Afríka, neysluvatn – Minnsta aðgengi í heiminum
.
Júní 2010
Afríkuþjóðir, ekki síst Sómalía, Máritanía og Súdan, hafa viðkvæmustu vatnslindir í heiminum. Vatnsbirgðir á Íslandi eru hinsvegar þær bestu í heiminum, samkvæmt nýrri rannsókn sem breska ráðgjafafyrirtækið Maplecroft birti og Reuters fréttastofan greinir frá.
Markmið skýrslunnar er að vekja athygli fyrirtækja á áhættusömum fjárfestingum vegna viðkvæmra vatnslinda. Maplecroft segir að vegna loftslagsbreytinga og vaxandi fólksfjölda á jörðinni verði framboð ferskvatns vaxandi áhyggjuefni á næstu áratugum, bæði fyrir landbúnað og iðnað. Hugsanlegt er að deilur og átök verði milli þjóða vegna vatns.
Úttekt var gerð á 165 þjóðum sem leiddi í ljós að staðan er viðkvæmust meðal Afríku- og Asíuþjóða, ef tekið er mið af aðgengi að hreinu drykkjarvatni, framboð miðað við höfðatölu og hversu mikið þjóðir reiða sig á árvatn sem rennur fyrst í gegnum önnur lönd. Sómalía er verst stödd, en þar hafa aðeins 30% þjóðarinnar aðgang að hreinu drykkjarvatni. Næst á eftir fylgja Máritanía, Súdan, Níger, Írak, Úsbekistan, Pakistan, Egyptaland, Túrkmenistan og Sýrland.
Á hinum enda skalans trónir Ísland hins vegar á toppnum með öruggasta framboð af ferskvatni í heimi, en fast á hæla þess koma Noregur og Nýja-Sjáland. En vatnsskortur er ekki aðeins vandamál meðal fátækra þjóða. Þvert á móti eiga þjóðir eins og Bandaríkin og Ástralía líka víða í vandræðum. „Evrópulönd eins og Búlgaría, Belgía og Spánn eiga líka við vatnsskort að stríða,“ segir í skýrslunni.
Samkvæmt rannsókninni útheimtir vökvun í landbúnaði um 70% af vatnsnotkun heimsins. 22% eru notuð í iðnaði. Í skýrslunni er nefnt að fyrirtæki s.s. Rio Tinto, Coca Cola og Marks & Spencer hafi markað sér þá stefnu að reyna að draga úr vatnsnotkun í iðnaðinum.