Ryðlitað neysluvatn – Hvað veldur, lausnir

Heimild: 

.

Desember 1995

Er ryðlitur á kalda vatninu?

Ryðlitur á vatni segir okkur, að leiðslurnar innanhúss eru farnar að skemmast. Ef ekkert er gert, getur svo farið, að þær verði ónothæfar.

Hvað oft höfum við ekki heyrt að íslenska kalda vatnið sé það besta í heimi. Þetta er auðvitað frasi sem alhæfir en það er langur vegur frá því að hægt sé að setja einn allsherjar gæðastimpil á íslenskt vatn, sumstaðar er notað slæmt eða mengað yfirborðsvatn en annars staðar hreint og tært vatn úr borholum, sótt langt niður í iður jarðar. Sem dæmi um það síðarnefnda, hreina vatnið, má nefna vatnið sem Vatnsveita Reykjavíkur dælir til notenda.

En þrátt fyrir gæði vatnsins ber meira og meira á því á veitusvæði Vatnsveitu Reykjavíkur að ryðlitur sjáist á vatninu, einkum fyrst eftir að skrúfað er frá krana.

Hvað veldur?

Enn er ekki hægt að svara þessu óyggjandi en líklegt er að þarna sé um nokkra samverkandi þætti að ræða. Kaldavatnslagnir í húsum á þessu veitusvæði eru að langmestu leyti úr galvanhúðuðum stálpípum, snittuðum og skrúfuðum saman með gamla laginu. Ryðlitur á vatni segir okkur að leiðslurnar innanhúss eru farnar að skemmast og ef ekkert er að gert getur svo farið að þær verði ónothæfar og það er vissulega alvarlegt mál fyrir hvern húseiganda.

En aftur er spurt: hvað veldur?

Þá er þess að gæta að þetta vandamál hefur komið upp á síðustu árum, til eru lagnakerfi 50­60 ára sem ekki sér á.

Þetta er nokkur vísbending.

Það fyrsta er vatnið, getur verið að vatnið sé orsökin?

Þarna kann að koma fram þversögn, gæði vatnsins til drykkjar og matargerðar eru óyggjandi en hinsvegar getur efnasamsetning vatnsins verið þannig í dag að það sé ekki eins hættulaust galvanhúðuðum lögnum og áður.

Annað atriðið er millirennsli milli kalda- og heitavatnskerfa sem er vaxandi vandamál. Sjálfvirk blöndunartæki við sturtur og baðker eru oftar en ekki sökudólgarnir. En þetta er ekki alfarið rétt, það eru ekki tækin sem slík sem eru sökudólgarnir heldur vanræksla á viðhaldi og þar eru sölumenn slíkra tækja þeir sem hafa brugðist og auðvitað pípulagningamenn líka. Þessir aðilar eiga að upplýsa kaupendur og notendur um það við sölu og uppsetningu að nauðsynlegt er að skipta um einstreymisblöðkur í þessum tækjum ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti eða jafnvel oftar. Það er ekki gert, einstreymisblöðkurnar verða óþéttar og þá getur heitt vatn runnið inn í kaldavatnskerfið eða öfugt.

Þriðja atriðið er galvanhúðin á rörunum; er hún lakari í dag en fyrir einum eða tveimur áratugum? Þetta vandamál virðist frekar gera vart við sig í yngri byggingum en eldri og er það nokkur vísbending.

Fjórða atriðið er breyttir lífshættir.

Lífsstíllinn fyrir tuttugu til þrjátíu árum var allt annar en í dag; húsmæður voru flestar heimavinnandi, vélbúnaður var minni á heimilum en þetta hafði í för með sér meiri og jafnari vatnsnotkun yfir meirihluta sólarhringsins. Þvottur var skolaður en til þess þurfti mikið vatn, það var verið að skúra og skrúbba allan daginn. Vatn var aldrei kyrrstætt langtímum saman í leiðslum öfugt við það sem er í dag; heimili mannlaus daglangt og því er engin hreyfing á vatni í leiðslum nema kvölds og morgna.

Þetta getur haft talsverða þýðingu og ekki svo vitlaust að gera sér að reglu að láta renna hressilega úr öllum krönum einu sinni á sólarhring.

En víða á landsbyggðinni er orsök ryðlitaðs vatns aðeins ein eða vatnið, sem oft er mengað yfirborðsvatn.

Hvað er til ráða?

Eitt er víst að ef einhver verður var við ryðlit á kalda vatninu verður að grípa til aðgerða.

Einfaldast er, ef ryðmyndun er á byrjunarstigi, að setja tvennskonar tæki á inntak kalda vatnsins.

Vandað sigti sem kemur í veg fyrir að óhreinindi komist inn í kaldavatnskerfið innanhúss en það getur haft skaðleg áhrif. Óhreinindi komast stundum inn í dreifikerfið utanhúss við bilanir, t.d. ef leiðsla er rofin af stórvirkri vinnuvél.

Til að ráða bót á þeim skaða sem kann að vera orðinn á leiðslum er rétt að setja hylki með kristöllum á inntakið en þessir kristallar gefa frá sér efni sem sest innan á lagnir en spillir ekki vatninu.

Ef skaðinn er orðinn mikill er þetta ekki nóg. Þá verður að hreinsa lögnina og til þess eru sérstök tæki sem með samblöndun lofts og vatns undir miklum þrýstingi hreinsa lagnirnar af hrúðri og ryðskánum. Eftir hreinsun er tengt tölvustýrt tæki við inntakið sem spýtir efni inn í leiðslurnar og húðar þetta efni rörin að innan. Eftir að þetta tæki hefur verið í notkun í ákveðinn tíma er í flestum tilfellum hægt að taka það úr sambandi, skaðinn á rörinu hefur verið bættur.

Þessar vangaveltur eru fyrst og fremst settar á blað til að vekja húseigendur til umhugsunar um að þarna kann að vera vágestur á ferð, en frekari upplýsingar og leiðbeiningar er vænlegast að fá hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Tært og ómengað drykkjarvatn er öllum nauðsynlegt.

Fleira áhugavert: