Ástralía, til sölu – Gas, kol, hrávara, Kína
.
Desember 2010
Suðurlandið til sölu
Sértu strákur eða stelpa með meirapróf uppá vasann og smá ævintýraþörf í blóðinu, þá er hugmynd: Eyddu einu ári suður í Ástralíu og komdu svo heim um næstu jól með 10 milljónir ISK í rassvasanum.
Til að láta þetta rætast þarftu einungis að vinna svona ca. 15 tveggja vikna vaktir undir stýri á einum af stærstu trukkum heimsins. Þess á milli geturðu t.d. flatmagað á ströndinni við Sydney og notið lífsins. Ekki amalegt.
Á 2ja vikna fresti er þér skutlað með flugvél þvert yfir landið, þar sem þú klifrar uppí ofurtrukkinn og keyrir með rauða jörð frá skurðgröfunum og til skips. Vissulega þarf smá seiglu í vaktirnar, sem eru 12 tímar hver. En eftir vakt má alltaf skola niður svona eins og einum ísköldum Castlemain XXXX og eiga góða stund á barnum áður en haldið er til koju.
Já – á einhverju eyðilegasta horni Ástralíu má úr órafjarlægð sjá rykbólstrana stíga upp í kjölfar risatrukkana. Þar sem þeir keyra stanslaust allan sólarhringinn með 300 tonn af rauðum jarðvegi í hverri ferð!
Allt er þetta hluti af kínverska efnahagsundrinu, sem hefur haft gríðarleg áhrif á daglegt líf Ástrala. Nánast óendanleg eftirspurn frá Kína eftir áströlskum kolum, gasi, málmum, úrani og ýmsum öðrum hrávörum hefur valdið því að í Ástralíu koma menn af fjöllum þegar þeir heyra talað um kreppu. Enda er Ástralíudollarinn nú meðal þeirra mynta sem mest viðskipti eru stunduð með í heiminum. Aðeins bandaríkjadalur, japanskt jen, breskt pund og evra hafa meiri veltu.
Það hefur verið hreint magnað að fylgjast með uppganginum í Ástralíu. Ekka bara síðustu árin fyrir „heimskreppuna“ – sem er bara alls ekki að ná til alls heimsins – heldur líka þess sem hefur verið að gerast þarna á Suðurlandinu mikla síðustu tvö árin. Það er einfaldlega rífandi gangur í atvinnulífinu og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að góðærið þar haldist lengi enn.
Efnahagsástandið í Ástralíu þessa dagana er svo sannarlega afar ólíkt því sem var, þegar Orkubloggarinn dvaldi þar við sólarstrendurnar dásamlegu í Sydney fyrir rétt rúmum áratug. Það var árið 1998 og áhrif Ásíukreppunnar voru ennþá mjög áberandi. Á leið sinni til þessa mikla og merka lands í suðri hafði bloggarinn haft viðkomu í Bangkok í Taílandi. Þar stóðu hálfbyggðir skýjakljúfar líkt og draugar út um alla borgina og ennþá langt í að Taíland næði sér upp úr kreppunni, sem hafði fellt gengi gjaldmiðils þeirra um helming. Enda var hægt að leyfa sér að gista þar á lúxushótelum og allt á spottprís – meira að segja fyrir Íslending.
Þegar komið var til Sydney virtist ástandið þar vera prýðilegt. En í reynd höfðu Ástralir orðið fyrir miklu höggi. Japan hafði verið þeirra mikilvægasti viðskiptavinur, en nú var japanska efnahagsundrið búið og ekkert virtist blasa við nema samdráttur. Efnahagslægðin í Japan olli því að Ástralíudollarinn snarféll, sem var auðvitað til góðs fyrir gestinn frá Íslandi. Það er alveg magnað að hugsa til þess að þá fór Ástralíudollarinn niður í hálfan bandaríkjadal, en í dag er gengið aftur á móti nánast 1:1! Það er svo sannarlega engin kreppa þarna í Suðrinu hinu megin á hnettinum.
Rétt um það leyti sem Orkubloggarinn kvaddi Ástralíu á steikjandi heitum desemberdegi 1998 fór æpandi uppgangurinn í Kína á skrið. Og á þessum rúma áratug sem liðinn er síðan þá, hafa viðskipti Ástralíu við Kína vaxið frá því að vera nálægt því engin og í það að nú fær Ástralía um fjórðung allra útflutningstekna sinna frá Kína! Vissulega flytja Ástralir líka mikið inn frá Kína, en viðskiptajöfnuðurinn við Kína er þeim samt hagstæður um tugi milljarða USD. Peningarnir sem sagt streyma frá Kína og til Ástralíu.
Það sem Kínverjar eru að kaupa svona mikið í Ástralíu þessa dagana er einfaldlega Ástralía sjálf. Náttúruauðlindir.
Áströlsk kol, ástralskt úran og ástralskt járn streymir sem aldrei fyrr til Kína. Hér í upphafi færslunnar var minnst á járngrýtið sem siglt er með í heilu skipalestunum frá rauðum auðnum NV-Ástralíu og til Kína. Jarðveginum er skóflað uppá sannkallaða risatrukka sem flytja það um borð í ofurpramma, sem svo færa góssið til Kína. Og þarna í Pilbara-héraðinu er af nógu að taka. Áætlað að auðnin þarna hafa að geyma um 40 milljarða tonna af þessum járnríka jarðvegi. Þ.a. þau milljón tonn sem nú er siglt daglega með frá Pilbara og gegnum sundin við Indónesíu og til Rauða Drekans, munu endast í dágóða stund.
Þarna koma Kínverjarnir ekki bara fram sem laufléttir kaupendur að járngrýti og öðrum málmum og hrávörum. Þvert á móti hafa kínversk risafyrirtæki í námageiranum verið iðin við að kaupa upp áströlsk námafyrirtæki. Þarna eru á ferðinni nöfn eins og Sinosteel (stærsti járninnflytjandi Kína), kínverska ríkisfjárfestingafyrirtækið CITIC og Chinalco (eitt stærsta álfyrirtæki heimsins). Ástralíumegin eru gamlir kunningjar lesenda Orkubloggsins eins og BHP Billiton og Rio Tinto (sem á m.a. álverið í Straumsvík undir merkjum Rio Tinto Alcan).
Stutt er síðan Chinalco keypti einmitt um 10% hlut í Rio Tinto og undanfarna mánuði hefur Kínalkóið verið að reyna að kaupa annað eins í viðbót. En nú var bæði áströlskum stjórnvöldum og öðrum hluthöfum Rio Tinto orðið nóg um – og díllinn var stöðvaður. Kínverjarnir tóku þá bara upp þá strategíu að verða stórir hluthafar í einstökum námaverkefnum í landinu; verkefni sem þeir fjármagna með Rio Tinto og öðrum slíkum fyrirtækjum. Og eru þannig smám saman að eignast stóran hlut í mörgum stærstu námum Ástralíu, þó svo kaup þeirra í áströlsku námarisunum hafi verið stöðvuð – í bili. Þar að auki er Kína einhver stærsti kaupandinn að skuldum Ástrala.
Utan við strönd Pilbara liggja svo hinar geggjuðu Gorgon-gaslindir, sem nýttar verða til að framleiða fljótandi gas (LNG) sem siglt verður með á risastórum tankskipum til Kína. Þar er á ferðinni fjárfesting upp á tugmilljarða USD, sem bætist við allt hitt fjármagnið sem streymt hefur í nýtingu ástralskra náttúruauðlinda síðustu árin. Búið er að undirrita samning við Kínverja um að þeir kaupi alla framleiðsluna næstu tuttugu árin. Kannski ekki skrítið að á liðnu ári (2009) hækkaði fasteignaverð í Pilbara um meira en 200%.
Ástralir fagna eðlilega góðu ástandi efnahagsmála. En núna þegar Kína stendur að baki um fjórðungi af öllum útflutningi frá Ástralíu eru menn farnir að spyrja hvort þetta geti verið tvíbent velmegun? Verði stöðnun í Kína er hætt við að efnahagur Ástralíu falli eins og steinn. Skyndilegt fall Ástralíudollarans í árslok 2008, þegar Kína tók lauflétta dýfu, er þörf áminning um þessa ógn.
Þeir Ástralir eru líka til, sem óttast að efnahagsstyrkur Kínverjar sé farinn að hafa óeðlilega mikil áhrif á ákvarðanatöku bæði ástralskra stjórnvalda og ástralskra kjósenda. Báðir þessir hópar hræðast fátt meira en efnahagslegan samdrátt og þess vegna er mikil freisting í þá átt að leyfa Kínverjum að fara sínu fram í Ástralíu.
Dæmi um þessa hugsun má t.d. sjá í því þegar vinstri stjórninni í Ástralíu mistókst að innleiða auðlindaskatt í landinu fyrir um ári síðan. Þar ætluðu menn að fara ekki ósvipaða leið eins og t.a.m. hefur verið gert í Noregi, enda vitað mál að kolin, járnið og úranið í Ástralíu mun ekki endast að eilífu og því æskilegt að koma á auðlindasjóði. En lobbýismi risafyrirtækjanna stöðvaði þessa tilraun til að koma á auðlindaskatti – og svo féll stjórnin í kosningunum þegar kjósendur refsuðu Verkamannaflokknum fyrir að leyfa ekki bara öllu að halda áfram með bensínið í botni. Það er jú bara svo gaman að gefa ennþá meira í!
Og lífið gengur sinn vanagang í auðnum Ástralíu. Þar sem trukkarnir halda áfram að flytja ástralskar náttúruauðlindir til skipa, sem svo sigla með þær norður til Kína og kynda undir efnahagsuppganginn þar. Þarna eru gríðarlegir tekjumöguleikar fyrir vinnuafl, sem er tilbúið að halda á vit vertíðarlífsins í eyðimörkinni rauðu og nógir ísskápar fyrir bjórinn. Gæti varla betra verið.
Þó eru þeir til sem ofbýður atgangur Kínverjanna við uppkaup á námum og hrávörum í Ástralíu – og reyndar út um allan heim. En það má líka spyrja hvort nokkuð sé athugavert við það að fjölmennasta þjóð heimsins, með um 20% allra íbúa jarðarinnar, leitist við að festa sér a.m.k. sama hlutfall af auðlindum heimsins? Annað væri eiginlega vítavert gáleysi af hálfu Kínverja.