, færni og hæfni nemans að námi loknu. Ferilbók ætti að vera það tæki sem jafnar stöðu iðnnemans hvað þetta varðar. Það er hins vegar nokkuð ljóst að notkun hennar virðist ekki vera almenn. Í þessu sambandi hefur Nemaleyfisnefnd hvatt til þess að þeir rekstraraðilar sem reka fleiri en eitt veitingahús víxli nemendum á milli staða til þess að tryggja fjölbreyttara nám.

Að endingu skal það tekið fram að mikil og góð tengsl eru á milli Hótel- og matvælaskólans og atvinnulífsins. Kannski væri réttast að þeir aðilar sem tengjast málinu settust niður og fyndu svör við spurningunum ,,Hver ættu hæfnimarkmið námsins að vera?“ ,,Hvert er hlutverk vinnustaðanámsins og hver er hlutur skólans?“ Jafnframt þarf að tryggja vinnustaðanáminu sama aðhald og skólanáminu. Mjög áríðandi er að taka upp markvissa notkun á námsferilsbók og eftirlit með henni til að tryggja iðnnemum jafngott nám á sem flestum námsstöðum.

Afrita slóð á umsögn

#9 Böðvar Ingi Guðbjartsson – 15.12.2020

Varðandi nýja reglugerð um vinnustaðanám.

Fagna því að virkja eigi ferilbókina nemendum til hagsbóta þar sem sumir nemendur fá takmarkaða innsýn inn í fjölbreytileika starfsins.

Varðandi skólaleiðina. Hér þarf að passa upp á mikla nærgætni og skynsemi. Tillögur eru um að nemendur séu án launa og vakna þá spurningar um kröfur til nemans og hvað vinnuveitandi getur farið fram á. Ýmsar ástæður eru fyrir því að vinnuveitandi treystir sér ekki til að ráða viðkomandi aðila og þar sem tillögur eru um að neminn verði í nokkrar vikur í þjálfun þá gæti neminn upplifað sig sem ekki einn af hópnum og jafnvel upplifað sig sem annars flokks þar sem engin vilji hafa viðkomandi á námssamningi.

Jákvætt er að efla samstarf skóla og atvinnulífs og vonandi fá fagfélögin aðkomu að þeirri hugmyndavinnu. Félagar í Félagi pípulagningameistara hafa í tugi ára tekið að sér iðnnema og þar er mikill reynslubanki á meðal meistara.

Afrita slóð á umsögn

#10 Þorsteinn Valur Baldvinsson – 16.12.2020

Varðandi nýja reglugerð um vinnustaðanám.

Fagna því að virkja eigi rafræna ferilbók nemenda en sakna þess að ekki er gefin kostur á afturvirkni á skráningu starfsreynslu því fjölmargir eru búnir að vinna svo árum skiptir í fagvinnu en fá þá kunnáttu aldrei metna inn í nám. Fagna einnig því að Iðnmeistarakerfið verði beygt því það er ekki eðlilegt að hægt sé að halda niðri fjölgun í starfsstéttum sem og halda niðri launum nema og starfsmanna þó þeir séu seldir út á fullum taxta með fullum stuðningi löggjafans. Nútíma þrælahald og löglegt afrán á að afleggja og því fagna ég þessari framför.

Afrita slóð á umsögn

#11 Hildur Elín Vignir – 16.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn IÐUNNAR fræðsluseturs.

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#12 Þráinn Lárusson – 16.12.2020

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

mrn@mrn.is

Egilsstaðir 16. desember 2020

Umsögn um reglugerð um vinnustaðanám

Ég tel mjög jákvætt að rafræn ferilbók um vinnustaðanám sé innleidd í iðnnámi. Enda mun rafræn ferilbók gefa betri yfirsýn yfir stöðu nema á námstímanum, bæði í skóla og á vinnustað og styðja við færniþjálfun hans í náminu.

Varðandi nokkur atriði sem tengjast breytingum á reglugerð um vinnustaðanám vil ég hinsvegar taka eftirfarandi fram. Reynsla mín bæði hérlendis og erlendis hefur kennt mér að iðnmeistaraleiðin er lang- skilvirkust þ.e.a.s samstarf framhaldsskóla og iðnmeistara, þegar kemur að kennslu og þjálfun nema í matvæla- og veitingagreinum. Skipuleg þjálfun og nám á vinnustað undir handleiðslu meistara hefur skilað miklum ávinningi fyrir nema og íslensk fyrirtæki. Nýjungar og framþróun í greinunum fer fyrst og fremst fram á vinnustað í samstarfi fagfólks.

Skólaleiðin er útfærð í 6. gr. reglugerðarinnar og þar kemur fram að skólasamningur sé ekki gerður fyrr en fullreynt er að koma nema á iðnmeistarasamning og jafnframt þarf að tilkynna slíkt til meistarafélags viðkomandi iðngreina sbr. 3. mgr. 6 gr. reglugerðarinnar. Ekki er ljóst hvert hlutverk meistarafélaga á að vera í þessu samhengi auk þess tel ég að orðalagið „fullreynt“ sé matskennt og óljóst.

Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um námstíma í starfsþjálfun og þar kemur fram að hæfni nemans ráði tímalengd vinnustaðanáms. Mikilvægt er að hæfnismat í vinnustaðanámi sé útfært þannig að viðmið við mat á hæfni sé gagnsætt og samræmt innan hverrar iðngreinar fyrir sig.

Að lokum vil ég nefna, bæði sem formaður Sviðstjórnar Iðunnar og Veitinganefndar SAF, að það hlýtur að teljast afar ámælisvert að ekkert samráð hafi verið haft við faggreinar framreiðslu og matreiðslu við undirbúning reglugerðarinnar. Samráð við fagaðila um allar breytingar er gríðarlega mikilvægt ekki síst þegar um algera kerfisbreytingu er að ræða varðandi fyrirkomulag fagnáms. Faggreinar geta verið mjög mismunandi þegar kemur að áherslum í hæfniskröfum.

Með vinsemd og virðingu

Þráinn Lárusson

Matreiðslumeistari &

Stjórnarformaður 701 Hótels ehf

Afrita slóð á umsögn

#13 Óskar Ingi Sigurðsson – 16.12.2020

Fundur í starfsgreinaráði rafiðna þriðjudaginn 15.12.2020

Mikil umræða varð um framkvæmd vinnustaðanáms, Hvernig það skuli framkvæmt og hvernig það verði fjármagnað. Hér eru nokkrar hugleiðingar.

* Á nemi sem skóli kemur til meistara að vera launalaus en sá sem fær samning fær einnig laun.

* Ef skóli kemur nema ekki á samning hjá meistara á þá að kenna viðkomandi nema innan skólans eða má nota hann í verkefni innan skóla til dæmis viðhaldsvinnu og breytingar á raflögnum.

* Hvernig á að fjármagna kennslu nemans þann tíma sem hann er í umsjón skólans. Er ekki hætt við að meistarar vilji frekar fá nema frá skóla launalaust en að taka hann á samning.

*Hefur verið ákveðið hvernig réttindamál og tryggingar nema eru á skólaleið, er það hugsanlega á ábyrgð skóla og kennara?

* Nemar á námssamningi og skólaleið sem eru í vinnu og halda ferilbók sem skóli á að fylgjast með, hvernig á því eftirliti að vera háttað.

*Er ekki rétt að spýta í lófana og gera vinnustaðasjóð sem getur greitt öllum nemum laun á námssamningi?

*Er hægt að skipuleggja nám þannig að allir nemar fari í styttri kynningar hjá mismunandi fyrirtækjum samhliða skóla?

*Nemendur geta ekki samkvæmt námskrá í rafiðngreinum hafið vinnustaðanám fyrr en þeir hafa lokið grunndeild (hér höfum við talað um fyrsta árið í náminu eða tvær annir). Þannig að eðlilegt er að eftir þennan tíma þurfi nemandinn, skólinn og eitthvert fyrirtæki að gera með sér þríliða samning um framtíð nemandans.

*Telji skólinn að nemandinn sé ekki til þess fallinn að halda náminu áfram eftir fyrsta námsárið ætti skólinn að geta vísað nemendanum á aðra valkosti.

*Fáist ekki pláss fyrir nemendann hjá fyrirtæki þá er stór spurning hvað skal gera.

*Er skólinn ábyrgur fyrir lausn málsins?

*Skólaleið, hvernig ætti hún að framkvæmast ef fyrirtækin í greininni eru þegar búinn að taka við öllum þeim nemendum sem þeir treysta sér til?

*Skólarnir hafa ekki aðstöðu né fjármagn til að kenna eða þjálfa nemendurna til þeirrar færni sem þeir þurfa til að ljúka náminu.

*Allar líkur eru á að ef þessi reglugerð verður að veruleika að þá fari skólarnir að takmarka aðgang að náminu og þá er farið fyrir lítið sú vinna sem verið hefur í gangi með að fjölga þeim sem velja sér starfs- og verknám að loknum grunnskóla.

*Ein leið í öllu þessu væri að útskrifa nemandann sem rafvirkja eftir að skólanum líkur og síðan þarf hann að finna sér sjálfur starfsþjálfun sem hann safnar sér upp smá saman og færir í ferilbók og geti þá að lokum fengið skírteini sem viðurkenningu um að hann hafi öðlast þá færni sem þarf til að geta starfað sjálfstætt.

*Þetta er ekki ólíkt því sem þarf núna þegar íslenskur rafvirki vill fara og vinna erlendis þá þarf hann að sýna fram á að hann hafi starfað við fagið í ákveðinn tíma til að geta starfað þar.

Tækniskólinn og VMA bjóða uppá skólaleið í rafvirkjun sem styttir samningstímann um 18 vikur það er eina önn, er það ekki vísir í rétta átt færa síðan sveinspróf að þeim tímapunkti.

Óskar Ingi Sigurðsson

Formaður starfsgreinaráðs rafiðna

Afrita slóð á umsögn

#14 Baldur Sæmundsson – 17.12.2020

Núverandi skipulag verk- og starfsnáms gerir ráð fyrir að starfsgreinaráð, fyrir hönd atvinnulífsins, skilgreini starfalýsingar og hæfnikröfur fyrir hvert starf og að þær séu endurskoðaðar reglulega.

Hæfnikröfur og lýsing á því hvað nemendur læra í skóla og á vinnustað ásamt siðareglum voru unnar af fagaðilum mavælagreina og lokið árið 2017. Þar komu að fulltrúar SAF, Matvís, Hótel- og matvælaskólans í MK, Iðan fræðslusetur og starfsgreinaráð matvæla- veitinga- og ferðaþjónustugreina.

Starfsnámsskólarnir skipuleggja síðan námsbrautalýsingar svo nemendur öðlist þá hæfni sem atvinnulífið þarfnast á hverjum tíma.

Atvinnulífið á eitt og sér ekki að hafa skoðun á því hvaða færni þarf á hverjum tíma. Það er ágætt að fá skoðun á því hvað þarf hverju sinni en faglegar hefðir (teorískar hefðir) þurfa líka að vera ráðandi. Ekki hefur verið ágreiningur um þessa þætti milli skóla og atvinnulífs í matvælagreinum. Það má ekki horfa fram hjá því að nemendur sækja í síauknum mæli erlendis til starfa og því þarf námið þeirra að endurspegla þær kröfur sem gerðar eru til fagsins víðar en hér á landi.

Í meginatriðum, og með fáum undantekningum, er vinnustaðanám skipulagt þannig að gerður er námssamningur milli iðnmeistara og iðnnema. Kveðið er á um umfang vinnustaðanáms í námsbrautalýsingum, þar sem vinnuviknafjöldi er tilgreindur. Fjöldi vinnuvikna er ólíkur milli iðngreina er yfirleitt á bilinu 48 – 120 vikur. Vinnustaðanámið fer þannig fram að gerður er starfsþjálfunarsamningur. Nemandinn er launþegi hjá því fyrirtæki sem meistarinn starfar hjá eða rekur og þiggur laun samkvæmt kjarasamningi um nemalaun. Samningstíminn er mældur með lífeyrissjóðsgreiðslum atvinnurekanda. Þegar tilteknum vikufjölda er náð samkvæmt lífeyrissjóðsgreiðslum telst viðkomandi nemandi hafa lokið vinnustaðanáminu.

Í núverandi atvinnuástandi hefur nemendum á starfsþjálfunarsamningum fækkað. Munar þar mestu um fækkun nema í matreiðslu, framreiðslu, húsasmíði og rafiðngreinum.

Þessi setning er áhugaverð svo ekki sé meira sagt. Það hefur ekki verið hægt að halda úti heildstæðu námi í kjötiðn í mörg ár. Hef ég þar talað fyrir mjög daufum eyrum. Einnig er útlitið í bakstri svipað og ekki nægjanlega gott í framreiðslunni eins og kemur fram hér á undan. Því er nauðsynlegt að gera eitthvað róttækt í þeim efnum. Hitt er að matreiðslan hefur staðið mjög sterk fyrir utan eina önn sem mig minnir að hafi verið árið 2002. Þegar námið er skoðað þá er ekki sjálfgefið að það sem virkar vel í einni grein virki vel í annarri. Því þarf að mínu viti að skoða nám í bakstri, framreiðslu og kjötiðnað sem sér mál og matreiðsluna sem sér mál. Ég er tilbúinn að koma að því skipulagi sé þess óskað.

Fyrirtæki hafa haldið að sér höndum og síður tekið nýja nema á námssamning í stað þeirra sem ljúka vinnustaðanámi. Einnig hefur borið á því að námssamningum nema hafi verið sagt upp og þeir ekki komist á námssamning aftur eða annars staðar.

Hvað varðar matvælagreinar þá er rýr nýliðun komin til af því ástandi sem varir í heiminum vegna Covid 19. Að öðru leyti þá er það bundið í námskrá matvælagreina að nemendur sé komnir á samning áður en nám í skóla hefst. Hefur það haft í för með sér að nemendur þurfa ekki að leita sér að samningi sjálfir heldur eru þeir þegar komnir með samninginn. Hvað varðar rof á samningum undafarið þá er það afleiðing af veirunni.

Á haustönn 2020 tóku starfsnámsskólarnir jafnframt inn fleiri nemendur en þeir hafa alla jafna gert vegna mikillar eftirspurnar. Sú fjölgun mun leiða til þess að fleiri nemar þurfa að komast á samning en áður, samhliða þrengingum í atvinnulífinu.

Þetta hefur ekki átt við um matvælagreinar.

Sumar iðngreinar hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Til eru greinar sem eru að miklu leyti samansettar af einyrkjum og fámennum vinnustöðum. Slíkar greinar eiga erfitt með að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja því að taka nema í vinnustaðanám. Aðrar greinar hafa einnig orðið sérhæfðari og ekki hefur því verið unnt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til iðnmeistara á aðeins einum vinnustað. Kallað hefur verið eftir nýjum leiðum og auknu samstarfi skóla og atvinnulífis við að útskrifa nemendur við þessar kringumstæður. Þörf er á nýliðun í mörgum af þessum greinum og því nauðsynlegt að fjölga möguleikum nemenda og mynda sterkari tengsl atvinnulífs og skóla.

Vegna þessa hefur verið gefin út í gegnum tíðina A og B leyfi í matvælagreinum.

Í drögum að nýrri reglugerð um vinnustaðanám eru nú tilgreindar tvær leiðir í vinnustaðanámi; annars vegar iðnmeistaraleið, sem byggir á núverandi samningsleið og hins vegar skólaleið, sem er ný. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir óvissu nemenda sem vilja stunda iðnnám þar sem útskrift hans verður á ábyrgð skóla. Hægt verður að grípa til ráðstafana ef nemandi kemst ekki á hefðbundinn iðnmeistarasamning. Með breytingum á reglugerðinni má einnig ætla að hægt verði að dragi úr líkum á brotthvarf nemenda.

Samkvæmt gildandi reglugerð er nemanda gert að finna sér iðnmeistara og gera við hann samning. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í nýrri reglugerð verður skólinn ábyrgur fyrir því að nemandinn komist á samning. Þessi breyting er í takt við umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar sagði m.a.: „Frumvarpið miðar að því:… að tryggja hag og stöðu nemenda í iðn- og verknámi, og starfsnámi almennt, m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi“ og „Að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Í dag er slíkt undir hælinn lagt, þ.e. hvort nemandinn komist í starfsþjálfun annars vegar og hins vegar hvort hún komi að því gagni sem þarf.

Það á ekki við um matvælagreinar að nemendur komist ekki á samning því neminn er á samningi. Það hefur aftur á móti verið áhyggju efni um nokkurt skeið að nemandinn fá nauðsynlega kennslu og þjálfun á starfsnámsstað. Það var m.a. ástæðan fyrir því að búið var til skipurit fyrir bakstur, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu í námskrárvinnunni 2017 þar sem fram kemur hvaða þætti vinnustaður á að annast og hvað þætti skólinn á að annast. Með vinnu sem nú á sér stað vegna uppfærslu á námsferilsbók verður vonandi hægt að festa vinnustaða þátt námsins en betur í sessi.

Hér er um mjög mikla breytingu að ræða frá núverandi kerfi þar sem það er á ábyrgð nemandans að komast í starfsþjálfun að loknu námi á viðkomandi braut í skóla. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta. Með þessu skapast einnig sterkari tengsl skóla og vinnustaða.“

Eins og áður segir er skv. reglugerðinni gert ráð fyrir að um verði að ræða tvær leiðir í vinnustaðanáminu, annars vegar iðnmeistaraleið og hins vegar svokölluð skólaleið. Áður en skólaleiðin er farin skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags iðnarinnar. Í skólaleiðinni er gert ráð fyrir að skólinn sjái um að skipuleggja vinnustaðanámið. Áfram er gert ráð fyrir að nemandi á iðnmeistarasamningi fái laun í samræmi við gildandi kjarasamning, en miðað er við að nemendur á skólasamningi verði launalausir. Eins og áður hefur komið fram er vinnustaðanám á skólaleið skipulögð af skóla og framkvæmd í samvinnu við vinnustað, en vinnustaðanám samkvæmt iðnmeistarasamningi er skipulagt af vinnustað. Vegna mögulegrar sérhæfingar vinnustaðar gera báðar leiðir ráð fyrir því að nemandi gæti þurft að nema á fleiri en einum vinnustað til að uppfylla kröfur um hæfni.

Aldur nemenda sem sótt hafa í matvælanám hefur í gegnum tíðna hefur verið í kringum 22 ára aldur. Það er spurning hvort að nemendur á þessum aldri hafi efni á því að fara í ólaunað starfsnám í skóla og því aðeins áhyggur af því. Nauðsynlegt er að koma á blönduðu námi þar sem skólaleiðin og vel skipulagt námt á starfsnámsstað virkar saman. Þessu fyrirkomulagi þyrfti að koma í framkvæmd í ákveðnum matvælagreinum þar sem aðsókn í nám í viðkomandi greinum er lítil.

Tímalengd starfsþjálfunar er í núverandi kerfi skilgreind í vikum og birt í námsbrautalýsingum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að birt tímamörk í námsbrautalýsingum séu hámarkstími starfsþjálfunar, en mat á hæfni nemanda ráði tímalengd starfsþjálfunar. Þannig geti námstími orðið mislangur. Miðað er við að fulltrúi skóla og vinnustaðar meti sameiginlega hæfni nemanda í einstökum þáttum og haldi rafræna ferilbók utan um ferlið bæði þegar um er að ræða iðnmeistarasamning og skólasamning.

Menntamálastofnun hefur umsjón með rafrænni ferilbók, en í hana er skráð hæfni nemandans. Með notkun rafrænnar ferilbókar má efla gæði og samræmingu starfsþjálfunar, tryggja yfirsýn yfir hæfni og framvindu nemandans og auðvelda nemanda og skóla að halda utan um námið. Í rafrænu ferilbókinni er tiltekin hæfni nemanda staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á.

Öll starfsgreinaráð vinna nú að því að endurnýja starfalýsingar og hæfnikröfur, undir stjórn Menntamálastofnunar sem einnig heldur utan um vinnu faghópa við að skilgreina hæfniþætti starfa sem skráðir eru í rafræna ferilbók.

Afrita slóð á umsögn

#15 Þorbjörn Rúnarsson – 17.12.2020

Félag framhaldsskólakennara sendir meðfylgjandi umsögn.

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#16 Samtök ferðaþjónustunnar – 17.12.2020

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn SAF um drög að reglugerð um vinnustaðanám.

Ég væri þakklátur fyrir staðfestingu á móttöku.

Bestu kveðjur

F.h. SAF

Gunnar Valur

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#17 Samband íslenskra sveitarfélaga – 17.12.2020

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

f.h. sambandsins

Valgerður Rún Benediktsdóttir

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#18 Alþýðusamband Íslands – 17.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn ASÍ

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#19 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – 17.12.2020

Með fylgir umsögn Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#20 Sólborg L Steinþórsdóttir – 17.12.2020

Til mennta- og menningarmálaráðuneytis

Það er fagnaðarefni að unnið sé að breytingum á umhverfi vinnustaðanáms. Mikilvægt er að allt sem gert er miði að því að gera verk- og starfsnám meira aðlaðandi fyrir ungt fólk. Áherslur ráðherra menntamála eru skýrar og miklu skiptir fyrir atvinnulífið að fjölga eigi nemum í iðnnámi.

Ég vænti þess að ný reglugerð um vinnustaðanám muni styðja við þessi markmið. Þó eru nokkur atriði óljós varðandi breytta framkvæmd. Fyrst ber þar að nefna óvissu varðandi fjárhagslega þætti, bæði gagnvart fyrirtækjum og nemum. Skilgreina þarf kostnað varðandi það nýmæli sem skólaleiðin felur í sér og ákvarða hvar ábyrgð á nemanum liggur þegar hann er inni á vinnustaðnum. Einnig koma upp spurningar eins og hvort útskrifa megi nemendur sem ekki hafa komist inn á vinnustað?

Óheppilegt er að ekki skuli hafa farið fram samtal um þetta nýmæli við þær starfsgreinar sem um ræðir og samráð viðhaft við hagaðila. Mikilvægt er að bætt verði úr því áður en reglugerðin er sett til þess að tryggja að gæði náms á grundvelli nýrrar reglugerðar séu í samræmi við væntingar atvinnulífisins. Viðhalda verður jafnvægi á milli skóla og atvinnulífs í allri vinnu sem lýtur að skipulagi iðnnáms og starfsnáms.

Í breytingum felast alltaf tækifæri og mikilvægt er að þau séu nýtt til framþróunar. Þannig gæti maður t.d. séð fyrir sér að hægt verði að bæta aðgengi þeirra sem búa á landsbyggðinni að fjarnámi í bóklegu iðnnámi og taka verklega tíma í lotum. Með því væri verið að gera starfsnám aðgengilegra fyrir þá sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu og um leið auka aðgengi fyrirtækja á landsbyggðinni að iðnmenntuðu fólki. Hérna er ég sérstaklega að horfa til þeirra starfsgreina er heyra undir starfsgreinaráð matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina.

Tilkoma rafrænnar ferilbókar er mjög jákvætt skref og skapar svigrúm gagnvart lengd á námstíma eftir færni nemandans sem ætti að vera hvetjandi og gera námið meira aðlaðandi.

Það er trú mín og von að með öflugu samtali hagaðila náist að gera verk- og starfsnám að eftirsóknarverðum kosti í samanburði við aðra menntun. Nýmæli sem snýr að skólasamningum um vinnustaðanám (skólaleið) miðar að því marki en samstaða allra hlutaðeigandi aðila – skóla og atvinnulífs – er forsenda þess að árangur náist.

Virðingarfyllst,

Sólborg L. Steinþórsdóttir

formaður starfsgreinaráðs matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina

Afrita slóð á umsögn

#21 Þór Garðar Þórarinsson – 17.12.2020

Umsögn starfsgreinaráð heilbrigðis-félags- og uppeldisgreina varðandi drög að reglugerð um vinnustaðanám.

Starfgreinaráðið er sammála megininntaki þessarar reglugerðardraga og getur ekki annað séð en að greinarnar sem falla undir ráðið framfylgi þeirri skilgreiningu sem fellur að skólasamningi um vinnustaðanám (skólaleið). Ráðið vill hins vegar benda á að þær tvær leiðir sem tilgreindar eru mega ekki útiloka blandaða leið þ.e. að hluti verknáms sé á ábyrgð skóla og sé launalaust og hluti sé á launum líkt og hjá sjúkraliðum. Starfsgreinaráð fagnar innleiðingu á Rafrænni ferilbók. Vinna við ferilbók fyrir sjúkraliða er nú þegar hafin og telur ráðið að sú vinna verði öllum sem að henni koma til hagsbóta.

Afrita slóð á umsögn

#22 Ólafur Hjörtur Sigurjónsson – 17.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn eftirfarandi starfsnámsskóla:

Borgarholtsskóli

Fisktækniskóli Íslands

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra

Fjölbrautaskóli Suðurlands

Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Vesturlands

Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum

Menntaskólinn á Ísafirði

Menntaskólinn í Kópavogi

Tækniskólinn

Verkmenntaskóli Austurlands

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#23 Samband íslenskra framhaldsskólanema (S.Í.F) – 17.12.2020

Efni: Umsögn Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) um breytingar á reglugerð um vinnustaðanám.

SÍF fagnar því sem fram kemur í nýrri reglugerð, að rafrænar ferilbækur skuli innleiddar í öllum iðngreinum fyrir árslok 2021 enda annarskonar fyrirkomulag mikil tímaskekkja.

Einnig telur félagið það mikið gleðiefni að lengd starfsnáms nemenda skuli miðast við færni en ekki fastan fjölda vikna enda vikufjöldi engin trygging fyrir færni nemenda.

2. gr.

Félagið telur að ef nota á tvær mismunandi gerðir samninga nemenda, iðnmeistarasamning og skólasamning, það þarf að gera skýrari grein á milli skilgreininganna á samningunum enda hljóði þær svo gott sem alveg eins, eins og reglugerðin er núna.

Einnig er óljóst hvaða aðilar skuli eiga hlut að skólasamningum en í 2. gr. stendur „Skólasamningur er námssamningur milli nemanda, skóla og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um að veita nemanda tilskilda menntun…“ en í 5.gr. segir: „Skólasamningur, skv. 2. gr. er gerður milli skóla og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um vinnustaðanám nemandans sem fer fram á vinnustað.“

4. gr.

Afar mikilvægt er að fjármagn til umsýsluaðila fylgi tillögunni enda ljóst að mikið verk er fyrir höndum, bæði við innleiðingu á breyttu kerfi og til að viðhalda því. Mikið er í húfi að vel takist til og verður því að tryggja að nægur mannskapur sé til staðar svo breytingarnar verði að raunverulegu gagni fyrir alla hagsmunaðila.

Félagið telur að aukið samtal og samvinna milli framhaldsskólanna og vinnumarkaðarins verði til mikilla bóta, fyrir alla aðila en þó sér í lagi nemendur. Vonir eru bundnar við að þannig megi gera námið enn skilvirkara, bæði innan sem utan skólans og að tryggt sé að það verði ávallt í takt við nýjustu þekkingu og tækni.

Félagið telur réttast að skóli nemandans sé umsýsluaðili iðnmeistara- og skólasamninga enda sá aðili sem er í mestum samskiptum við nemandann á meðan á námi hans stendur.

SÍF telur það jákvætt að umsýsluaðila sé heimilt að fela fleiri en einu fyrirtæki að annast vinnustaðanám nemenda ef þannig ber við enda mikilvægt að nemendur fái sem fjölbreyttustu starfsreynslu og ekki öll fyrirtæki/meistarar sem geta veitt það þótt þau geti veitt mjög góða reynslu í ákveðnum atriðum.

5. gr.

Í greininni er ekki nægilega skýrt hvort nemandinn beri ábyrgð á að finna sér iðnmeistara sjálfur eins og verið hefur eða hvort það sé á ábyrgð skólans líkt og segir í 6. gr. „Áður en gerður er skólasamningur skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags viðkomandi iðngreinar“. Sé um hið síðara að ræða telur félagið það alls ekki nægilega skýrt afhverju um tvo mismunandi samninga sé að ræða. Í báðum tilfellum er það á ábyrgð skólans að finna iðnmeistara fyrir iðnmeistara þar sem gerður er þríhliða samningur nemanda, skóla og iðnmeistara.

Í greinargerð með reglugerðinni segir „…er vinnustaðanám á skólaleið skipulögð af skóla og framkvæmd í samvinnu við vinnustað, en vinnustaðanám samkvæmt iðnmeistarasamningi er skipulagt af vinnustað”. Þetta er ekki nægilega skýrt í reglugerðinni.

6. gr.

„Áður en gerður er skólasamningur skal skóli hafa fullreynt að koma nemenda á iðnmeistarasamning og tilkynnt það til meistarafélags viðkomandi iðngreinar.“

Hér, líkt og í 5. gr. er ekki nægilega skýrt hver munurinn er á því að skólinn finni iðnmeistara fyrir nemanda og geri við hann iðnmeistarasamning eða að skólinn finni iðnmeistara fyrir nemanda og geri við hann skólasamning.

Í því samhengi gagnrýnir SÍF hvernig mismuna á nemendum eftir því hvort þeir séu á iðnmeistarasamningi eða skólasamningi, þ.e.a.s. að fyrri hópurinn eigi að fá greitt samkvæmt gildandi kjarasamning fyrir nemendur í viðkomandi starfsnámi en sá síðari að vinna kauplaust.

7. gr.

SÍF telur það mikið fagnaðarefni að samkvæmt nýju reglugerðinni eigi námstími nemenda í starfsþjálfun að miða við færni þeirra en ekki fyrirfram ákveðinn tíma enda fjöldi vikna ekki ávísun á þá fjölbreyttu færni sem hvert fag krefst.

Þá er einnig jákvætt að það verði sameiginlegt mat iðnmeistara og fulltrúa hvers skóla hvenær nemandi uppfyllir hæfnikröfur.

8. gr.

SÍF gagnrýnir að gerð verði krafa um það að nemandi hafi tamið sér virðingu fyrir því starfi sem hann nemur, ekki er til mælikvarði á það og því erfitt fyrir aðra að meta. Auk þess sem fá dæmi eru um slíkar kröfur í sérhæfðu námi á háskólastigi.

Virðingarfyllst

Framkvæmdastjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema

Viðhengi

Afrita slóð á umsögn

#24 Iðnfélögin – 18.12.2020

Meðfylgjandi er umsögn Fagfélaganna fyrir hönd KLIPP -félag hársnyrtisveina, Matvís – matvæla og veitingafélag Íslands, Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn -Samband iðnfélaga og VM -félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Viðhengi

Fleira áhugavert: