Snjóbræðsla – Þægindi, slysavörn

Heimild:  

.

Febrúar 1995

Snjóbræðslukerfi hafa sannað ágæti sitt

Snjóbræðslukerfi eru til mikilla þæginda og mikil slysavörn. Og rekstur þeirra kostar ekkert, þar sem vatnið er áður búið að hita húsin upp. Fyrir rúmum tveimur áratugum hófst nýr kafli í nýtingu á heitu vatni hérlendis. Samfelld saga snjóbræðslukerfa hófst 1973, þá hófst þetta sem hægt er að kalla „snjóbræðsluævintýrið“ sem byggðist bæði á nýjum tæknilegum lausnum og tilkomu heppilegra plaströra.

Snjóbræðslulagnir höfðu ekki verið með öllu óþekktar hérlendis fyrir þann tíma. Líklega var fyrsta snjóbræðslukerfið lagt í tröppur og gangstíg að Menntaskólanum í Reykjavík 1952, fáum árum síðar lögn í tröppur Austurbæjarbarnaskólans og rétt fyrir 1960 lögn í tröppur og undirgöng undir Miklubraut við Lönguhlíð. Öll voru þessi kerfi úr soðnum járnrörum og skiljanlega var ending þeirra takmörkuð, eða u.þ.b. 20 ár þegar best lét. Þá höfðu þau tærst í sundur vegna utanaðkomandi raka.

Þegar gengið er um miðbæ Reykjavíkur eða um miðbæi almennt á hitaveitusvæðum, má sjá hver munurinn er á gangstétt með snjóbræðslu eða án hennar. Ef farið er eftir Laugavegi, frá Hlemmi að Lækjartorgi, heyrir það til undantekninga að rekast á (eða renna á) óhitaða stétt. Ólíklegt er að vegfarandi geri sér grein fyrir því að þessi slysavörn og þægindi kosta húseigandann ekkert í rekstri; hann hefur greitt stofnkostnað kerfisins, síðan ekki söguna meir. Vatnið sem rennur um plaströr undir hellum í gangstéttinni er vatnið sem búið er að hita upp húsið, hita upp búðina, skrifstofuna eða íbúðina.

Þannig er þetta í langflestum tilfellum við Laugaveginn og víða í gömlu Reykjavík.

Við heimahús

Þar kosta menn oft nokkru meira til af skiljanlegum ástæðum. Snjóbræðslukerfi eru lögð í tröppur, gangstíga og bílaplön. Oftar en ekki er þá settur upp sjálfvirkur búnaður, sem bætir örlitlu við ef þörfin eykst.

Enginn skyldi láta sér detta í hug að snjóbræðslukerfi eigi að hafa við í öllum veðrum. Ef einhver reynir það er hann farinn að sóa heitu vatni. Sérstaklega má búast við að snjór safnist á hitað svæði í veðrum eins og dunið hafa yfir að undanförnu; sótsvartur ofanbylur og hífandi rok.

En öll él ganga yfir og þá gefur á að líta. Margir verða fyrir vonbrigðum þegar þeir sjá skaflana á bílaplaninu, sem snjóbræðsla var lögð í síðasta sumar. Verður maður svo að taka skófluna og moka eftir allt saman? Ekkert undanfæri.

En þá kemur nokkuð í ljós. Snjórinn er ekki frosinn við hellurnar. Þar er þunnt vatnslag að sjálfsögðu því snjóbræðslukerfið er að vinna sitt verk. Þó þú verðir að moka svolítið, sem er ekki nema heilnæm hreyfing, þá gerir bræðslan sitt gagn. Muna ekki flestir eftir því þegar búið var að moka áður fyrr? Eftir sat hálkulag frosið við flötinn. Bera á salt, bera á sand, pjakka og skafa.

Það er liðin tíð.

Nokkur varnaðarorð

Ef þú hyggur á framkvæmdir með vorinu, fara í garðinn, gangstéttarnar og bílaplanið, kemur fljótlega upp spurningin; á ég að leggja snjóbræðslukerfi í bílaplanið, gangstéttina og tröppurnar?

Þessu getur enginn svarað nema þú sjálfur. En það er með ólíkindum hve margir eru kallaðir til að bjóða þjónustu sína á þessu sviði. Þar eru margir „ugluspeglar“ á ferðinni.

Nú er það svo að þetta er óyggjandi hluti af hitakerfi hússins. Ekki er nóg að leggja rör, það þarf varma í þau til að eitthvað bráðni. Snjóbræðslukerfið verður að tengja við hitakerfið. Það þýðir að kerfið á að teikna, það á að leggjast og tengjast af löggiltum píplagningameistara og hann á að senda viðkomandi veitukerfi, á höfuðborgarsvæðinu Hitaveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Seltjarnarness, upplýsingar um kerfið.

En oft er ekki leitað til fagmanns fyrr en „ugluspegillinn“ er búinn að leggja hellurnar (sem kann að vera listavel gert) og undir yfirborðið hafa horfið nokkrir tugir eða hundruð metra af plaströrum. En hvernig voru þau lögð? Á hvaða dýpi eru þau? Hve djúpt liggja þau?

Það veit enginn. Svona dæmi koma ekki aðeins upp hjá einstaklingum við eigin hús; þetta hefur oftar en ekki komið upp hjá opinberum aðilum. En það er ekki annað að gera en tengja upp á von og óvon. Stundum slarkast þetta, sárlega oft kemur í ljós að hluti svæðisins hitnar ekki eða að hálkublettir eru hér og þar. Plaströrin eru sumstaðar of djúpt eða of langt á milli þeirra. Nú kemur í ljós hvar lögnin er, þó ekki alveg, sumstaðar sjást engin merki að lögn sé undir.

Á því lagnaári, sem er framundan, þarf að laga til í „görðunum“ Það á að vera liðin tíð að sjálfskipaðir spámenn vaði uppi, taki að sér verk sem krefst sérþekkingar og mikillar nákvæmni.

Er hægt að treysta því að þessi verk séu í fullkomnu lagi ef fagmenn vinna þau? Í flestum tilfellum en því miður ekki öllum. Þeir faglærðu þurfa líka að taka sér tak en oftast á húseigandi möguleika á að fá sinn hlut bættan þegar þeir eiga í hlut.

Það verður hins vegar lítill réttur sóttur ef sjálfskipaður spámaður hefur unnið verkið, fengið það að fullu greitt og hefur ekki einu sinni skilið eftir snifsi að salernispappír til viðurkenningar á greiðslu.

Hann hefur aldrei komið á staðinn, eða hvernig á að sanna það?

Það skiptir miklu máli á hvaða dýpt snjóbræðslurörin liggja eða hvaða bil er á milli þeirra.

Fleira áhugavert: