Cushing, Oklahoma – Olíugatnamót Bandaríkjanna

Heimild: 

.

Febrúar 2010

Ljúf og sæt í Cushing

c.jpg

elvis-presley-at-graceland – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Þegar Íslendingar heimsækja Vesturheim langar marga þeirra mest að fara til Graceland við Memphis, Tennessee. Orkubloggarinn getur vel skilið það, enda fáir sem jafnast á við sjálfan konunginn Elvis Presley. En lesendur Orkubloggsins hljóta þó að nota tækifærið – þegar búið er að láta mynda sig framan við Graceland – að halda all nokkuð vestar. Lengra inn á sléttur Bandaríkjanna. Til Cushing, Oklahoma.

Það er óneitanlega magnað að smábær sem fæstir hafa nokkru sinni heyrt nefndan á nafn – vesælt átta þúsund manna krummaskuð inni á sléttum Oklahóma – skuli vera einn af mikilvægustu brennipunktum hins alþjóðlega olíumarkaðar. Af íbúunum átta þúsund eru reyndar um eitt þúsund fangar, í fangelsinu þarna sem er einn mikilvægasti atvinnurekandi bæjarins! Þannig að hinir raunverulegu íbúar Cushing eru einungis um sjö þúsund. Ekki ósvipað eins og Selfoss.

oklahoma_1942_oil_well.jpg

oklahoma_1942_oil_wel

Í eina tíð voru slétturnar umhverfis Cushing þaktar olíuturnum. En þegar lindirnar fóru að þverra og nýjar stórar olíulindir fundust í Suðurríkjunum og víðar um Bandaríkin, minnkaði  olíuvinnslan í Oklahóma og smátt og smátt hurfu olíuturnarnir umverfis Cushing. Reyndar hafa olíuasnar á ný haldið innreið sína inn á akrana við Cushing, vegna hækkandi olíuverðs. En sú framleiðsla skiptir ekki sköpum – nema þá kannski fyrir bændurna sem eiga landið. Hið ljúfa olíulíf í Cushing hefur þróast í allt aðra átt.

Um áratugaskeið hefur Cushing nefnilega verið staðurinn þar sem vel flest olíusvæði Bandaríkjanna tengjast. Eins konar olíugatnamót Bandaríkjanna. Þarna mætast í mikilli spagettíflækju stórar olíuleiðslur frá sléttunum bæði austan og vestan Cushing, sunnan frá Texas og Mexíkóflóanum og allra nýjustu rörin tengja Cushing við sjálft olíusandsullið norður í Kanada. Þarna u.þ.b. klukkutímaakstur austur af Oklahómaborg er sem sagt hvorki meira né minna en einn mikilvægasti strategíski staðurinn í öllum bandaríska olíuiðnaðinum.

cushing_pipes_tanks_2.jpg

cushing_pipes_tanks

Það var ekki sérstök meðvituð ákvörðun sem upphaflega olli því að Cushing varð eins konar hjarta bandaríska olíuiðnaðarins. Þetta bara gerðist eiginlega alveg stille og roligt. Svæðið umhverfis Cushing var eitt af fyrstu olíuvinnslusvæðunum í Bandaríkjunum og varð þá fljótlega þekkt fyrir mikinn fjölda olíuhreinsunarstöðva. Þess vegna var nánast borðleggjandi að leggja leiðslu til Cushing frá sérhverju nýju olíusvæði; þar var þægilegur aðgangur að olíuhreinsunarstöðvum sem eru jú algert lykilatriði í því að olían verði að neysluvöru.

Svo þegar menn byrjuðu að versla með olíusamninga í kauphöllinni í New York þurfti að koma á samræmi með samningana. Slíkir samningar fela í sér rétt til ákveðins magns af ákveðinni tegund af olíu til afhendingar á ákveðnum tíma og á ákveðnum stað. Og þá var ákveðið að afhendingarstaðurinn yrði… Cushing.

cushing_bp-oil-facility-stora-5725.jpg

cushing_bp-oil-facility-stora

Já – lesandi góður – þegar þú smellir þér á Nymex og kaupir t.d. samning sem hljóðar upp á 10.000 tunnur af olíu til afhendingar eftir 3 mánuði, þá væri fremur ópraktískt að fá allt gumsið sent heim í póstkröfu. Og jafnvel þó svo þú hafir kannski alls ekki haft í huga að fá nokkru sinni umráð yfir olíunni, sem samningurinn hljóðar upp á, heldur sért eingöngu að veðja á að olían hækki og hyggist svo selja samninginn með hagnaði eftir einn eða tvo mánuði, þá þarf að vera svo um hnútana búið að olían sem þar er kveðið á um, verði til og fyrir hendi á ákveðnum fyrirfram ákveðnum stað á þeim tíma sem olían á að skipta um hendur skv. samningnum.  Það að allir samningarnir séu staðlaðir og kveði á um tiltekinn sameiginlegan afhendingarstað er ekki bara til að spara „póstkröfukostnaðinn“. Heldur fyrst og fremst til að unnt sé að vera með eitt samræmt verð á allri olíunni, sem er jú framleidd hingað og þangað um Bandaríkin. Þetta var snjöll lausn til að skapa tiltölulega einfaldan risamarkað með þessa ljúfu hrávöru.

En það er ekki nóg að vera með einn sameiginlegan afhendingarstað. Sérhver olíutunna þarf líka að innihalda nokkurn veginn samskonar olíu. Olía er ekki bara olía – hún er af mjög misjöfnum gæðum og eiginleikum. Í Bandaríkjunum er algengasta olían s.k. West Texas Intermediate (WTI), sem er fremur þunnfljótandi, eðlislétt olía með lágt brennisteinshlutfall (minna en 0,5%). Þegar brennisteinshlutfallið er svo lágt er talað um að olían sé sæt – en ekki súr. WTI-olían er sem sagt ákveðin gerð eða staðall af olíu og er upp á ensku kölluð light sweet crude. Eða ljúfsæt hráolía á Orkubloggsku. Ljúf OG sæt. Gæti varla hljómað betur?

cushing_pipes_tanks.jpg

cushing_pipes_tanks

Þegar fjárfestar kaupa eða selja olíusamning á Nymex eru þeir sem sagt að eiga viðskipti með réttinn til að sækja tiltekið magn af svokallaðri West Texas Intermediate olíu (WTI) til Cushing á tilteknum degi í framtíðinni. Samningar af þessu tagi kallast futures contracts eða framtíðarsamningar upp á íslensku. Og það eru viðskipti með slíka samninga sem hafa vaxið með ægihraða síðustu árin og ekki síst verið draumastaður spákaupmanna.

Um viðskipti með slíka olíusamninga gilda sömu reglur og um alla aðra futures – reglur sem flestir lesendur Orkubloggsins líklega þekkja í þaula. Vert er að hafa í huga að veltan með olíusamningana á Nymex er auðvitað margfalt meiri heldur en sem nemur allri olíunni á tönkunum í Cushing. Við getum ímyndað okkur að verið sé að byggja tíu stykki af húsum sem eiga að afhendast eftir ár og kosta þá 50 milljónir stykkið. Á þessum tólf mánuðum fram að afhendingu skiptir kaupsamningur um hvert hús margoft um hendur, þ.a. á afhendingardaginn er veltan með húsið kannski orðin samtals 3.000 milljónir (ef samningurinn hefur að meðaltali skipt um hendur fimm sinnum í hverjum mánuði). Það væri góður bissness fyrir fasteignasalana – og af sömu ástæðu eru olíuviðskipti í formi futures afbragðssnjöll uppfinning verðbréfasalanna á Wall Street.

oklahoma_oil_donkey.jpg

oklahoma_oil_donkey.

Framtíðarsamningar eru samt ekki bara spákaupmennska. Þvert á móti nýtast þeir líka þeim sem vilja tryggja sér að fá olíu á ákveðnum tímapunkti í framtíðinni á fyrirframákveðnu verði. Það getur skipt miklu við að draga úr áhættu, þegar menn nýta þessi viðskipti í þeim tilgangi. Það er sem sagt langt frá því að futures séu bara eitthvert brask í stíl við Vegas.

En hafi einhverjir lesendur Orkubloggsins nú smitast af þeim spenningi að græða á olíuviðskiptum er rétt að vara þá sömu við. Þegar menn leika sér með futures er auðvelt að græða – en ennþá auðveldara að tapa geysilegum fjárhæðum á örskotstundu. Þess vegna er vissara þegar menn „kaupa olíu“ með þessum hætti að setja inn sölutilboð sem verður virkt við tiltölulega hóflega lækkun. Þannig tryggir maður að tapið verði viðráðanlegt – ef verðþróunin fer ekki á þann veg sem skyldi.

nymex_trading_floor.jpg

nymex_trading_floor

Á Nymex er auðvitað ekki bara verslað með olíusamninga í formi futures. Olíuviðskipti með valrétti (options) eru t.d. mjög algeng. Og sumir spákaupmennirnir láta sér ekki nægja að versla með framtíðarsamninga eða valréttarsamninga um olíu; þeir sem eru vissir um að olía muni senn hækka umtalsvert í verði og ætla sér að njóta ávaxtanna þegar að því kemur, halda gjarnan í olíuna. Og geyma hana þá oft í Cushing. Eða þá í olíuskipum, sem liggja við akkeri einhvers staðar um veraldarhöfin.

Þetta síðastnefnda  er enn ein tegund af spákaupmennsku, sem reyndar hefur verið mjög áberandi síðustu misserin. Er nú svo komið að hátt í 10% af öllum olíuskipaflotaheimsins liggur fullur af olíu í eigu spákaupmanna, sem bíða þess að verðið hækki. Þessir kaupmenn eru ekki bara einhverjir nettir braskarar útí bæ; þarna eru líka á ferðinni bæði olíuframleiðendurnir sjálfir og líka fjölmargir stórir og þekktir fjárfestingabankar og vogunarsjóðir, eins og t.d J.P. Morgan o.fl.

Þessar miklu birgðir af olíu þurfa reyndar alls ekki bara að tákna von braskaranna um að olíafatið fari brátt að hækka í verði. Þvert á móti kann þetta að benda til offramboðs – hluti þeirra sem eru að geyma olíuna eru hugsanlega að reyna að minnka framboðið og koma þannig í veg fyrir snögga verlækkun. Kannski til að vernda stórar og áhættusamar stöður sem þeir hafa tekið í olíusamningum á Nymex!

Það eru sem sagt engar augljósar eða sjálfsagðar ástæður sem unnt er að grípa til þegar skýra þarf olíuverð og/eða olíubirgðastöðu á hverjum tíma. Þó svo sérfræðingar þykist ávallt hafa skýringar á reiðum höndum, er framtíðin á olíumörkuðunum í reynd hulin þykkri þoku og enginn veit hvað mun birtast úr sortanum. Á olíumörkuðunum er enginn óhultur!

cushing_enbridge-oil-storage-2.jpg

cushing_enbridge-oil-storage

Skylt er að geta þess líka hér, að viðskipti með olíusamninga á Nymex lúta ekki eingöngu að WTI-olíu til afhendingar í Cushing. Þar er líka hægt að kaupa olíusamninga um annars konar olíu, eins og t.d. evrópska Brent. En bandaríski WTI-standardinn er þó algengastur á Nymex, enda fellur mestöll bandaríska olían þar undir. Inní þetta allt blandast svo nýjasta viðmiðunin; Argus Sour Crude Index (ASCI) sem blessaðir Sádarnir „fundu upp“ á liðnu ári (2009). Og nota nú í stað þess að miða við bandaríska standardinn (WTI). Olíumarkaðurinn verður sífellt margbrotnari. En stóra breytingin mun þó kannski ekki verða fyrr en Aröbunum og/eða Persunum tekst að koma olíuviðskiptum úr dollurum og í einhvern annan gjaldmiðil. Líkurnar á að það samsæri takist eru þó varla miklar.

Ástæða þess að Nymex valdi Cushing sem afhendingarstað vegna WTI-olísamninga sem fara um þennan ljúfa hrávörumarkað, var einfaldlega sú að þangað lágu allar leiðir olíunnar í Bandaríkjunum. Það var barrrasta einfaldast að Cushing yrði hinn staðlaði afhendingarstaður.

cushing_enbridge-oil-storage.jpg

cushing_enbridge-oil-storage.

Og eftir því sem spákaupmennska með olíu jókst fjölgaði tönkunum hratt við Cushing. En þó svo olíugeymarnir umhverfis Cushing séu lykilatriði fyrir olíumarkaðinn á Nymex, er það ekki eina ástæðan fyrir risastórum olíutönkunum þar. Cushing er ekki bara birgðastöð heldur líka mestu olíuleiðslu-gatnamót Bandaríkjanna. Hvorki meira né minna en 75% allrar þeirrar olíu sem framleidd er innan lögsögu Bandaríkjanna rennur um Cushing-leiðslurnar! Þær eru því miður flestar grafnar niður, þ.a. við getum ekki notið þess að horfa á þetta undarlega olíuröra-spagettí. En einmitt vegna þess hversu olíuumferðin um Cushing er ofsaleg, hafa yfirvöld vakandi auga með öllu saman. Sumir hafa reyndar nokkrar áhyggjur a því að öryggisgæsla við Cushing sé ófullnægjandi og óttast að olíuleiðslurnar eða risastórir olíutankarnir sem þarna eru í hundraðavís verði fyrir árásum hryðjuverkamanna. Líklega er ekki skynsamlegt að vera með Berbaklút á höfðinu, ef maður ætlar að stoppa í Cushing og fá sér sossum eins og einn safaríkan hamborgara. Menn eru taugaveiklaðir og geta freistast til að skjóta fyrst og spyrja svo.

oklahoma_oil_donkey_3.jpg

oklahoma_oil_donkey

Þó svo Nymex-samningarnir miði við það að olían sé afhent í Cushing, er það ekki á ábyrgð Nymex. Þarna gilda sömu lögmál og í öðrum viðskiptum; kaupandinn treystir því einfaldlega að seljandi afhendi honum vöruna á réttum stað og á réttum tíma. Í dag er staðan reyndar sú að meðan birgðageymslurnar í Cushing geta líklega samtals geymt rúmlega 40 milljón tunnur af olíu, er heildarumfang olíusamninganna á Nymex í dag um 130-140 milljón tunnur. Það þýðir þó ekki endilega að allir geymarnir í Cushing séu núna stútfullir og allt farið að flæða uppúr. Hverju sinni er alltaf nokkuð langt í umsamda afhendingu á mest allri olíunni skv. Nymex-samningunum um WTI sweet light crude. En þetta rosalega misvægi er samt kannski góð vísbending um að spákaupmennirnir séu hugsanlega komnir langt fram úr hinum raunverulegu og jarðbundnu lögmálum framboðs og eftirspurnar. Sem gæti leitt  til þess að olíuverðið gefi hressilega eftir, þegar líður á árið (2010). Kannski.

cushing_inventories_jan2009.jpg

cushing_inventories_jan2009

Í reynd eru olíuviðskipti orðin svo flókin og ógegnsæ, að það er nánast útilokað að spá rétt tvisvar í röð um þróun olíuverðs. Olíubirgðir í Bandaríkjunum á hverjum tíma – stuðpúðinn sem gefur til kynna hvort Bandaríkjamenn séu líklegir til að auka eða minnka innflutning sinn á næstu mánuðum – hefur vissulega ennþá mikil áhrif á það hvort menn vilja kaupa eða selja samninga sína um olíu til afhendingar eftir nokkra mánuði. En það er vart ofmælt að umfang þessara viðskipta með olíu framtíðarinnar hefur vaxið svo hratt að hætta á bólu- eða blöðrumyndun hefur margfaldast frá því sem var fyrir tíu eða fimmtán árum. Fyrir vikið telja margir sívaxandi líkur á miklum sveiflum í olíuverði. Og þegar fjárfestingasjóðir taka stór veðmál með olíuna, eins og virðist hafa gerst á síðustu mánuðum, getur snögg dýfa jafnvel riðið einhverjum þeirra að fullu.

Það virðist a.m.k. augljóst að Cushing er lengur sá cushion sem hægt er að treysta á. Svo Orkubloggarinn hætti sér útí laufléttan orðaleik á erlendri tungu. Og í reynd veit enginn hvaða staða er á birgðatönkunum í Cushing! Fyrirtækin sem eiga og reka olíutankana í Cushing, gefa yfirleitt ekkert upp um birgðastöðuna. Og það er varla að menn viti einu sinni hversu miklu af olíu unnt er að troða í alla þessa risatanka. Það er þó einhvers staðar í kringum eða rúmlega 40 milljón tunnur af olíu. Á verði dagsins væri verðmæti fullra olíubirgðastöðva í krummaskuðinu Cushing sem sagt um 3 milljarðar USD. Geri aðrir smábæir betur.

cushing_oil_storage.jpg

cushing_oil_storage

Sé mikið af olíu í Cushing álíta margir að það stafi fyrst og fremst af dræmri eftirspurn eftir olíu. Sem sé þá vísbending um að verðið fari senn lækkandi. Sé allt tómt í Cushing sé það aftur á móti til marks um umframeftirspurn, sem muni toga verðið upp. Í reynd virðist sem þessar vesælu 40 milljón tunnur sem geymarnir í Cushing geta umlukið – sem jafngildir rétt rúmlega 2ja daga olíunotkun í Bandaríkjunum – hafi hreint fáránlega mikil áhrif á þróun olíuverðs. Þetta er að vísu umdeilt og sumir vilja meina að Cushing skipti ekki lengur neinu máli. En aðrir telja að til skemmri tíma snúist olíuverðið á Nymex nánast eingöngu um það sem spákaupmennirnir lesa út úr meintri birgðastöðu í Cushing. Dæmi hver fyrir sig, en Orkubloggaranum hefur sýnst að meint birgðastaða í Cushing hafi ennþá mikil áhrif á verðið á Nymex. En það er vissulega útí hött að skitnar 40 milljón tunnur af olíu geti þannig stýrt verðinu í öllum heimsins olíuviðskiptum, sem nema meira en 2,5 milljörðum tunna í mánuði hverjum um allan heim. Þetta er skrítin veröld.

oil_barrel_crude_products.gif

oil_barrel_crude_products

En þetta snýst allt meira eða minna um það hvort vísbendingar séu um minnkandi þörf Bandaríkjanna fyrir olíu eða hvort aukin eftirspurn sé þar líklegri. Bandaríkin nota næstum því 25% af allri olíu sem brennd er í heiminum á degi hverjum og eru langstærsti markaðurinn. Þess vegna hefur eftirspurnin í Bandaríkjunum og birgðastaðan í Cushing svo mikil áhrif á olíuverð í heiminum öllum.

Sökum þess að tölur um birgðastöðuna í Cushing liggja ekki álausu, leita menn ýmissa aðferða til að reyna átta sig á hvað sé að gerast þarna úti á sléttunni. A.m.k. þeir spekúlantar, sem telja að olíumagnið í Cushing sé einhver skýrasta vísbendingin um það hvort olíuverð fari upp eða niður. Ein aðferðin er sú að skoða verðþróunina á evrópskri Brent-olíu annars vegar og bandarískri West Texas Intermediate (WTI) hins vegar. Eftir því sem premíumið á Brent-olíuna eykst m.v. WTI, telja margir auknar líkur á að allt sé að verða stútfullt í Cushing, þ.e. að offramboð sé að myndast í Bandaríkjunum. M.ö.o. að spákaupmennirnir hafi farið offari í kaupum sínum á olíu og verðlækkun sé yfirvofandi.

oil_tankers-storing.jpg

oil_tankers-storing

Þetta premíum hefur einmitt vaxið talsvert undanfarið og það eru ein rök fyrir því að olía hljóti að lækka umtalsvert innan tíðar. Menn vita ekki fyrir víst hvað það er sem veldur misvæginu milli WTI og Brent, en sumir sjá þarna á ferðinni hreint svaðalega offramleiðslu. Og telja að það sem haldi verðinu á Brent svona háu, sé að þar séu menn á ferðinni sem treysta sér ekki að „gefa“ olíuna til olíuhreinsunarstöðva (sem vilja ekki borga nema skít og kanil nú þegar bensínnotkun dregst saman) og setji olíuna þess í stað um borð í draugatankskip í von um að upp renni betri tíð með blóm í haga. Önnur útfærsla af þessu, þ.e. ástæða þess að allir tankar og tankskip út um heiminn fyllast skyndilega af olíu, þarf þó alls ekki að vera beint offramboð eða lítil eftirspurn. Ástæðan getur einfaldlega verið sú að verðið á olíu-futures (þ.e. á olíu sem afhent verður í framtíðinni) sé orðið „óeðlilega“ mikið hærra en í staðgreiðslusamningum með olíu (spot). Þá myndast hvati til að kaupa olíu, halda henni og selja síðar. Það kostar að vísu pening að geyma olíuna, en þegar mismunurinn á futures og spot er orðinn nægjanlega mikill er þetta hugsanlega góð aðferð til að græða glás af pening á skömmum tíma.

cushing_enbridge-oil-pipes.jpg

cushing_enbridge-oil-pipes

Hljómar þetta öfugsnúið? Enginn ætti að láta hvarfla að sér að olíumarkaðurinn sé eins og opin bók. Þvert á móti er þessi markaður margfalt furðulegri en heil sería af Da Vinci lyklinum!

Mun betri kristallskúla um þróun olíuverðs, en misvægi milli verðs á WTI og Brent, er að skoða stöðuna í olíuhreinsunar-bransanum þarna vestra. Í Bandaríkjunum hafa undanfarið átt sér stað ekkert minna en raðlokanir á olíuhreinsunarstöðvum. Bensínneysla hefur dregist mikið saman og af þeim sökum standa olíuhreinsunarstöðvarnar einfaldlega ekki undir því að keppa við spákaupmennina núna þegar olíuverðið er yfir 70 dollara tunnan. Það  þýðir ekkert fyrir olíuhreinsunarstöðvarnar að vinna bensín úr svo dýrri olíu; það myndi einfaldlega gera þær gjaldþrota í einni svipan. Eðlilega hafa því fyrirtækin sem reka olíuhreinsunarstöðvarnar dregið saman seglin og lokað fjölmörgum stöðvum.

oil_donkey_rusty.jpg

oil_donkey_rusty

Það er sem sagt ekki fjarri að fullyrða, að nú um stundir ríki umtalsvert misvægi milli olíuverðs og eftirspurnar. Kannski skiljanlegt að sumum þyki súrt að spákaupmennska geti valdið svo miklum hækkunum á olíuverði – hækkunum sem eru ekki í neinum takti við litla eftirspurn. En ef það er raunin að spákaupmennirnir eru komnir útí vitleysu, þá getur það ekki gengið endalaust. Þá er stóra spurningin bara hversu fallið verður mikið þegar þeir loksins springa á limminu. Þess vegna býður Orkubloggarinn nú rólegur eftir því að olíuverðið á Nymex falli niður í a.m.k. 60 dollara – og kannski jafnvel enn neðar. Ef, ef…

Fleira áhugavert: