Öryggissvæðið Keflavík – IAV 5,3 Milljarðar
.
September 2020
ÍAV ná 5,3 milljarða samningi við Pentagon
Íslenskir aðalverktakar urðu hlutskarpastir í útboði bandaríska varnarmálaráðuneytisins á hönnun og framkvæmdum vegna flughlaða og tengdra verkefna á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins, en útboðið var auglýst í júlí á síðasta ári.
Bandarísk yfirvöld eru sögð fjármagna alfarið framkvæmdirnar.
Þrjú verkefni
„Að undangengnu forvali var valið úr ákveðnum fjölda íslenskra og bandarískra fyrirtækja sem heimilt var að bjóða í verkið og varð ÍAV hlutskarpast sem fyrr segir. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á tæpar 39 milljónir bandaríkjadala eða 5,3 milljarða króna.
Það er undir kostnaðaráætlun bandaríska varnarmálaráðuneytisins en heildarfjárheimild bandaríska þingsins hljóðaði upp á 57 milljónir dala,“ segir á vef stjórnarráðsins.
Bent er á að um þrjú verkefni sé að ræða.
„Í fyrsta lagi hönnun og verkframkvæmdir við stækkun á flughlaði innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Í öðru lagi hönnun og verkframkvæmdir fyrir færanlegar gistieiningar. Í þriðja lagi hönnun og verkframkvæmdir vegna færslu á flughlaði fyrir hættulegan farm.“
Áætluð verklok séu í febrúar 2023.
21,5 milljarðar frá 2018 til 2023
Auk þessara framkvæmda standi nú yfir eða séu í undirbúningi framkvæmdir sem hafi verið samþykktar á öryggissvæðinu.
„Þar má nefna breytingar og endurbætur á flugskýli 831, byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar og viðhald og endurbætur á flughlöðum, akstursbrautum og ljósakerfum.“
Auk þess hafi verið gerðar umfangsmiklar uppfærslur á ratsjárkerfunum og kerfisbúnaði í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
„Samanlagt er því um að ræða allt að 21,5 milljarða króna á tímabilinu 2018-2023 sem að mestum hluta er fjármagnað af Atlantshafsbandalaginu og bandarískum stjórnvöldum.“