BMW – Úr strokkum í rafhlöður
.
Desember 2017
BMW-strokkarnir nú tákn um rafhlöður
Ásýnd höfuðstöðva BMW í München tók stakkaskiptum í vikunni. Byggingin, sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar hefur jafnan verið kölluð „sýlindrarnir fjórir“ þar sem turnar höfuðstöðvanna minna strokka í sprengihreyfli; bílvélum BMW.
Nú eru turnarnir ekki lengur tákn um strokka heldur rafhlöður enda eru stjórnendur BMW ekki í vafa um að rafmótorar í bílum vísi veginn til framtíðar enda stendur stórum stöfum utan á byggingunni: Framtíðin felst í rafmagninu.
Í ræðu sem Harald Krüger, stjórnarformaður BMW Group, hélt af því tilefni þegar ný ásýnd höfuðstöðvanna var vígð í vikunni, að BMW hefði nú þegar á þessu ári afhent meira en 100 þúsund nýja BMW-bíla með rafmótor. Það er í samræmi við áætlanir framleiðandans sem kynntar voru í ársbyrjun.
Frá og með árinu 2021 mun hönnun undirvagns og vélarrúms í nýjum bílum BMW gera ráð fyrir að hægt sé að setja í bílana hvort heldur sem er eingöngu sprengihreyfil, sprengihreyfil og rafmótor eða bara rafmótor.
Rafmótorar vísa veginn til framtíðar
Krüger segir að þetta 99 metra háa kennileiti vísi veginn í rafmögnuðum samgöngum. „Við stóðumst áætlanir ársins í sölu bíla með rafmótor og höfum þegar afhent yfir 100 þúsund slíka bíla á árinu sem er að líða. Þetta er mikill áfangi en aðeins byrjunin á þessari vegferð okkar. Síðan 100% rafbíllinn BMW i3 kom á markað 2013 höfum við selt yfir 200 þúsund bíla með rafmótor og sprengihreyfli og árið 2025 stefnum við að því að bjóða viðskiptavinum 25 mismunandi bílgerðir þar sem rafmótor gegnir veigamiklu hlutverki. Við erum í engum vafa um þá staðreynd að rafmótorar í bílum vísa veginn til framtíðar og ráði miklu um velgengni fyrirtækisins,“ sagði Krüger
BMW tryggði sér 2011 einkaleyfi á vörumerkinu „BMW i“ sem prýða mun „rafmagnaðar“ gerðir BMW i1 til i9 og einnig X-gerðirnar iX1 til iX9. Á næsta ári kemur BMW i8 Roadster á markað, 2019 kemur 100% rafbíll á markað frá MINI og ári síðar kemur svo alrafmögnuð útgáfa sportjeppans X3 á markað.
Þá hefur BMW kynnt alveg nýja tækni frá og með 2021 undir heitin BMW iNEXT sem felur í sér kynslóð nýrra bíla sem verða mun sjálfvirkari á allan hátt en núverandi bílar á markaðnum.