Orkuauðlindir – Eignarhald, arðsemi, sagan

Heimild: 

.

Júlí 2010

Um eignarhald og arðsemi

Ketill Sigurjónsson

Rifist er um það á Íslandi hvort heppilegast sé að öll raforkuvinnsla sé á hendi hins opinbera eða hvort gott sé að einkaaðilar komi líka að slíkum rekstri. Sumir þeirra sem aðhyllast aðkomu einkaaðila vilja setja sem minnstar skorður við aðkomu þeirra. Aðrir vilja búa svo um hnútana að einkaaðilar geti aldrei átt meirihluta í orkufyrirtækjunum og enn aðrir vilja að hið opinbera eigi einfaldlega öll orkufyrirtæki.

Umræðan virðist aðallega til komin vegna þess að kanadíska fyrirtækið Magma Energy, sem sérhæfir sig í því að fjárfesta í jarðhitaverkefnum og -fyrirtækjum, keypti í vor meirihluta hlutafjár í HS Orku. Seljandi bréfanna var annað einkafyrirtæki; Geysir Green Energy. Þá þegar voru liðin um þrjú ár frá því byrjað var að einkavæða Hitaveitu Suðurnesja, en það ferli hófst vorið 2007 þegar ríkið seldi hlut sinn í Hitaveitunni til Geysis Green Energy, sem var stofnað af FL Group og fleiri einkaaðilum snemma árs 2007.

fl_group_logo_large.gifUmræðan núna minnir ótrúlega mikið á þá sem varð í Noregi – fyrir heilli öld síðan! Þegar Norðmenn sáu erlenda peningamenn koma inní landið og kaupa upp fossa til að virkja. Þá brást hið unga Stórþing í Osló við með því að stöðva slík kaup með því að gera þau leyfisskyld. Flýtirinn við þá lagasetningu olli því að lögin, sem sett voru 1906, hafa síðan jafnan verið kölluð Panikkloven. Munurinn er þó sá að á Íslandi eru útlendingar ekki að kaupa auðlindirnar heldur einungis tímabundinn afnotarétt. Þar munar talsverðu.

Sem kunnugt er var Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í HS Veitur og HS Orku í árslok 2008. Hafa má í huga að bæði við söluna 2007 á hlut ríkisins í Hitaveitunni og við skiptinguna 2008 fylgdi ekki bara nýtinga- eða afnotaréttur heldur líka eignaréttur að þeim jarðhita-auðlindum sem fyrirtækið nýtir. Það gerðist svo í tengslum við viðskipti Reykjanesbæjar og GGE sumarið 2009 að GGE fór út úr HS Veitum, en um leið eignaðist Reykjanesbær auðlindirnar sem HS Orka nýtir. Í dag hefur HS Orka því einungis afnotarétt af þessum jarðhita-auðlindum, en ekki beinan eignarétt. Auðlindin er í eigu sveitarfélagsins.

Fólk hefur verið duglegt við að gagnrýna Árna Sigfússon fyrir það að hafa selt hlut Reykjanesbæjar í HS Orku til GGE. En það var í reynd í tengslum við þá sölu að eignarhaldið á sjálfri auðlindinni var fært úr höndum fyrirtækisins og yfir til sveitarfélagsins. Orkubloggarinn er ekki að taka neina afstöðu til þess hvort kaupverðið var gott og eðlilegt fyrir sveitarfélagið; kannski var þetta ömurleg sala hjá Árna og félögum. En það var a.m.k. búið svo um hnútana að þarna var stöðvuð einkavæðingin á sjálfri jarðhita-auðlindinni. Og það í sveitarfélagi þar sem Sjálfstæðismenn ráða, en ekki Vinstri Grænir. Og það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem árið 2008 fékk lögfest ákvæði um að banna sölu ríkis og sveitarfélaga á orkuauðlindum sínum. Þar með er Orkubloggarinn ekki að dásama þessa stjórnmálaflokka – heldur bara svona rétt að minna VG á þessa staðreynd.

Magma Energy eignaðist fyrst hlut í HS Orku í júlí 2009; keypti þá um 10% hlut af GGE. Nokkru síðar keypt Magma hlut Orkuveitu Reykjavíkur í fyrirtækinu (tæplega 17%), hlut Hafnarfjarðabæjar (15%) og hlut Sandgerðis og var eignarhlutur Magma þá orðinn rúmlega 40%. Á árinu 2009 varð Magma sem sagt mjög stór hluthafi í HS Orku. En það er samt fyrst á vormánuðum í ár – eftir að Magma keypti allan eignarhlut GGE í maí 2010 og varð þar með meirihlutaeigandi i HS Orku – að upp kemur alvarlegur pólitískur ágreiningur um kaup Magma.

Andstæðingar kaupanna segja margir að þetta snúist um aðkomu einkaaðila að virkjanarekstri; að orkufyrirtækin eigi að vera í eigu hins opinbera. En reyndar hófst einkavæðingin í orkugeiranum fyrir þremur árum og þá var ekki einu sinni eignaréttur að auðlindunum undanskilinn. Á sínum tíma eignaðist FL Group beinan eignarétt í jarðhitanum á Suðurnesjum í gegnum hlut sinn í GGE. Eignarhlut Magma í HS Orku fylgir aftur á móti einungis tímabundinn afnotaréttur af þessum auðlindum. 

Jamm – af einhverjum ástæðum er það fyrst núna – þegar þetta kanadíska fyrirtæki eignast meirihlutann í HS Orku – að málið verður eldfimt hér á Íslandi. Það hefur samt legið fyrir í mörg ár að lög leyfa útlendingum (af EES-svæðinu) svona kaup og það hefur líka legið fyrir nokkuð lengi að Magma var orðinn stór hluthafi í HS Orku og loks er ekkert nýtt að HS Orka sé í eigu einkaaðila. Sumir myndu segja þetta upphlaup nú bera vott um fordóma gagnvart útlendingum, en líklega sýnir þetta fyrst og fremst klofning í málinu innan VG og að nú sé órólegu deildinni þar nóg boðið. Og gagnrýni Bjarkar Guðmundsdóttur virðist að einhverju leyti byggjast á misskilningi; a.m.k. trúir Orkubloggarinn því tæplega að Björk vilji frekar að kröfuhafar GGE eignist HS Orku. En það væri líkleg niðurstaða ef það markmið undirskriftasöfnunar hennar um að stjórnvöld komi í veg fyrir söluna, gengur eftir.

tjorsa_straumur.jpg

Þjósá straumur – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Orkubloggaranum þykir tilefni til að minna VG enn og aftur á það að einkaaðilar frá bæði Íslandi OG EES geta fjárfest í raforkuframleiðslu hér að vild. Þannig eru gildandi lög. Hinu opinbera er óheimilt að framselja orkulindir sínar til einkaaðila með varanlegum hætti og það bann á bæði við um vatnsafl og jarðhita. En einkaaðilar geta fengið tímabundinn afnotarétt af slíkum orkulindum. Þetta er algert grundvallaratriði og þrátt fyrir að hafa setið í ríkisstjórn í meira en ár hefur VG ekki lagt fram breytingartillögu við þetta fyrirkomulag.

Salan á HS Orku til Magma hefur m.a. verið gagnrýnd með þeim rökum að þar hafi verið farið í kringum lög og Magma hafi nýtt sér hæpna smugu sem er til komin vegna aðildar Íslands að EES. Með því að stofna eignarhaldsfélag í öðru EES-ríki (Svíþjóð) hafi Magma farið í kringum bann við því að fyrirtæki utan EES mega ekki fjárfesta í orkufyrirtækjum á Íslandi.

Þó svo sjálfsagt sé að kanna til hlítar hvort kaup Magma í HS Orku standist íslensk lög, mun niðurstaða þess máls ekki með neinum hætti tryggja að afnotaréttur að orkuauðlindum á Íslandi komist ekki í eigu útlendinga. Íslensk löggjöf heimilar öllum einstaklingum og fyrirtækjum af EES-svæðinu slíkar fjárfestingar. Þau hjá VG og Íslendingar allir verða að horfist í augu við grundvallarspurninguna; gera það upp við sig hvort hið opinbera eigi að sjá um alla raforkuframleiðslu í landinu eða hvort einkaaðilar eigi einnig að hafa tækifæri til að koma þar að.

Sjálfur er Orkubloggarinn á því að þjóðin megi þakka fyrir að HS Orka hafi sloppið undan því að vera í íslenskri eigu FL Group og Glitnis. Það kann að vera hrein gæfa að fyrirtækið skyldi komast undir útlendingana hjá Magma Energy, áður en það yrði endanlega mergsogið af íslenskum eigendum sínum eða andlitslausum kröfuhöfum. En vissulega er alltaf uppi sá möguleiki að einn daginn verði ljúflingarnir hjá Glencore búnir að kaupa HS Orku handa Norðuráli. Þetta er óviss heimur!

ross-beaty_forbes.jpg

ross-beaty_forbes

Orkubloggarinn telur þó afar ólíklegt að Ross Beaty, aðaleigandi Magma Energy, muni selja HS Orku til Norðuráls eða annarra. Fjárfesting Magma í HS Orku er væntanlega til langs tíma rétt eins og Beaty hefur sjálfur margoft lýst í viðtölum. Nema auðvitað að andstæðingum hans takist að þreyta hann og hrekja á brott. 

En af hverju eru menn svona ósáttir vð Beaty? Ekkert bendir til annars en þar á ferð sé vammlaus maður – a.m.k hefur eftirgrennslan Orkubloggarans ekki sýnt neitt annað. Í þokkabót er Beaty með svo farsælan viðskiptaferil að baki, að áhugi hans á að fjárfesta á Íslandi er líklegur til að vekja áhuga annarra sterkra og ábyrgra fjárfesta á landinu. Og veitir ekki af. Þar að auki er lítið mál að koma í veg fyrir brask með HS Orku, með því að tryggja ríkinu forkaupsrétt. Það er í raun sjálfsagður öryggisventill, en er enn ekki að finna í lögum.

Þannig væri unnt að leysa þetta mál með sáraeinföldum hætti; lögbinda forkaupsrétt ríkisins að öllum hlutabréfum í íslenskum orkufyrirtækjum. Ef Magma myndi gerast svo „ósvífið“ að selja HS Orku til t.d. Norðuráls yrði einfaldlega hægt að beita forkaupsréttinum. Vissulega er beiting á slíkum forkaupsrétti háð vilja stjórnvalda á hverjum tíma og því ekki víst að honum yrði beitt þegar á reyndi. En að mati Orkubloggarans væri þetta viðunandi fyrirkomulag.

Það er aftur á móti varla skynsamlegt úr því sem komið er, að ráðast í óviss málaferli um lögmæti kaupa Magma, hvað þá að taka HS Orku eignarnámi. Slíkt þjónar tæplega hagsmunum þjóðarinnar; skynsamlegra er að búa þannig um hnútana að ríkið og sveitarfélög njóti eðlilegs hluta af arðinum af orkuvinnslunni í gegnum skattkerfið. Og allt tal um riftun ríkisins á samningunum er auðvitað útí hött – riftun er vanefndaúrræði og fáránlegt að stjórnmálamenn séu að rugla um riftun.

Í stað þess að vera að eyða tíma í þetta mál, væri nær að einbeita sér að því að styrkja og efla stóru orkufyrirtækin; Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Það er það sem stjórnmálamenn ættu að eyða tíma sínum í, fremur en að vera að hundelta Magma Energy.

Reyndar er líka vert að hafa í huga að raforkuframleiðslan á Íslandi er einhver sú mesta í heimi (per capita) og virkjanirnar kosta sitt. Umfangið í þessum bransa hér á landi er m.ö.o. margfalt meira en flestir virðast gera sér grein fyrir og einungis mestu olíu- og gasríki heims komast með tærnar þar sem Ísland hefur hælana að þessu leyti. Þessi sérstaða Íslands verður ennþá meira áberandi þegar haft er í huga að íslenska orkan kemur öll frá endurnýjanlegum náttúruauðlindum, meðan ríki með svipaða orkuframleiðslu eins og Ísland byggja stöðu sína að langmestu leyti á olíu og gasi. Þetta eru lönd eins og Abu Dhabu, Katar og Kuwait. Noregur kemst líka hátt á þeim lista, en er þó hlutfallslega með miklu minni raforkuframleiðslu en Ísland.

oxararfoss-vetur-klakabond.jpg

oxararfoss-vetur-klakabond

Ísland er sem sagt einhver mesti orkuframleiðandi í heimi (per capita). Hin löndin í þeim hópi eru fyrst og fremst olíu- og gasríki á svæðum þar sem slík vinnsla er með því ódýrasta sem gerist í heiminum (þ.e.a.s. við Persaflóann). Því miður hefur hin gríðarlega raforkuframleiðsla á Íslandi ekki skilað okkur sérstaklega miklum árangri. Vegna þess einfaldlega að við höfum verið að selja raforkuna til stóriðju nánast á kostnaðarverði.

Er skynsamlegt að ríkið og þar með þessi fámenna þjóð þurfi að binda allt þetta gríðarlega fjármagn í orkugeiranum, til þess eins að framleiða raforku handa stóriðju, sem borgar okkur afar lágt verð fyrir orkuna? Og það meira að segja ennþá lægra verð en stóriðja greiðir víðast hvar annars staðar í heiminum, eins og Orkubloggið hefur áður greint frá.

Kannski væri ráð að vera ekki með þessar miklu áhyggjur vegna Magma, heldur fremur huga að því sem mestu skiptir; að auka arðsemi í raforkuframleiðslu á Íslandi. Það er vissulega mikilvæg grundvallarspurning hvort orkufyrirtækin eigi öll að vera í opinberri eigu eða ekki. En í reynd er jafnvel miklu meira hagsmunamál fyrir þjóðina að leita leiða til að auka arðsemi af raforkusölunni. Og hugsanlega er mun einfaldara að ná slíkum markmiðum með því að hafa blandað eignarhald í raforkuvinnslunni.

A.m.k. hefur Ross Beaty sagt í viðtölum að stóriðjan sé að fá orkuna á alltof lágu verði og þannig gefið í skyn að hann kæri sig ekki um það að HS Orka haldi áfram að gefa álverum orkuna á kostnaðarverði. Hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar hefur að nokkru leyti lýst sömu skoðun, en þögnin hjá forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur er æpandi. Er fýsilegt fyrir Íslendinga að orkugeirinn hér þróist eins og gerst hefur hjá OR? Þar sem stórveldisdraumar stjórnmálamanna eru nánast búnir að rústa fyrirtækinu fjárhagslega og það situr uppi með ömurlega orkusölusamninga við Norðurál – en forstjórinn boðar samt enga stefnubreytingu. Er ekki hætt við að allsherjar ríkisvæðing orkugeirans festi einmitt slíkan hugsunarhátt í sessi? Væri ekki betra að virkja líka einkaframtakið til að taka þátt í því með hinu opinbera að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni?

steingrimur-j.jpg

steingrimur j

Vinstri Grænir ættu kannski að slaka aðeins á gagnvart bæði HS Orku og Magma. Og fremur einbeita sér að því t.d. að styrkja stöðu Landsvirkjunar, þar sem VG myndar meirihluta í stjórn ásamt Samfylkingunni. Það getur VG gert með því að marka þá pólitísku stefnu að Landsvirkjun eigi nú þegar að hefja undirbúning þess að auka arðsemi sína með því að kanna til hlítar möguleikann á að leggja rafstreng til Evrópu. Þar liggja hugsanlega einhver bestu tækifæri Íslands til framtíðar. 

Þó svo VG finnist kannski einfaldara að ríkið eða hið opinbera barrrasta eigi allt heila klabbið kann hin leiðin – sú að heimila einkaaðilum að fjárfesta í virkjanarekstri – að henta þjóðinni mun betur. Unnt er að haga lögum þannig að umframarður sem kann að verða til í raforkuframleiðslu framtíðarinnar, renni að stærstum hluta til þjóðarinnar, en ekki til sérhagsmunahópa. Já – með því að sýna fyrirhyggju og beita gjalda- og skattkerfinu er unnt að tryggja að umframarður í raforkuframleiðslunni renni til ríkis og sveitarfélaga, þó svo reksturinn verði að einhverju eða jafnvel umtalsverðu leyti í höndum einkaaðila. Um leið gæti ríkið einbeitt sér betur að því að vera eftirlitsaðili og gæta þess að orkulindirnar séu nýttar í hófi.

Það eru sem sagt til leiðir sem geta verið mun farsælli heldur en alger ríkisvæðing orkuframleiðslunnar. Leiðir sem geta skilað ríkinu og almenningi ennþá betri umgengni við orkulindirnar og ennþá meiri arði af nýtingu þeirra. Og þar með haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir Ísland. Leggjum áherslu á slíka stefnu, setjum ákvæði um forkaupsrétt ríkisins að orkufyrirtækjum í lög og hættum að bömmerast yfir aðkomu Magma Energy.

Fleira áhugavert: