Rotþró, hreinsibíll – Gullhringur finnst
.
September 2018
Höfðu upp á eiganda hrings sem fannst í rotþró
Í athugasemd við færslu á Facebook-síðu Hrunamannahrepps segir eigandinn að þau hjónin hafi næstum fengið áfall þegar þau lásu skilaboðin. Hringurinn hafi verið týndur í sex til átta ár. Þau hafi verið stödd í sumarbústað nálægt Þjórsárdal og eiginmaðurinn farið að veiða með syni þeirra í Ljótapolli og Frostastaðavatni.
Þeir hafi síðan komið heim til að gera að fiskinum og fljótlega eftir það hafi komið í ljós að hringurinn væri horfinn. „Við leituðum hátt og lágt, fórum í gegnum allt rusl og okkur minnir að vatnslásinn hafi verið opnaður og allt skoðað en allt kom fyrir ekki,“ skrifar konan í athugasemdinni.
Þau hafi því verið búin að afskrifa hringinn og það væri því ótrúlegt að hann hafi komið í leitirnar eftir allan þennan tíma. „[O]g þótt hann hafi ekki dvalið á skemmtilegum stað erum við svo innilega glöð og þakklát fyrir að hann skuli hafa fundist. Við vorum ekkert búin að vera gift svo lengi þegar hann hvarf.“
Skrifstofa hreppsins svaraði að bragði og sagði ánægjulegt að eigandinn skyldi finnast. Hringurinn biði þeirra á skrifstofu Hrunamannahrepps á Flúðum.