Afríka, neysluvatn – Minnsta aðgengi í heiminum
.
Júní 2010
Afríkuþjóðir, ekki síst Sómalía, Máritanía og Súdan, hafa viðkvæmustu vatnslindir í heiminum. Vatnsbirgðir á Íslandi eru hinsvegar þær bestu í heiminum, samkvæmt nýrri rannsókn sem breska ráðgjafafyrirtækið Maplecroft birti og Reuters fréttastofan greinir frá.
Markmið skýrslunnar er að vekja athygli fyrirtækja á áhættusömum fjárfestingum vegna viðkvæmra vatnslinda. Maplecroft segir að vegna loftslagsbreytinga og vaxandi fólksfjölda á jörðinni verði framboð ferskvatns vaxandi áhyggjuefni á næstu áratugum, bæði fyrir landbúnað og iðnað. Hugsanlegt er að deilur og átök verði milli þjóða vegna vatns.

Vatnsskortur er víða vaxandi vandamál en þar stendur Ísland vel að vígi. Hjálparstarf kirkjunnar
Úttekt var gerð á 165 þjóðum sem leiddi í ljós að staðan er viðkvæmust meðal Afríku- og Asíuþjóða, ef tekið er mið af aðgengi að hreinu drykkjarvatni, framboð miðað við höfðatölu og hversu mikið þjóðir reiða sig á árvatn sem rennur fyrst í gegnum önnur lönd. Sómalía er verst stödd, en þar hafa aðeins 30% þjóðarinnar aðgang að hreinu drykkjarvatni. Næst á eftir fylgja Máritanía, Súdan, Níger, Írak, Úsbekistan, Pakistan, Egyptaland, Túrkmenistan og Sýrland.
Á hinum enda skalans trónir Ísland hins vegar á toppnum með öruggasta framboð af ferskvatni í heimi, en fast á hæla þess koma Noregur og Nýja-Sjáland. En vatnsskortur er ekki aðeins vandamál meðal fátækra þjóða. Þvert á móti eiga þjóðir eins og Bandaríkin og Ástralía líka víða í vandræðum. „Evrópulönd eins og Búlgaría, Belgía og Spánn eiga líka við vatnsskort að stríða,“ segir í skýrslunni.
Samkvæmt rannsókninni útheimtir vökvun í landbúnaði um 70% af vatnsnotkun heimsins. 22% eru notuð í iðnaði. Í skýrslunni er nefnt að fyrirtæki s.s. Rio Tinto, Coca Cola og Marks & Spencer hafi markað sér þá stefnu að reyna að draga úr vatnsnotkun í iðnaðinum.