OECD, afnema löggildinguna – Draga úr reglubyrði
Grein/Linkur: Vill afnema löggildingu bakara hér á landi
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Nóvember 2020
Vill afnema löggildingu bakara hér á landi
Á meðal þess sem Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), nefndi sérstaklega þegar hann fór yfir reglur sem þyrfti að endurskoða á Íslandi til að draga úr óþarfa reglum og stuðla að aukinni samkeppni var afnám löggildingar fyrir bakara. Þá kom hann inn á aukna skilvirkni í skipulagsmálum og breytt eignar- og rekstrarhald Keflavíkurflugvallar.
Gurría var meðal þeirra sem fluttu ávarp á kynningarfundi um nýja skýrslu OECD um samkeppnismat stofnunarinnar á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sem gerð var að beiðni stjórnvalda.
Gurría benti á að beðið hefði verið um skýrsluna árið 2018 þegar atvinnulífið var á fullri ferð, en önnur staða væri uppi núna vegna kórónuveirufaraldursins. Því hefðu áherslur aðeins breyst, en hann benti á að þótt öllum krísum fylgdu erfiðleikar, þá væru þar líka tækifæri. Í þetta skiptið væri grunnurinn að því að koma sterkari til baka að auka framleiðni og sveigjanleika.
Í heild leggur OECD fram 438 tillögur að breytingum á gildandi lögum og reglum sem snúa að því að skýra betur regluverk fyrir ferðaþjónustu og byggingariðnað og að draga úr óþarfa reglubyrði til að stuðla að aukinni samkeppni innan greinanna.
Í fyrsta lagi nefndi Gurría að það þyrfti að straumlínulaga skipulagsferla og einfalda leyfismál. Slíkt gæti dregið mikið úr kostnaði.
Í öðru lagi nefndi hann breytingar á reglum um löggildingu starfsgreina.Tók hann sérstaklega dæmi um að hér á landi þyrftu bakarar að vera með sérstök leyfi. Sagði hann að tillaga OECD væri að afnema ætti slíkt og að reglur um matvælaöryggi ættu að vera nægar. Sagði hann breytingar á lögum um löggildingar geta dregið úr kostnaði, bætt val neytenda og ýtt undir atvinnu og framleiðni.
Í skýrslu OECD er einnig lagt til að afnema löggildingu ljósmyndara og taka til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingarstjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga.
Í þriðja lagi nefndi Gurría svo málefni Isavia og Keflavíkurflugvallar. Benti hann á að kostnaður félagsins væri sá mesti í Evrópu og að skoða ætti breytingar á rekstrar- og eignarhaldi flugvallarins, en hann er í dag í eigu íslenska ríkisins og rekinn af opinbera hlutafélaginu Isavia.
Eins og komið hefur fram í fyrri frétt mbl.is metur OECD að mögulegur ábati af breytingum á þeim reglum sem taldar eru óþarfar og samkeppnishamlandi geti numið allt að 200 milljónum evra, eða sem nemur 30 milljörðum króna, en það er um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands.