Reykjanesvirkjun – 30 MW stækkun
.
September 2020
HS Orka hyggst hefjast handa við 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar á næstunni og með því verður framleiðslugeta aukin úr 100 MW í 130 MW. Verkfræðingar HS Orku hafa unnið að hönnun og undirbúningi þessa síðustu misseri ásamt ráðgjöfum og eru öll formsatriði í höfn.
Auglýst verður eftir tilboðum í verkið á næstu dögum. „Þetta er virkjun sem allir ættu að geta sætt sig við, því ekki þarf frekari jarðboranir vegna þessarar stækkunar. Við ætlum einfaldlega að nýta auðlindina betur,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali í Morgunblaðinu.
Stækkun Reykjanesvirkjunar mun nýta affallsvarma frá núverandi virkjun. Því er engin þörf á því að bæta við borholum heldur er eingöngu um að ræða betri nýtingu á núverandi upptekt. „Þetta er nýsköpunarverkefni. Þegar Reykjanesvirkjun var fyrst tekin í rekstur var ekki útséð um að hægt væri að nýta þennan varma. Með rannsóknum og þróun hefur okkur tekist að gera slíkt mögulegt,“ segir forstjórinn. Reiknað er með að framkvæmdir við þessa stækkun hefjist fljótlega á nýju ári og taki um það bil tvö ár.
Ósennilegt er, að mati Tómasar, að fleiri stórvirkjanir verði reistar í bráð og áherslur í orkumálum séu að breytast. Framtíðin sé sú að nýta betur afl frá þeim auðlindum sem þegar hafi verið virkjaðar – og þar séu margir valkostir fyrir hendi