Ísland – Mesti orkuframleiðandi/notandi veraldar m.v.h.

Grein/Linkur:   Orku- og loftslagsstefna stjórnvalda

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Desember 2009

Orku- og loftslagsstefna stjórnvalda

Þegar litið er til fólksfjölda einstakra ríkja og orkuframleiðslu, kemur svolítið athyglisvert í ljós: Ísland er mesti orkuframleiðandi veraldar.

Power_Consumption_Capita_2009

Power_Consumption_Capita_2009 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Já – jafnvel þó svo miðað sé við alla orku, bæði græna og svarta og þar með talin öll kolavinnsla ásamt allri olíu- og gasvinnslu, þá er Ísland nefnilega einhver allramesti orkuframleiðandi og orkunotandi veraldar. Miðað við stærð þjóðarinnar að sjálfsögðu; höfðatölu.

Það þykir kannski ekki par fínt að framleiða og nota svo svakalega mikla orku, eins og Íslendingar gera. Gæti verið túlkað sem bruðl og óhóf.  En þegar dýpra er kafað kemur jú upp sú stórkostlega staðreynd, að öll þessi mikla orkuframleiðsla Íslands byggist á grænni orku. Og þessi staðreynd skapar okkur Íslendingum mikla sérstöðu; þegar eingöngu er litið til grænu orkunnar verður Ísland líkt og fögur stjarna á svörtum himni.

Ástæðan fyrir því að Orkubloggið vill vekja athygli á þessari staðreynd, er að nú standa yfir í Kaupmannahöfn samningaviðræður um markmið og skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, eftir að s.k. Kyoto-tímabili lýkur 2012. Í því sambandi er nauðsynlegt að spá svolítið í þróun orkunotkunar og hvernig sum ríki heims, eins og flest Evrópuríkin, Bandaríkin og Kína, byggja efnahags sinn á kolvetnisbruna meðan önnur ríki nýta fyrst og fremst endurnýjanlegar náttúruauðlindir.

Eins og við öll vitum olli iðnbyltingin straumhvörfum í efnahagslífi heimsins. Grundvöllurinn að þeirri velmegun sem við þekkjum í dag, byggist á iðnvæðingu. Framan af voru kol undirstaða iðnbyltingarinnar. Á 20. öld tók svo olían við sem undirstaða iðnþróunar. Samfara þessu urðu miklar tækniframfarir, framfarir í matvælaframleiðslu, framfarir í læknisfræði o.s.frv. Framfarir sem þó allar byggðust á einum grundvallarþætti: Ódýrri orku.

Industrial_revolution_1

Industrial_revolution

En þessu fylgdi leiðinda fylgifiskur. Sem er stórfelld losun kolefnis vegna bruna á kolvetniseldsneyti. Menn deila að vísu um það hvort og hvaða áhrif kolefnislosunin hafi. Seint verður algerlega fullsannað að hún valdi umtalsverðri hlýnun og/eða neikvæðum veðurfarsbreytingum. Skynsamt fólk hlýtur þó að setja á sig öryggisbeltið þegar það sest upp í bíl; það er ekkert vit í öðru en að sporna gegn mögulegum alvarlegum loftslagsbreytingum af völdum manna. Annað væri alger einfeldni og fáheyrt fyrirhyggjuleysi.

Þess vegna er Orkubloggarinn einlægur stuðningsmaður þess að lönd heimsins reyni að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. En Orkubloggarinn álítur engu að síður mikilvægt að skynsemi og raunsæi ráði för í loftslagsstefnu Íslands. Og er afar hugsi yfir þeirri „metnaðarfullu“ stefnu íslenska umhverfisráðherrans og sitjandi ríkisstjórnar að Ísland eigi að vera í fararbroddi í þessari baráttu.

Wind_blades_china

Wind_blades_china

Lang mikilvægasta atriðið í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda felst í því að minnka hlutfall jarðefnaeldsneytis í orkunotkun. Flestar og nánast allar iðnvæddar þjóðir veraldarinnar fá orku sína að langstærstu leyti frá kolvetnisauðlindum í jörðu (kolum, olíu og gasi). Þessar þjóðir eiga tæknilega tiltölulega auðvelt með að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, t.d. með því að byggja fleiri vindorkuver, sólarorkuver, lághitavirkjanir og síðast en ekki síst kjarnorkuver.

Svo skiptir líka miklu að spara orku með því t.d. að framleiða sparneytnari bíla og einangra hús betur, en flestir Íslendingar sem hafa ferðast erlendis þekkja það hversu ömurlega illa einangruð hús í útlöndum eru.

Ísland er mesta orkuveldi veraldar. Engin þjóð framleiðir og notar jafn mikla orku eins og Íslendingar, m.v. fólksfjölda. Nema þá kannski olíuríkin við Persaflóa, auk þess sem olíuveldin Kanada og Noregur eru líka risaframleiðendur á orku.

Að einu leyti sker Ísland sig algerlega úr í þessum ofurorkuhópi: Allt rafmagn á Íslandi kemur nefnilega frá endurnýjanlegum orkulindum – þveröfugt við Persaflóaríkin sem byggja sína orkuframleiðslu og notkun eingöngu á olíu og gasi. Og þó svo bæði Noregur og Kanada framleiði mikið af grænni orku (með vatnsafli) er orkubúskapur þessara landa líka allt annar og svartari en Íslendinga. Af því bæði þessi lönd eru stórframleiðendur og útflytjendur á olíu og gasi.

Power_Consumption_Capita_2009_few_countriesÍsland er eitt örfárra dæma um vestrænt land þar sem raforkubúskapurinn byggir alfarið á endurnýjanlegri orku. Einungis Noregur kemst með tærnar þar sem Ísland hefur sína grænu hæla í raforkuframleiðslu og talsvert langt þar á eftir koma lönd eins og Nýja Sjáland og Kanada. Og sem fyrr segir eru bæði Noregur og Kanada stórtæk í olíuframleiðslu og olíuútflutningi. Og Kanadamenn þar að auki á kafi í einhverri sóðalegustu olíuframleiðslu heims (úr olíusandi). Það er þess vegna í meira lagi skrítið þegar því er haldið fram að Ísland þurfi að „bæta orðspor sitt“ í tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda.

Sérstaða Íslands í orkugeiranum er mikil. Og að sumu leyti bæði góð og slæm. Góð að því leyti að við eigum auðvelt með að fullnægja raforkuþörf okkar með endurnýjanlegri orku. En slæm að því leyti að við eigum nánast enga möguleika til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkubúskapnum.

Sumir kunna að segja að þetta sé ekki kjarni málsins. Að við eigum margvíslega möguleika til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, algerlega án tillits til þess hvernig staðið er hér að raforkuframleiðslu. Með nýrri og betri tækni gætum við t.d. minnkað losun frá fiskiskipaflotanum, við gætum sett strangari losunarkröfur á stóriðjuna og við gætum líka minnkað losun frá bílaflotanum með því að nota t.d. meira lífmassaeldsneyti og/eða rafbíla.

Industrial_revolution_2

Industrial_revolution

Þetta er allt satt og rétt. Íslenski bílaflotinn losar t.a.m. mikið af gróðurhúsalofttegundum og Íslendingar eiga ansið marga bíla. Og margt smátt getur vissulega gert eitt stórt.

Nú liggur loksins sæmilega ljóst fyrir hver er afstaða íslenskra stjórnvalda á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Af fyrstu drögum  að aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum, sem birt var á vef umhverfisráðuneytisins í gær 9. desember, virðist sem íslensk stjórnvöld miði að því að við verðum að mestu leyti samstíga Evrópusambandinu í því hversu mikið eigi hér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í grófum dráttum virðist stefnan gera ráð fyrir því að Ísland verði að fullu bundið að losunartakmörkunum ESB gagnvart bæði stóriðju og flugi. Einnig virðist gert ráð fyrir að losun frá annarri starfsemi verði minnkuð í takt við markmið ESB. Þetta er þó enn óljóst; í áðurnefndri aðgerðaráætlun frá því í gær er talað um 19-32% minni losun árið 2020 en var árið 2005 og í viðtölum hefur umhverfisráðherra ítrekað talað um 15% samdrátt í losun 2020 m.v. það sem var 1990. Það er þó a.m.k. ljóst að gert er ráð fyrir mjög miklum samdrætti í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum á næstu tíu árum. Og þar að auki má nefna að í aðgerðaráætluninni segir að íslensk stjórnvöld hafi sett sér það markmið að draga úr nettólosun (kolefnisbinding innifalin) um 50-75% fram til 2050. Hvort viðmiðunarárið þarna er 1990, 2005 eða eitthvað annað er ekki augljóst. Enda er í reynd einungis um drög að aðgerðaráætlun að ræða en raunveruleg loftslagsstefna íslenskra stjórnvalda ennþá óljós.

Það sem aftur á móti liggur fyrir er alger stefnubreyting frá því sem var í aðdraganda Kyoto-bókunarinnar. Þá var niðurstaðan sú að Ísland fékk mestu losunarheimildina; 10% umfram losunina viðmiðunarárið 1990. Þar að baki voru veigamikil rök og afar villandi þegar núverandi umhverfisráðherra lýsir þeirri losunarheimild Íslands í Kyoto-bókuninni sem „undanþágu“. Þetta var einfaldlega talin sanngjörn niðurstaða.

UNFCCC_logoÍ Kyoto-viðræðunum mótuðust samningsmarkmið Íslands af þeirri staðreynd að við framleiðum allt okkar rafmagn frá endurnýjanlegum auðlindum en ekki með kolvetniseldsneyti. Og þar var mjög litið til þess að ef Ísland ætti að taka á sig skuldbindingar um að draga úr losun, yrði útilokað að hér yrði byggð ný stóriðja á skuldbindingartímabilinu. Nú stendur aftur á móti til að Ísland – sem er eyja þúsundir km frá meginlandi Evrópu (mjög háð flugsamgöngum) og framleiðir allt sitt rafmagn með endurnýjanlegum orkulindum – ætli að taka á sig sambærilegar skuldbindingar í loftslagsmálum eins og eitthvert iðnvæddasta og mest mengandi ríkjabandalag heimsins.

Velta má fyrir sér hvað ráði þessum samningsmarkmiðum Íslands? Því er reyndar svarað í aðgerðaráætluninni, því þar segir berum orðum að eitt helsta leiðarljósið að baki henni sé „metnaður“. Að Ísland eigi að vera „í fararbroddi í viðleitni við að draga úr losun“. Þetta er athyglisvert. Samkvæmt þessu ætlar Ísland sér forystuhlutverk í að minnka kolefnislosun í veröldinni og tekur þess vegna á sig samsvarandi skyldur eins og einhverjir mestu kolvetnissóðar heimsins.

Hugsjónin er falleg. En er þetta rökrétt stefna?  Er einhver sanngirni eða rökvísi í því að lífræni bóndinn sem hefur varla notað eitt einasta korn af tilbúnum áburð í áratugi, svo dregin sé upp myndlíking, taki á sig skuldbindingu um að minnka áburðarnotkun sína til jafns á við verksmiðjubændurna. Væri ekki nær að Ísland legði fremur áherslu á að kynna sig sem einn af mikilvægum leikendunum í því að hjálpa versmiðjulandbúnaðinum – þ.e.a.s. þjóðunum sem eru ennþá nær algerlega háðar kolvetniseldsneyti – til að minnka þessa fíkn sína í kolvetniseldsneyti?

Desertec-map-big

Desertec-map-big

Við búum meira að segja svo vel að útí Evrópu eru nokkrir fremstu vísindamenn álfunnar og einhver öflugustu stórfyrirtækin búin að undirbúa jarðveginn fyrir okkur. Orkubloggarinn hefur áður nefnt Desertec-verkefnið, sem ætlað er að verða mikilvægur þáttur í því að breyta orkubúskap Evrópu. Þar er m.a. horft til möguleikans á að Evrópa kaupi græna orku frá Íslandi. Það ætti að vera einn af grunnvallarþáttunum í orku- og loftslagsstefnu íslenskra stjórnvalda. Bloggarinn hefur reyndar líka talað fyrir því að við eigum að brjótast útúr þessari þröngu og arfavitleysu Icesave-deilu og þess í stað bjóða breskum stjórnvöldum og ESB í viðræður um víðtæka samvinnu í orkumálum.

Hvergi í Evrópu er ónýtt endurnýjanleg orka aðgengilegri en á Íslandi. Sé miðað við fólksfjölda, þá á Ísland einfaldlega mestu og bestu tækifæri heimsins í endurnýjanlegri orku. Það skapar okkur einstaka möguleika.

Iceland_hot_spot

Iceland_hot_spot

En þetta virðast íslensk stjórnvöld ekki skynja. Telja framtíð Íslands og hinnar örsmáu íslensku þjóðar aftur á móti best borgið með því að við stimplum okkur í flokk með þeim ríkjum sem byggja orkubúskap sinn nánast alfarið á kolvetnisbruna. Að mati Orkubloggarans er einfaldlega ekki heil brú í þeirri stefnu.

Það er enginn vandi fyrir umhverfisráðherra og flokksmenn hennar að vera stórhuga í umhverfismálum, þó svo þau myndu draga aðeins úr metnaði sínum gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda. Alþingi getur vel varið meira fjármagni í að sporna gegn jarðvegseyðingu og ofbeit og/eða í endurheimt votlendis, án þess að múlbinda þjóðina til að taka þátt í kostnaði vegna nauðsynlegra breytinga á orkubúskap Evrópu. Ísland er einfaldlega grænasta raforkuland í heimi og á enga mengunarskuld að gjalda í alþjóðlegu samhengi.

Orkubloggið leyfir sér að minna á athyglisvert erindi Halldórs Þorgeirssonar  frá Orkuþingi árið 2001. Halldór var lykilmaður í að semja um hver yrði skuldbinding Íslands skv. Kyoto-bókuninni og er sennilega sá Íslendingur sem best þekkir til Loftslagssamningsins. Hann starfar nú á skrifstofu  Loftslagssamningsins í Bonn og gegnir þar einni æðstu stöðunni innan þessarar mikilvægu stofnunar. Það er auðvitað engan veginn víst að Halldór sé sammála því sem Orkubloggarinn hefur hér haldið fram. En í áðurnefndu erindi sagði Halldór m.a.:

„Ísland stendur mjög vel í loftslagsmálunum. Miklu skiptir að litið sé til réttra mælikvarða þegar mat er lagt á stöðu ríkja á þessu sviði. 96% losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnríkjunum kemur frá bruna jarðefnaeldsneytis. Notkun jarðefnaeldsneytis er því rót þess vanda sem jarðarbúar standa nú frammi fyrir gagnvart loftslagsbreytingum af manna völdum. Baráttan við loftslagsvandann snýst því öðru fremur um það að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og að nota endurnýjanlega orkugjafa annað hvort beint eða til þess að framleiða eldsneyti s.s. vetni.

Halldor_Thorgeirsson

Halldor_Thorgeirsson

Eins og staðan er í dag þá kemur 99,9 % af raforkuframleiðslunni hér á landi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. 70% af frumorkuþörfinni er mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta hlutfall er hæst hjá okkur af þeim ríkjum sem við berum okkur almennt saman við. Þetta hlutfall verður ekki hækkað enn frekar nema með því að draga úr olíunotkun í samgöngum og sjávarútvegi eða með því að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa t.d. með vetni sem millilið.

Það má því segja að loftslagsmálin snúist öðru fremur um orkubúskap mannkynsins. Ekki verður haldið áfram á þeirri braut að auka sífellt orkunotkunina og að mæta aukinni orkuþörf hvort sem er á heimilunum, í samgöngum eða í atvinnulífinu með jarðefnaeldsneyti. Áhugi hefur þegar aukist á nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu með þeim úrgangs- og öryggisvandamálum sem því tengjast. Nýting endurnýjanlegrar orku leysir ekki allan vanda en hún getur skipt miklu máli á vissum svæðum.

Mikilvægt er að aukning orkunotkunar í þróunarríkjunum verði mætt með endurnýjanlegum orkulindum þar sem kostur er. Þar eru víða ónýttir möguleikar. Skortur á þekkingu takmarkar hins vegar möguleika þróunarríkjanna til þess að nýta eigin orkulindir en litla þekkingu þarf hins vegar til þess að auka notkun á jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu. Það er því ljóst að þörfin fyrir þá þekkingu sem byggst hefur upp hér á landi við beislun orku náttúrunnar mun aukast og við Íslendingar getum miðlað öðrum af okkar reynslu.“

GeoSteam

GeoSteam

Nákvæmlega! Miðlum öðrum af okkar reynslu. Bjóðum fram okkar þekkingu og leitum eftir samstarfi um að nýta orku Íslands með skynsamlegum hætti og til hagsbóta fyrir bæði Íslendinga og aðra sem vilja kaupa og nýta sér þessa orku. En skipum okkur ekki í ruslflokk orkugeirans á grundvelli einhvers misskilins metnaðar um að Ísland þurfi að standa fremst í flokki þeirra sem draga úr losun.

Einhverjum kann að finnast þetta hálf undarlegt tuð hjá Orkubloggaranum. Er ekki barrrasta fínt að Ísland sýni „metnað“ í loftslagsmálum? Þar að auki virðist nokkuð almenn samstaða um málið. Ekki einu sinni krónískir nöldrarar eins og Samtök atvinnulífsins hafa gert athugasemd við málatilbúnað umhverfisráðherra.

Í reynd snýst þetta samt allt um peninga. Af aðgerðaráætluninni er augljóst að losunarmarkmiðunum er ætlað að réttlæta auknar álögur á t.d. eldsneyti og líklega einnig á bifreiðar. Það mun koma niður á kaupmætti almennings, hækka verðtryggð lán o.s.frv. Ennþá verra er, að ein af grunnforsendunum fyrir þessari losunarstefnu virðast vera einhver þokukennd tækifæri að koma fiskiskipaflotanum á „jurtaolíu“ eða annað lífmassaeldsneyti. Repjan er vissulega spennandi – en miðað við þau smáu verkefni sem eru í gangi hér með tilraunir af því tagi, er þetta vægast sagt vafsöm forsenda fyrir svo mikilvægri pólitískri ákvörðun sem loftslagsstefna stjórnvalda er.

airplane_vapor

airplane_vapor

Til að gera langa sögu stutta er satt að segja mikil óvissa um að unnt verði að standa við þau markmið að minnka losun hér verulega innan tíu ára eða svo. Nema þá a.m.k. með mjög umtalsverðum auknum skattaálögum. Þar að auki er vert að minnast þess að losunarheimildir hafa fjárhagslegt verðmæti. Íslands hefur þá sérstöðu að nota ekkert kolvetniseldsneyti til rafmagnsframleiðslu, meðan flest önnur ríki eru að framleiða 70-90% af rafmagninu sínu með kolvetnisbruna. Það er sérkennilegt að nýta ekki þessa sérstöðu og setja okkur þess í stað í sama flokk eins og kolsvartar kolaþjóðir Evrópu. Þó svo Íslendingar aki um á bílum og geri út fiskiskip er varla réttlætanlegt að við eigum að sætta okkur við jafn takmarkaðar losunarheimildir eins og þjóðir sem byggja velmegun sína og kolvetnisbruna.

Fyrir vikið er líklega best fyrir íslensku þjóðina að Kaupmannahafnar-ráðstefnan skili engri endanlegri niðurstöðu og íslensk stjórnvöld fái tækifæri til að endurmeta samningsmarkmið sín og kynna þau. Bara verst að nú er hann Halldór líklega ekki í samninganefnd Íslands.

Fleira áhugavert: