Ouarzazate Marokkó – Stærsta speglaorkuver heimsins
Grein/Linkur: Flabeg gerir það gott í Marokkó
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Febrúar 2016
Flabeg gerir það gott í Marokkó
Snemma á ferli Orkubloggsins birtist færsla þar sem fullyrt var að þýska „Flabeg sé áhugaverðasta fyrirtækið í CSP-speglabransanum“. Nú rúmum sjö árum síðar má segja að þetta hafi sannast. Árið 2013 var Flabeg keypt af risastórum arabískum fjárfestingasjóði, ACWA Holding, og nú í febrúar 2016 er speglatækni Flabeg að baki glænýju og stærsta speglaorkuveri heimsins. Sem er Ouarzazate-sólarorkuverið sunnarlega í Marokkó.
Umrædd sólarorkutækni gengur út á það að safna sólgeisluninni í brennipunkt með risastórum speglum (oft íhvolfum en einnig eru þarna dæmi um flata spegla). Á ensku er talað um Concentrated Solar Power eða CSP. Með þessari aðferð næst að mynda mikinn hita sem nýtist til að skapa gufuþrýsting sem knýr túrbínu. Þar að auki má nota hitann til að hita upp sérstaka saltlausn, sem geymd er á stórum tönkum, og nýta þann hita til að knýja hverfilinn fram eftir kvöldi, vel eftir að dimmt er orðið.
Þetta er sem sagt sniðug aðferð til að framleiða rafmagn. En líka nokkuð dýr aðferð. Stofnkostnaðurinn er mikill og ætlað er að framleiðslukostnaður þessarar raforku yfir líftíma orkuversins sé oft nálægt 200 USD/MWst. Sem er t.d. um eða rúmlega tífalt það verð sem Landsvirkjun er nú almennt að selja raforkuna á til stóriðjunnar hér (þ.e. meðalverð án flutnings, m.v. núverandi álverð).
Þetta CSP hljómar auðvitað sem afar dýrt rafmagn. En í reynd er þetta t.a.m. ekki svo mikið dýrara en sem nemur kostnaði við að framleiða raforku með stórum vindrafstöðvum utan við ströndina (offshore wind). Slíkt er orðið algengt t.d. í Danmörku og Bretlandi.
Víða úti í heimi er sem sagt álitið þokkalegt ef unnt er að auka græna rafmagnsframleiðslu jafnvel þó svo verðið sé nálægt 200 USD/MWst. Þess vegna er CSP á þokkalegasta skriði. Það er engu að síður svo að þessi speglatækni hefur átt nokkuð erfitt síðustu árin. Á tímabili voru uppi miklar áætlanir um stórfellda uppbyggingu svona sólarorkuvera víða í löndunum við Miðjarðarhaf; allt frá Spáni og Marokkó til Túnis og Egyptalands. Vinnuheiti þeirrar áætlunar var Desertec og að henni komu mörg stærstu og öflugustu fyrirtæki Evrópu. En þegar niðursveifla varð í evrópska sólarokuiðnaðinum, m.a. vegna undirboða á kínverskum sólarsellum, fór að þrengja að hjá fyrirtækjum í þessum speglabransa. Og þegar arabíska vorið 2011 umbreyttist í hrikaleg innanlandsvandamál og átök víða í N-Afríku, var orðið augljóst að áætlanir Desertec myndu ekki verða að veruleika – í bili.
Þegar þarna var komið við sögu voru fyrirtækin sem höfðu haft hug á að taka þátt í uppbyggingu stórra speglaorkuvera í Marokkó farin að draga sig í hlé eitt af öðru. En stjórnvöld í Marokkó dóu ekki ráðalaus. Og tókst að fjármagna verkefnið með aðstoð Alþjóðabankans (World Bank).
Ouarzazate-sólarorkuverkefnið er hluti af metnaðarfullum áætlunum stjórnvalda í Marokkó um að setja upp um 2.000 MW af sólarorkuverum fram til ársins 2020. Ouarzazate verður alls 580 MW og verður reist í þremur áföngum.
Fyrsti áfanginn, sem nú er verið að ljúka við og nefnist Noor 1, er 160 MW og samanstendur af hundruðum þúsunda íhvolfum speglum sem standa í löngum röðum þarna í auðninni. Og það eru einmitt þessir speglar sem koma frá… engum öðrum en besta vini Orkubloggarans í Þýskalandi; Flabeg!
Þetta verður mikilvægur áfangi fyrir Marokkó í þeirri viðleitni að auka raforkuframleiðslu sína. Árið 2017 á framkvæmdum við Noor 2 og Noor 3 (þ.e. hina tvo áfanga verkefnisins) svo að vera lokið. Og svo virðist sem þetta merka sólarokuverkefni sé prýðileg staðfesting á því að upphafleg áform Desertec voru alls ekki út í hött. Þó svo ennþá kunni að vera ansið langt í að raforka frá sólarorkuverum í N-Afríku verði útflutningsvara til landanna norðan Miðjarðarhafsins.