Zohr – Stærsta gasauðlind Miðjarðarhafs
Heimild:
.
Ágúst 2015
Ítalski orkurisinn Eni tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði fundið stærstu gasauðlind Miðjarðarhafsins, í lögsögu Egyptalands. Fundurinn var staðfestur af olíuráðuneyti Egyptalands, en talið er að um sé að ræða 850 milljarða rúmmetra af gasi á 100 ferkílómetra svæði.
Í tilkynningu frá Eni kemur fram að um sé að ræða stærstu gasauðlind sem fundist hefur á Egyptalandi og mögulega í heiminum. Talið er að lindin muni mæta gasþörfum Egypta um áratugi.
Hún er staðsett á 1.450 metra dýpi á svæði sem kallast Shorouk Block. Samkvæmt tilkynningunni mun Eni umsvifalaust ráðast í að láta meta svæðið með það í huga að hefja vinnslu. Var rætt um fjögur ár í því sambandi.
Stjórnarformaður Eni, Claudio Descalzi, hefur átt fundi með Abdel Fattah al-Sisi, forseta Egyptalands, og forsætisráðherranum Ibrahim Mahlab, og segir að hinn „sögulegi“ fundur muni gjörbylta stöðu orkumála í landinu.
Descalzi hafa borist skilaboð frá Matteo Renzi, þar sem forsætisráðherrann ítalski óskar fyrirtækinu til hamingju með hinn „ótrúlega“ fund.
Sérfræðingar segja fundinn setja strik í reikninginn hjá Ísraelsmönnum, sem höfðu ráðgert að flytja út gas til Egyptalands.