Loftræsikerfi, áhrif – Ofnæmi, öndunarkvillar

Grein/Linkur: LOFTRÆSING OG LOFTGÆÐI

Höfundur:  Rabygg

Heimild:

.

ÍHUGUNAREFNI

Nærri lætur að um 20% þjóðarinnar þjáist af ofnæmi af einhverju tagi.
Leiða má líkur að því að tíðni ofnæmissjúkdóma fari vaxandi.

Gæði innilofts og nægjanleg loftræsing skipta miklu máli, einkum fyrir þá sem þjást af ofnæmi og öndunarkvillum af einhverju tagi, því við verjum miklum tíma af lífi okkar innanhúss og inniloft er yfirleitt mun mengaðra en útiloft.

„Sjúk hús“ er hugtak sem rutt hefur sér til rúms hin síðari ár. Slík hús hafa það sameiginlegt að fólk, sem býr þar eða starfar, þjáist af ýmsum líkamlegum og jafnvel andlegum kvillum sem orsakast af óþekktum umhverfisþáttum. Ekki er hægt að benda á beina orsök slíkra kvilla, en víst er að framboð byggingarefna hefur aukist mikið og sífellt fjölgar nýjum efnum og efnasamböndum.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum byggingarefna á líðan fólks og ástæða er til að hvetja alla, sem vilja móta gott umhverfi, til að kynna sér þær.

Reykháfar eru algengir í eldra húsnæði. Vegna breytinga á upphitun þjóna þeir ekki lengur hlutverki sínu. Með því að hreinsa reykháfinn og koma fyrir ristum fæst hentug lausn á loftskiptum í húsnæðinu, því heitt loft leitar upp og út um reykháfinn.

Rétt rakastig lofts er mikilvægt fyrir þorra fólks. Fólk með viðkvæm öndunarfæri þolir illa umhverfi með of háu rakastigi en þurrt og heitt loft er einnig óþægilegt.

LÖG OG REGLUGERÐIR

Hér er vísað til ákvæða í lögum og reglugerðum, sem sérstaklega eru birt í kafla 1.3, Lög og reglugerðir.

Í Byggingarreglugerð nr. 441/1998 er fjallað um loftgæði og loftræsingu í eftirfarandi greinum:

24. gr. Lagnauppdrættir
42. gr. Blikksmíðameistari
80. gr. Anddyri, baðherbergi og salerni 80.5
90. gr. Þvottaherbergi
93. gr. Eldhús
104. gr. Fjölbýlishús 104.4
166. gr. Loftræsikerfi
184. gr. Almennt um raka
186. gr. Loftgæði og loftræsing 186.1–186.5.
187. gr. Stærð og gerð loftrása 187.1 og 187.10

Athugasemdir við ákvæði reglugerðar

Í Byggingarreglugerð eru ekki sérstakar kröfur sem taka mið af einstaklingum með ofnæmi eða öndunarkvilla.

Á Rb-blöðum eru engin sérákvæði um loftgæði og loftræsingu híbýla og vinnustaða sem ber að hafa hliðsjón af við hönnun mannvirkja.

TILMÆLI

Tryggja verður fullnægjandi loftræsingu og loftendurnýjun í herbergjum þar sem fólk dvelur í lengri eða skemmri tíma.

Opnanlegur gluggi er einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að tryggja fullnægjandi loftræsingu, en mikilvægt er að hann sé aðgengilegur og auðvelt sé að stjórna opnun hans.

Herbergjum án opnanlegs glugga verður að sjá fyrir viðunandi loftræsingu, sem tryggir nægilega hröð loftskipti.

Loftskipti

Viðmiðun vegna loftendurnýjunar er háð stærð og notkun rýmis.

Í Byggingarreglugerð eru gerðar skýrar kröfur til loftræsingar og stærðar og gerðar loftrása, sem ber að fylgja.

Rakavörn byggingar hindrar að raki leiti út í veggi hennar, en þó er afar mikilvægt að leiða rakann út úr byggingunni með viðunandi loftrásum. Raki sem kemst ekki út úr rýminu getur orsakað myglu, sem veldur óþef og getur valdið ofnæmi.

Sérstaklega þarf að gæta að viðunandi loftræsingu á salernum, í baðherbergjum, eldhúsum, þvottahúsum og geymslum.

Rakastig lofts

Heppileg viðmiðun fyrir jafnvægisrakastig lofts er 50–60%.

Tæki til jöfnunar rakastigs á að hreinsa. Þau þarfnast reglubundins eftirlits og viðhalds.

Hlaðnar jónir

Ef loft er mjög þurrt geta myndast hlaðnar jónir sem geta valdið vanlíðan og orsakað kvilla, sem minnka starfsþol og einbeitingu.

Rannsóknir og niðurstöður þeirra eru ekki á því stigi að hægt sé að gefa nákvæm fyrirmæli eða ráð gegn myndun jóna, en þekkt eru ákveðin atriði sem stuðlað geta að myndun þeirra, svo sem:

  • Þurrt loft og hitastig yfir 22 °C.
  • Hátt hlutfall gerviefna í húsgögnumog innréttingum, samfara miklum núningi við þessi efni.
  • Teppi úr gerviefnum.

Vélræn loftræsikerfi og viðhald þeirra

Vélræn loftræsing er nauðsynleg frá herbergjum sem ekki liggja að útvegg og þar sem ekki verður komið við opnanlegum glugga.

Algengar orsakir vandamála í loftræsikerfum eru rangt viðhald og ófullnægjandi eftirlit með ástandi kerfisins.

Rokgjörn leysiefni til hreinsunar á loftræsikerfum geta valdið ofnæmisviðbrögðum.

Einangrun loftræsikerfa

Loftstokka verður að einangra, en þess verður að gæta að meðhöndla einangrunarefni þannig að ekki losni frá þeim agnir sem geta borist um kerfið.

Inntök og útblástur loftræsikerfa

Inntök og útblástur eiga aldrei að vera nær hvort öðru en 10–15 metra.

Staðsetjið ekki loftinntök nálægt bílastæðum eða fjölförnum umferðaræðum.

Felið aldrei loftinntök með gróðri, sem getur gefið frá sér frjókorn sem valda ofnæmi.

Fleira áhugavert: