Miðstöðvarryksuga – Óhreint loft út

Heimild: 

.

September 1998

Ryksugun er drullumall

Miðstöðvarryksugan er lausnin á ryksuguvandamálinu. Ryksugur vissulega soga til sín ryk og óhreinindi en þær spýti jafnframt út úr sér miður heilnæmu lofti sem ekki fari í ryksugupokann.

Það var í fréttum að hreinlæti væri farið að skaða heilsu fólks, einkum barna. Þeir eru ábyggilega margir sem fussa við slíkum fréttum, hreinlæti hljóti alltaf að vera til góðs. Það er nú það.

Hvers vegna lagði svarti dauði stóran hluta af íslensku þjóðinni í gröfina. Hvers vegna dóu svona margir úr spönsku veikinni 1918 og hvers vegna fór hrossasóttin eins og logi yfir akur á síðastliðnum vetri? En hvað á þetta skylt við hreinlæti? Ekkert svona beinlínis en þessar þrjár fyrrnefndu plágur í mönnum og dýrum náðu að sýkja svo marga einstaklinga, eins og raun ber vitni, vegna þess að þeir hinir sömu höfðu ekkert mótefni í sér, þessar pestir voru óþekktar áður. Eitthvað svipað má segja um ofurhreinlæti og líklega er talsvert mikið til í máltækinu „á misjöfnu þrífast börnin best“.

Sá sem lifir í dauðhreinsuðu umhverfi kann að vera dauðans matur ef hann fyrir slysni kemst í snertingu við venjulega flensubakteríu, hvað þá ef hann fær í sig eitthvað skæðara.

Hindúar á Indlandi leggja þá skyldu á hvern mann að baða sig í hinum helgu fljótum landsins og það hafa þeir gert mann fram af manni. Þegar þessi kennisetning var sett fyrir óralöngu voru fljótin efalaust hrein og heilnæm, sá sem kennisetninguna setti hefur efalaust haft hreinlæti í huga en ekki neinn guðdóm.

Nú eru fljótin orðin mengaðar forarvilpur, en menn baða sig enn í þeim og verður ekki meint af, hver og einn hefur innbyggðar varnir gegn þeirri óhollustu sem sannanlega er í vatninu.

En ef ræfilslegur hvítingi frá Vesturlöndum bjálfast til að blekkjast af allri hindúaspekinni, sem menn eru svo veikir fyrir, og fer auðvitað að baða sig í hinum „helgu fljótum“, má hann þakka fyrir að detta ekki niður dauður á stundinni; margir sleppa með svæsin veikindi.

Aftur heim í stofu

Já, aftur heim í íslenskt umhverfi, íslenskan raunveruleika, þar sem herskari af þrifnum og þybbnum húsmæðrum fara eins og stormsveipir um hús og hýbýli í hreinlætisæði, meðan magasíðir húsbændur liggja afvelta í húsbóndastólnum og glápa sljóum augum á fótbolta eða formúlu.

Þurrkað er af öllu, skúrað og skrúbbað og síðast en ekki síst; ryksugan er dregin hvæsandi og urrandi herbergi úr herbergi, yfir teppi og önnur skárri gólfefni, en einkanlega yfir teppi, þessa forarpytti sem minna einna helst á heilög indversk fljót.

Hvað gerist þegar ryksugan vinnur sitt verk?

Heimskuleg spurning hugsar einhver þybbin eða einhver magasíður. Ryksugan sogar í sig ýmiskonar óhreinindi sem hafa sokkið niður í teppin, allskonar afganga af poppkorninu og snakkinu, sígarettuösku sem óvart datt, jafnvel stubba, og auðvitað déskotans rykið, „sem seiglast að falla og svínar út alla og sést ekki fyrr en það fer“.

Málið er engan veginn svona einfalt, vissulega sogar sterk ryksuga í sig óhemju af ýmiskonar drasli, sem síðan sest í pokann. En til þess að það gerist verður hún að soga í sig ósköpin öll af lofti sem sest ekki í pokann, það verður að halda áfram úr ryksugunni aftur.

Það loft, sem hún prumpar út úr sér lon og don meðan á ryksugun stendur er líklega lítið skárra að hollustu en helgu fljótin á Indlandi en miklu lævísara, því það sést ekkert í því og þess vegna halda allir að það sé hreint.

Í þessu lofti er aragrúi af örsmáum ögnum sem við sjáum ekki og það er mjög líklegt að talsverður hluti af þessum ögnum hafi sjálfstætt líf sem engan veginn er hollt lifandi veru, allra síst ungum börnum.

Það er því bráðnauðsynlegt þegar ryksugað er að opna alla glugga og dyr upp á gátt, senda þann magasíða út með börnin (eða þá þybbnu ef hann ætlar að hetjast við að nenna einhverju), ryksuga helst í roki svo óhollustan nái ekki að stöðvast innanhúss.

En á þetta heima í þessum pistli?

Vissulega, því lausnin er fundin fyrir löngu og er sem betur fer komin í gagnið, einkum á stofnunum, en síður á heimilum.

Lausnin er miðstöðvarryksuga, ein ryksuga fyrir til dæmis heila íbúðarblokk. Henni er komið fyrir í góðu rými í kjallara eða neðstu hæð, eins og miðstöðvarkatli fyrir daga hitaveitu. Frá þessari miðstöðvarryksugu liggja lagnir um allt húsið, í hverri íbúð eru ein eða tvær „innstungur“ sem ryksugubarki er tengdur við á einfaldan hátt og þá fer ryksugan í kjallaranum sjálfkrafa í gang. Með þessari aðferð er ekki aðeins ryki og drasli safnað í pokann heldur fer það loft, sem inn í ryksuguna fer, út úr húsi og mengar ekki loftið í þeirri íbúð þar sem verið er að ryksuga.

Af hverju er þetta kerfi er ekki lagt í hvert hús?

Það kemur að því, ennþá er þetta ekki nógu þekkt hjá hönnuðum og húsbyggjendum og svo er hið ótrúlega sterka lögmál, tregðulögmálið, að verki. En það verður ekki liðið langt á 21. öldina þegar þetta verður eins sjálfsagt í hvert hús eins og hita- eða frárennsliskerfi.

Fleira áhugavert: