Olía gefins – Kostaði -37,63 USD
.
April 2020
Hvernig gat verðið orðið neikvætt?
Hrun hráolíuverðs getur varla talist óvænt, eftir ört minnkandi eftirspurn í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar á sama tíma og framleiðendur hafa aukið framleiðslu í von um aukna markaðshlutdeild. En hvernig gat verðið farið niður fyrir núll?
Margir héldu vafalaust að galli væri hlaupinn í tölvukerfi kauphallarinnar í New York í gær, þegar fjárfestar horfðu fram á olíuverðið lækka svo mjög að það fékk skyndilega neikvætt formerki. Endaði verðið að lokum í -37,63 bandaríkjadölum, við lokun markaða.
Framleiðendur hráolíu voru þannig viljugir til að borga með vörunni sinni, til að geta losað sig við hana. Hvernig stóð á því?
Geymslustöðin nærri barmafull
Um var að ræða framvirka samninga fyrir West Texas Intermediate olíu sem taka áttu gildi í dag, það er að kaupandi samningsins á í dag tæknilega séð að taka við hráolíunni.
Og þar stóð hnífurinn í kúnni: Olíugeymslustöðin í Cushing í Oklahoma, þar sem WTI-olía er jafnan afhent, er nærri barmafull sökum góðrar og stöðugrar framleiðslu vestanhafs á sama tíma og olíuhreinsistöðvar hafa skipt niður um nokkra gíra vegna minnkandi eftirspurnar.
„Olíuverðið endurspeglar meira kostnaðinn af því að geyma olíu, frekar en efnahagslegt virði olíunnar,“ segir Stephen Innes í samtali við fréttastofu AFP, en hann er yfir alþjóðamörkuðum hjá fjárfestingaþjónustunni AxiCorp.
„Þar sem WTI þarfnast raunverulegrar afhendingar og dýrt er að útvega geymslurými, þá fór kostnaður geymslu olíunnar í maímánuði fram úr áætluðu virði hennar í sama mánuði.“
Vonir um eftirspurn í júní
Verðhrunið varpaði ljósi á þá staðreynd að mest olíuviðskipti fara fram í gegnum framvirka samninga, en ekki í gegnum kaup og sölu á olíutunnunum sjálfum.
Samningar um WTI-olíu í júní hafa þannig einnig fallið í verði, og sömuleiðis samningar um Brent-olíu í þeim mánuði.
Þeir sem halda á slíkum kaupsamningum þurfa ekki að taka við olíunni fyrr en þá, þegar margir vonast til að spurn eftir eldsneyti taki að glæðast samhliða afléttingu ferðatakmarkana víða.