Orka Íslands – Heilstæð orkustefna
.
Nóvember 2011
Nóvember 2011
Tillagan er afrakstur tveggja ára vinnu stýrihóps, sem leitaði umsagna hjá 65 aðilum víða úr samfélaginu. Orkustefnunni er ætlað að vera viðmið sem allar ákvarðanir stjórnvalda um orkumál eiga að vera í sem bestu samræmi við. Iðnaðarráðherra sagði tillöguna marka tímamót, enda um fyrstu opinberu orkustefnu Íslands að ræða. Markmiðin eru margvísleg að sögn formanns stýrihópsins, Vilhjálms Þorsteinssonar, og miða þær að því að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti.
„Við komumst að því að það eru ýmsar leiðir fyrir okkur til að auka arð okkar af auðlindinni, þarf að gera þetta sýnilegra fyrir almenning svo fólk skilji betur hvernig arðurinn skilar sér til þjóðarinnar og til almennings, svo erum við að tala um hvað við notum mikið af olíu, í raun alltof mikið af olíu, miðað við að við eigum aðrar orkulindir á Íslandi,“ sagði Vilhjálmur í viðtali við fréttastofu RÚV.
Meginmarkmið orkustefnunnar er að virðing verði borin fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins við nýtingu orkuauðlinda, segir í fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu. Tillagan verður lögð fyrir ríkisstjórnina á morgun. Rúm vika er eftir af opnu umsagnarferli um annað stefnumótandi skjal, eða þingsályktun um rammaáætlun um vernd og virkjun náttúrusvæða, sem verður í kjölfarið lögð fyrir ríkisstjórn og þingheim. Iðnaðarráðherra segir þetta spennandi tímamót.
„Já, þessi vetur verður mjög stór, í vor getum við séð nokkuð til framtíðar með hvaða hætti við ætlum að haga okkar orkubúskap og okkar auðlindamálum til lengri tíma,“ sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.