Auðlindir – Sjálfstæði, viðskiptavinir
.
Ágúst 2020
Ofmetnar auðlindir
Fyrir um það bil 15 árum kusu Hafnfirðingar um stækkun álversins í Straumsvík. Þáverandi eigandi álversins taldi nauðsynlegt að hafa uppi í erminni tækifæri til að stækka verið, meðal annars til að styðja við endurnýjun og endurfjárfestingu þess. Svo háttar til í stóriðjubransanum, eins og öðrum, að tæki og tól úreldast og sama á við um vinnsluaðferðir. Í áliðnaðinum gerist það vissulega hægar en í öðrum greinum en það gerist samt. Með því að neita eiganda um stækkun varð verðmæti álversins minna en núverandi eigandi hefur fært verð þess niður í núll í bókum sínum. Ef stækkunarmöguleikar væru fyrir hendi þá væri hugsanlega hægt að draga að nýja aðila sem sæju tækifæri í stækkun. En nú þarf að eiga við Rio Tinto sem telur þessa fjárfestingu sína verðlausa og hefur reyndar nokkuð til síns máls þar sem sala verksmiðjunnar hefur reynst ómöguleg, meðal annars vegna þess að engir stækkunarmöguleikar eru fyrir hendi. Hvernig skyldi ganga að semja við slíkan aðila?
Verkfræðilega sjálfstæð
Álverið í Straumsvík er fyrsta stóriðjuframkvæmdin á Íslandi og með því hófst í raun öld stórframkvæmda hér á landi. Afrakstur þess er sá, að við höfum byggt upp orkuiðnað sem veitir fjöldamörgum vellaunuð störf. Einnig höfum við fært nýja þekkingu inn í landið og segja má að stóriðjuframkvæmdirnar og þó sérstaklega virkjanir þeim tengdar hafi sett undirstöðu undir verkfræðiþekkingu landsmanna. Flestar stærstu verkfræðistofur landsins í dag hafa eflt starfsemi sína að stórum hluta á slíkum verkefnum. Við nánast urðum verkfræðilega sjálfstæð með þessu. Utan á áliðnaðinn einan hefur síðan hlaðist þekkingariðnaður og afleidd störf teljast í þúsundum.
Allt hefur þetta skapað mikinn arð og styrkt atvinnulíf og efnahag landsins. Svo mjög að við erum á sumum þessum sviðum farin að flytja út þekkingu. Það þarf ekki að taka fram að öll þessi vinna skapar miklar tekjur og störf sem greiða háa skatta til samfélagsins. Á seinni árum hefur reynst nauðsynlegt að rifja þetta upp í umræðu um að af þessu stóriðjubrölti hafi lítið sem ekkert skilað sér til þjóðarbúsins. Það má vissulega velta fyrir sér fyrirkomulagi ýmissa samninga en stærri myndin breytist ekki, af þessu hefur skapast mikill hagur fyrir land og þjóð.
Að halda í viðskiptavininn
Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að stjórnvöld hafa varið miklum tíma og fjármunum til að laða að sér fjölbreyttari starfsemi hér á landi, oft með misjöfnum árangri. Það er hins vegar þannig að þegar fyrirtæki hafa einu sinni sett sig niður hér á landi þá eru þau líkleg til að vilja vera áfram hér, hver sem lendingin verður með Rio Tinto en staða þeirra hefur breyst, meðal annars vegna þess að engir stækkunarmöguleikar eru í Straumsvík. Það blasir við að þau fyrirtæki sem eru komin inn á annað borð eru verðmæti, meðal annars af því það þarf ekki að eyða ómældum fjármunum og tíma í að fá þau aftur. Höfum í huga að þegar Norðurál hóf að byggja lítið 60 þúsund tonna álver á Grundartanga um og í kringum 1995 var lítið að gerast í íslensku efnahagslífi. Það breyttist fljótt og Norðurál stækkaði hratt. Eigendur þess voru það ánægðir með starfsemi sína á Íslandi að þeir vildu reisa annað álver í Helguvík. En þá tók skammsýnin við. Þáverandi stjórnvöld vildu ekki álver heldur eitthvað annað. Það og erfiðleikar í orkusamningum gerðu það að verkum að fyrirtæki, sem var búið að reka starfsemi hér í mörg ár og vildi vera áfram, situr uppi með 20 milljarða króna fjárfestingu sem ekkert virðist ætla að verða úr. Ætli væri ráð að taka upp viðræður aftur við Norðurál, nú þegar störfum fækkar stórlega á Suðurnesjum?
En að baki þessu öllu er líka oftrú á því sem mönnum er tamt að tala um sem auðlind. Það er einhvernvegin þannig að þeir sem hafa minnstan framkvæmdahug eru mest uppteknir af verðmæti auðlinda, hvernig sem þær eru skilgreindar. Vissulega er verðmæti öllu því sem Íslandi tilheyrir, það getum við sagt með stolti. En peningaleg verðmæti auðlinda eru ofmetin um leið og peningaleg verðmæti athafnamennsku og framkvæmdahugar eru vanmetin. Þjóð sem heldur að hún eigi eitthvað inni vegna auðlindanna einna er á miklum villigötum.