Neðri Dalur – Bæjarlækurinn 1 MW

Heimild:

.

Apríl 2007

Bæjarlækur skilar megawatti

Steinn Logi Guðmundsson, rafmagnsbóndi í Neðri-Dal undir Eyjafjöllum, við stærra túrbínuhjólið í orkustöðinni sem bráðlega byrjar að mala gull fyrir búskapinn og getur gert áfram í heilan mannsaldur. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson

„Það er gaman að standa í þessu, nema pappírsvinnunni. Það er ótrúleg vinna sem felst í því að afla leyfa og þess háttar og ég hefði aldrei haft það af nema ráða sérstakan mann í það,“ segir Steinn Logi Guðmundsson, loðdýrabóndi í Neðri-Dal undir Eyjafjöllun, en hann er um þessar mundir að taka í notkun eina af stærri einkavirkjunum landsins.

Steinn Logi býr að mörgu leyti við ákjósanlegar aðstæður til virkjunar bæjarlækjarins eða öllu heldur bæjarlækjanna. Uppsprettuvatnið sprettur út úr fjallshlíðinni og myndar nokkra læki sem hann hefur nú virkjað.

Rennsli umfram vonir

Undirbúningur að virkjuninni hefur staðið um tíma en mannvirkin voru að mestu byggt síðasta sumar, stífla og stöðvarhús. Steinn Logi er smiður og vann sjálfur að því en verkið er það umfangsmikið að hann keypti einnig töluverða vinnu að. Undirbúningurinn fólst meðal annars í því að mæla rennslið í lækjunum og það var meira en Steinn Logi hafði ímyndað sér fyrirfram og það styrkti hugmyndir hans um að virkja. Reist var stífla í gili í fjallinu.Framkvæmdum er nú að mestu lokið og þegar rætt var við Stein Loga var hann að bíða eftir fulltrúa frá túrbínuframleiðandanum til að stilla vélarnar, til þess að geta hafið framleiðslu og setja raforkuna inn á landskerfið.

Áætlað afl virkjunarinnar er hátt í eitt megawatt, en það kemur þó ekki endanlega í ljós fyrr en virkjunin fer að snúast fyrir alvöru. Orkan hefur öll verið seld til Orkuveitu Reykjavíkur. Steinn Logi tekur fram að þeir samningar hafi verið alger forsenda þessarar framkvæmdar.

Aldrei sleppt hamrinum

Steinn Logi er húsasmiður, fæddur og alinn upp í Reykjavík. Hann á engar rætur í þessari sveit en kynntist konu þaðan og þau hófu búskap í Neðri-Dal. Steinn Logi hefur búið með minka í mörg ár og hefur sá rekstur gengið vel á undanförnum árum. En sveiflurnar eru miklar í þessari atvinnugrein eins og reynsla síðustu áratuga sýnir. Hann vinnur einnig utan heimilis, eins og fleiri bændur, við smíðar. „Ég hef aldrei sleppt hamrinum,“ segir hann.Nú hefur rafmagnsframleiðslan bæst við og þótt tekjurnar séu ekki miklar á hverju ári er kostnaðurinn lítill og virkjunin á að geta malað gull í fimmtíu til hundrað ár.

Í hnotskurn

» Rafmagn hefur ekki áður verið framleitt í Neðri-Dal.
» Nýja virkjunin er í raun tvær. Afl stærri túrbínunnar er áætlað 700 til 800 kW og þeirrar minni 80 til 100 kW.
» Kostnaður við virkjunina nemur um 150 milljónum kr.

.

Fleira áhugavert: