Lífræn salerni, sól, vindur
.
Febrúar 1996
Sól á lofti og sumarhús í sveit
Lífrænu salernin menga umhverfið miklu minna eða alls ekki. Allt sem frá þeim kemur hverfur aftur til náttúrunnar.
Enginn getur neitað því að sól hækkar á lofti og ekki heldur því að veðurblíðan í liðnum janúarmánuði var einstök. Það er því líklegt að margir séu farnir að hugsa til vorsins og jafnvel skipuleggja sumarfríið eða hugsa til sumarbústaðar, hvort sem menn eiga þá eða ekki.
Sumarbústöðum hefur fjölgað geysilega hérlendis síðustu árin og segja má að það sé ekki boðlegt stéttarfélag sem ekki á sumarhús í fallegri sveit til að bjóða sínu fólki.
Sumarhús má setja í þrjá aðalflokka, í fyrsta lagi þau sem eru í eigu félaga og fyrirtækja, í öðru lagi þau sem eru í eigu einstaklinga og í þriðja lagi þau sem eru í eigu landeigenda og leigð hverjum sem hafa vill.
En það má einnig flokka sumarhús á annan veg; sumarhús sem bjóða upp á öll þægindi og sumarhús, þá oftast í eigu einstaklinga, sem ekki hafa nein nútímaþægindi. Það eru ennþá til sérvitringar sem vilja fara út í náttúruna og skilja eftir heima sjónvarpið, rafmagnið og flest það sem er ómissandi í borgarstressinu.
En í rauninni er það að verða rangnefni að kalla þessi hýbýli sumarhús eða sumarbústaði, flest húsin eru nýtt árið um kring, það færist meira að segja í vöxt að fólk dvelji þar um jól og áramót.
Aftur til fortíðar
Þótt menn kjósi að búa við frumstæðar aðstæður í sínum „sumarkofa“ er ekki þar með sagt að lágmarkskröfur í hreinlæti sé ekki hægt að uppfylla.
Þótt ekki sé rennandi vatn er hægt að hafa boðlegt salerni á staðnum. Það er orðið ríkt í okkur að ekkert sé nothæft nema vatnssalerni og að því frágengnu sé ekki um annað að ræða en gamla kamarinn eða sjálfa náttúruna.
En þarna er boðleg lausn sem við höfum verið ótrúlega blind á hérlendis, en það er lífræna salernið. Slík salerni eru til í mörgum gerðum en grundvallast öll á því að vatn kemur þar hvergi nærri til skolunar, öllu sem frá mannskepnunni kemur í fljótandi og föstu formi er haldið til haga í þar til gerðum tönkum, brotið niður á lífrænan hátt og verður þar með hinn verðmætasti áburður til hvers konar ræktunar.
Lífrænu salernin eru ekki ný af nálinni, sérdeilis hafa þau náð mikilli útbreiðslu í Skandinavíu og er nú svo komið að í mörgum sumarhúsabyggðum þar eru vatnsalerni bönnuð, aðeins lífræn salerni leyfileg.
Hvers vegna skyldi það vera?
Lífrænu salernin menga umhvefið miklu minna eða alls ekki, allt sem frá þeim kemur hverfur aftur til náttúrunnar en safnast ekki saman í þróm eða mengar ár og vötn eins og oft vill verða þegar vatnssalerni eru notuð.
Ljós og hiti
Þótt ekki sé unnt að fá tengingu við dreifikerfi rafveitu eða ekki talið æskilegt, er engin þörf á að vera án ljóss eða án þess að geta hitað vatn til baða og þvotta.
Þar er um þrjá orkugjafa að ræða, aðflutt gas eða tvo orkugjafa sem eru til á staðnum, sól og vind.
Við trúum því varla að hægt sé að nýta sólarorku hérlendis enda lítið verið reynt, en þar er lausn sem er kominn tími til að sannreyna. Vindmyllur voru algengar á sveitabæjum um og fyrir miðja þessa öld, en með allsherjar rafvæðingu landsins hurfu þær. Tæknin hefur þó verið þróuð áfram og ekki þarf annað en að ferðast um gróðurríka Danmörku til að sjá slík orkuver í röðum.
Sértu að hugsa um að reisa „sumarkofa“ þá eru möguleikarnir á frumþægindum þó nokkrir og hreinlætinu vill enginn sleppa.
Til eru sturtuklefar sem er ætlað til að veita lúxus við frumstæðar aðstæður. Hæfilega heitu vatni er hellt í tank, sem er á miðjum klefaveggnum, dæla í sturtubotninum er fótstigin og þar með ertu komin(n) í sturtu.
Ákveðnr tegundir af lífrænu salerni aðskilur strax í upphafi fast og fljótandi og skilar eiganda sínum hinum besta áburði til skóg- eða grasræktar.