Icesave skuld, sæstrengur – Greitt með raforku
.
Janúar 2010
Raforkumarkaður Íslendinga
Íslenskir ráðherrar voru óþreytandi við að hafna því að Íslendingar mæti hugsanlegri fjárhagslegri skuldbindingu vegna Icesave, með því að greiða skuldina í formi raforku. Þess í stað vilja ráðherrarnir þá væntanlega miklu fremur að þjóðin láti af hendi dýrmætan gjaldeyri til Breta og Hollendinga. Gjaldeyri sem reyndar fæst að verulegu leyti einmitt með raforkusölu… til stóriðjunnar.
Orubloggarinn er sammála því að ekki er heppilegt að stilla íslenskri orku upp sem greiðslumiðli fyrir skuldir Íslands. Það myndi lykta af dæmigerðu nýlenduarðráni. Í reyndi er þó sá kostur að selja íslenska raforku til útlanda mjög áhugaverður. Og útí hötti að slíkar hugmyndir feli í sér afsal á íslensum náttúruauðlindum.
Það að selja raforku frá Íslandi til útlanda er ekkert frábrugðið því að selja t.d. íslenskan fisk eða íslenskt lambakjöt. Þess vegna þótti bloggaranum þessi afdráttarlausa neikvæða afstaða iðnaðarráðherra nokkuð sérkennileg og endurspegla ákveðna þröngsýni gagnvart miklum möguleikum á íslenskum raforkumarkaði.
Fjármálaráðherra var ekki jafn neikvæður. Hann sló reyndar úr og í nú í morgunsárið. Sagði á Rás tvö að nýta eigi íslenska orku til að skapa störf hér á landi og fullvinna sem mest afurðir úr orkunni hér. Bætti svo við að í framtíðinni kunni að vera athugandi að flytja einhvern hluta raforkunnar út um sæstreng.
Veruleiki íslenska raforkumarkaðarins er sá að mestur hluti raforkunnar fer til stóriðjunnar (sem er fyrst og fremst álbræðslurnar þrjár). Vegna þess hversu 330 þúsund manna þjóð þarf litla raforku, eru íslensku orkufyrirtækin í mjög þröngri samningsaðstöðu þegar semja á við stóriðjuna um raforkuverð. Það er enginn annar kaupandi að orkunni. Þessi aðstaða gerir það að verkum að erfitt er að fá gott verð fyrir raforkuna; íslensku orkufyrirtækin eru væntanlega einungis að fá á blinu 20-30 mills fyrir kílóvattstundina til álveranna, meðan iðnfyrirtæki bæði í Evrópu og Bandaríkjunum greiða miklu hærra verð fyrir sína raforku. Í því sambandi má t.d. einfaldlega líta til upplýsinga um raforkuverð til stóriðju og annars iðnaðar innan OECD. Þær tölur segja okkur að verðið fyrir kWh í Evrópu sé víða þetta 60 mills og þaðan af meira.
Það er sem sagt svo að íslensku orkufyrirtækin gætu sennilega fengið tvöfalt og jafnvel þrefalt hærra verð fyrir stóran hluta raforkunnar sem þau framleiða. Ef þau hefðu aðgang að Evrópumarkaðnum. En einmitt af því þessi aðgangur er ekki fyrir hendi, er samningsstaða orkufyrirtækjanna afar veik þegar samið er um orkuverð við stóriðjuna.
Vissulega færi umtalsverður hluti af verði raforkunnar til Evrópu í flutningskostnað. En með framförum sem hafa orðið í þeirri tækni að flytja mikið rafmagn langar leiðir eftir hafsbotni með jafnstraumsköplum, er nú raunhæfur möguleiki á því að íslensk raforkufyrirtæki fái aðgang að margfalt stærri markaði.
Slíkt aðgengi myndi stórauka möguleika Íslendinga til hagvaxtar. Ef við hefðum rafmagnstengingu við Evrópu væru álverin komin í beina samkeppni um raforkukaup við risahagkerfi Evrópusambandsins. Væru þau súr yfir hærra raforkuverði yrði bara að hafa það. Við eigum ekki að byggja efnahag okkar á því að þurfa að selja raforkuna okkar miklu ódýrara til stóriðjunnar en önnur vestræn ríki gera. Náttúruauðlindir okkar eiga betra skilið en svo. Við eigum að sýna þessum auðlindum Íslands virðingu og ef við ætlum að nýta þær eigum við að hámarka arðsemina af þeirri nýtingu.
Sumir kunna að telja að aukin raforkuframleiðsla á Íslandi hefði í för með sér miklar náttúrufórnir. Svo þarf þó alls ekki að vera. Í fyrsta lagi má sennilega auka raforkuframleiðsluna hér umtalsvert með því einfaldlega að endurnýja eldri túrbínur og setja upp nýjar með meiri afkastagetu. Í öðru lagi eru framfarir í borunartækni og jarðhitanýtingu líklegar til að auka framleiðslugetu þegar virkjaðra jarðhitasvæða. Og í þriðja lagi mætti hugsanlega framleiða hér æpandi mikið af endurnýjanlegri raforku með stórum vindrafstöðvum. Það er a.m.k. svo að mjög fá ríki – ef þá nokkurt land í heiminum – eiga jafn mikla og góða möguleika til að framleiða vistvæna raforku en einmitt Ísland. Og það er einmitt sú græna orka sem bæði Evrópu og Bandaríkin þyrstir í.
Rafstrengur frá Íslandi til Evrópu og kannski síðar yfir til Norður-Ameríku myndi ekki aðeins styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku gagnvart stóriðjunni. Heldur líka opna möguleika á að stórauka útflutningstekjur Íslands. Þær grjóthörðu gjaldeyristekjur gætu nýst okkur afar vel í framtíðinni. Þetta ætti að kanna nákvæmlega og af mikilli alvöru sem allra fyrst. Að neita að skoða slíka möguleika væri álíka gáfulegt eins og ef menn tækju upp á því að setja útflutningsbann á íslenskan fisk.