Hydraulic fracturing – Frakka, brotvinnsla, háþrýstitækni

Grein/Linkur:   Frakkað“ í New York

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

 

Janúar 2010

Frakkað“ í New York

Þeir kalla það fracking. Þetta hugtak er notað yfir nýja vinnslutækni í gasiðnaðinum vestur í Bandaríkjunum.

Fracking er dregið af nafnorðinu fracture, sem er sprunga eða brestur. Fullu nafni kallast þetta hydraulic fracturing. Þessi vinnsluaðferð felst í því að ryðja sér leið inní grjóthörð sandsteinslög, með því að beita háþrýstivatni; gjarnan blönduðu sandi og ýmsum efnum sem gera þrýstibununa ennþá öflugri. Þannig má brjótast þvers og kruss í gegnum sandsteininn, til að komast inn í þunn gaslögin sem þar liggja inniklemmd og þvinga gasið út og upp á yfirborðið.

Ekki var fyrr búið að finna upp á þessari vinnsluaðferð vestur í Texas, en til varð slanguryrðið fracking í gasiðnaðinum. Sú aðferð að beita sandblönduðu vatni undir háþrýstingi sem borunaraðferð, er reyndar fjörgömul. En það er alveg nýtt að nota þessa tækni við að nálgast gas.

fracking-drawing.jpg

fracking-drawing – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Upp á ástkæra ylhýra mætti kannski tala um brotvinnslu. Nema háþrýstitækni sé nærtækara hugtak. Brotvinnsla er samt kannski meira lýsandi; þessi aðferð við gasvinnslu veldur nefnilega litlum jarðskjálftum þegar vatnið brýtur sér leið í gegnum sandsteininn. Orsakar sem sagt bresti í jarðskorpunni, ef svo má segja. Kannski vilja samt einhverjir óþjóðhollir barrrasta nota lauflétt slangur og búa til íslensku sögnina að „frakka“.

Þó svo horfur séu á að þunnildisgasið verði jafnvel lausn á orkuvanda Bandaríkjanna til langrar framtíðar, þá er þetta umdeild vinnsluaðferð. Reyndar standa tveir afskaplega ólíkir hópar saman í andstöðu gegn háþrýstiaðferðinni. Annars vegar er fólk sem horfir til umhverfisverndar og vill alls ekki að Bandaríkin halli sér enn og aftur að kolefniseldsneyti. Og segja háþrýstitæknina þar að auki bæði sóun á vatni og skemmi líka vatnsból vegna mengunar sem fylgi vinnslunni. Hins vegar er svo kolaiðnaðurinn, sem segir þessar háþrýstiboranir stórhættulegar og það verði að stöðva þessa vitleysu eins og skot áður en alvarlegur jarðskjálfti verði. Hér má hafa í huga að meira framboð af gasi er jú ekki til þess fallið að hækka verð á kolum!

fracking-diagram.jpg

fracking-diagram

Það að sækja þunnildisgasið með háþrýstitækninni er sem sagt ekki nein sáttaleið þarna vestra. En þessi gasvinnsla gæti slakað á þeirri spennutreyju sem Bandaríkin eru í vegna innfluttrar orku. Þar að auki er þetta nýja gasævintýri mjög atvinnuskapandi. Pólitíkusarnir hallast því margir á sveif með því að þunnildisgasið verði sótt – sem allra fyrst og sem allra mest. Jafnvel undir Central Park í New York.

Í Bandaríkjunum heyrir flest það sem lýtur að vatnsbúskap landsmanna undir Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA). En það að nota háþrýstivatn í gasvinnslu fellur samt ekki undir alríkislög. Eftirlit með þessum háþrýstiborunum er nefnilega í höndum fylkjanna. Ástæðan fyrir því fyrirkomulagi er sögð vera sú, að gasiðnaðurinn hafi ekki viljað sæta takmörkunum vatnsverndarlöggjafarinnar. Og hafi náð sínu fram með massífum lobbýisma  í Washington DC, þegar Bandaríkjaþing samþykkti vatnsverndarlöggjöfina Safe Drinking Water Act árið 2005. Og stjórnvöld í Texas og fleiri fylkjum virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að leggja stein í götu þess að háþrýstivinnslan breiðist út. Þess vegna hefur þessum nýja gasvinnsluiðnaði stundum verið lýst sem paradís fjárfesta utan marka laga og réttar.

Orkubloggið hefur áður greint frá því að það er hreinlega allt að verða vitlaust í þunnildisgasinu þarna fyrir vestan. Nú er ævintýrið að breiðast út frá Texas og fleiri fylkjum Suðurríkjanna. Nýjasta svæðið þar sem háþrýstitæknin er að fara á fullt er sjálft New York fylki.

new_york_central_park_winter_948619.jpg

new_york_central_park_winter

Austurstrandarliðið í Nýju Jórvík hefur nokkrar áhyggjur af möguleikum neikvæðum fylgifiskum háþrýstitækninnar. Þar lítur fólk m.a. til þess að frá því þessi nýja tækni ruddi sér til rúms í Texas hafa þar á stuttum tíma mælst fleiri jarðskjálftar en næstu þrjá áratugi á undan. Ekki stórir skjálftar, en samt nóg til að titringurinn valdi mönnum áhyggjum.

Að auki er lítt vitað hvaða göróttu efnum gasleitarfyrirtækin blanda í vatnið, til að gera það áhrifameira í að brjótast gegnum sandsteininn. Vitað er að þar er um að ræða alls konar vafasamt glundur og margir hafa áhyggjur af því að þetta geti mengað vatnsból í nágrenni vinnslusvæðanna. Sumir álíta hreinlega að þetta skyndilega gasæði geti valdið einhverju mesta umhverfistjóni í sögu New York borgar!

Það er óneitanlega frekar kjánalegt, að miklu strangari reglur gilda um olíu- og gasleit t.d. djúpt útí Mexíkóflóa heldur heldur en gildir um það að stunda gasvinnslu með háþrýstivatnsborunum í miðjum stórborgum. Þess vegna hljóta senn að verða settar ítarlegri og strangari reglur um vinnslu af þessu tagi.

new_york_no_fracking.png

new_york_no_fracking

Talið er að allt að 40-60% af sand- og efnablönduðu háþrýstivatninu verði eftir í berginu og jarðlögum, þrátt fyrir uppdælingu. Hverjum manni ætti að vera augljóst að ekki er hægt að una við óvissuna og mengunarhættuna sem þetta kann að skapa. Vandamálið er bara að í hugum pólitíkusa er auðlindanýting einfaldlega oft meira spennandi en umhverfisvernd. Enda eru styrkirnir frá gasvinnslufyrirtækjunum í kosningasjóðina líklega umtalsverðir. Þess vegna lítur út fyrir að XTO og aðrir í þunnildisgasbransanum geti áfram „frakkað“ á fullu án mikilla afskipta stjórnvalda.

Fleira áhugavert: