Hvaða orkugjafar munu leysa olíuna af hólmi ?
Grein/Linkur: Framtíðarorkan
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
Apríl 2008
Framtíðarorkan
Hvaða orkugjafar tel ég að muni leysa olíuna af hólmi. Mér er ljúft að svara því og segja mína skoðun á þessu.
1. Enginn orkugjafi mun á okkar tímum leysa olíuna af hólmi. Enda er nú meira af henni en nokkru sinni fyrr. Og þó svo verðið hækki verður olían áfram til staðar og áfram notuð rétt eins og nú.
2. Hátt olíuverð mun gera aðra orkugjafa samkeppnishæfari. Það mun hvetja til fjárfestinga í öðrum orkugjöfum og meira fjármagn mun leiða til hraðari tækniframfara, sem bæði munu stuðla að betri orkunýtingu og t.d. ódýrari vindorku og ódýrari sólarorku. En olía, gas og kol verða áfram mikilvægustu orkugjafarnir.
3. Til skemmri tíma litið mun lítil breyting verða. Notkun endurnýjanlegrar orku mun aukast hlutfallslega hraðar, en þó áfram einungis vera lítið brot af allri orkunotkuninni. Líklegt er að ef olíuverð helst áfram mjög hátt, muni notkun kola aukast umtalsvert til að framleiða raforku og einnig hlýtur að verða meiri notkun á kjarnorku.
4. Til lengri tíma finnst mér líklegt að bílar muni ganga fyrir rafmagni. En ég sé ekki annað fyrir mér en að bæði flugvélar og skip muni um langa framtíð nota sömu orkugjafa og nú. Smám saman munu iðnaður og heimili fá meira af orkunni frá öðrum orkugjöfum en í dag (þá er ég að tala um útlönd). En eins og er, er ekki að sjá neinar meiri háttar hraðar breytingar. Þetta mun gerast hægt og sígandi.
5. En hvaðan á „nýja“ orkan að koma? Til lengri tíma litið gæti ég trúað því að rafmagnsframleiðsla með sólarorku eigi eftir að aukast mikið. Þá mun þörfin fyrir olíu, gas, kol og kjarnorku hugsanlega minnka umtalsvert. Þetta er jafnvel ekki bara draumsýn. Allra síðustu ár hefur orðið hröð þróun í framleiðslu rafmagns með ódýrari sólarorkutækni en þekkst hefur til þessa. Sú tækni felst í að safna sólarorkunni með sérstökum speglum, í brennipunkt, þar sem gríðarlegur hiti myndast og er hann nýttur til að búa til öflugan gufuþrýsting sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn (reyndar eru til nokkrar mismunandi aðferðir við rafmagnsframleiðsluna). Enn fremur er nú hægt að geyma rafmagnið sem framleitt er með sólarorku. Tæknin er ekki glæný en er nú orðin ódýrari og hagkvæmari en áður.
6. Fyrsta einkarekna orkuverið af þessu tagi (Nevada Solar One) tók til starfa í Nevada í Bandaríkjunum á liðnu ári og framleiðir um 64 MW. Það eru svo sem engin ósköp – líklega svipað og Kröfluvirkjun. En til samanburðar má nefna að menn álíta að bara í Nevada einu sé unnt að framleiða 600.000 MW með þessari tækni (og nú er verið að skoða enn stærri möguleika á svona orkuframleiðslu í Sahara, í samstarfi Evrópusambandsins og Norður-Afríkuríkja).
.