Berbrjósta, bannað – Sundi+heima
.
Febrúar 2020
Kona í Utah í Bandaríkjunum hefur samþykkt að játa sök og gangast undir dómsátt en hún var ákærð fyrir að hafa verið berbrjósta á heimili sínu fyrir framan stjúpbörn sín.
Tilli Buchanan valdi að játa sök til þess að koma í veg fyrir að þurfa að fara í gegnum sakamál fyrir rétti. Ef hún hefði verið fundin sek fyrir dómi hefði hún verið skráð sem kynferðisbrotamaður, segir lögmaður hennar, Randy Richards.
Hann segir ákæruna fáránlega en hann hafi ráðlagt henni að gangast undir sáttina til þess að koma í veg fyrir að á sakaskrá hennar kæmi fram að hún væri kynferðisbrotamaður með öllu sem því fylgir.
Þegar stjúpbörn Buchanan sáu hana fáklædda í bílskúrnum spurðu þau hana hvers vegna hún væri svo fáklædd og sagði hún að ef faðir þeirra gæti berað brjóst sín þá ætti hún að gera það líka. Hjónin sögðu fyrir dómi ástæðuna fyrir því að þau voru ber að ofan þá að þau vildu forðast að verða skítug auk þess sem það var mjög heitt inni í bílskúrnum þegar þau voru að púla þar.
Buchanan var ákærð snemma á síðasta ári eftir að móðir barnanna tilkynnti lögreglu um athæfið. Buchanan sagði fyrir dómi að hún ætti erfitt með að átta sig á því hvers vegna eiginmaður hennar mætti fara úr að ofan en hún ekki. Saksóknari var ekki á sama máli og sagði að í nútíma bandarísku samfélagi væri litið á það þannig að ber kvenmannsbrjóst féllu undir lostafullt líferni.
Þegar hún játaði sök í gær samþykkti Buchanan að það hefði ekki verið rétt að bera brjóstin fyrir framan aðra fullorðna manneskju. Verjandi hennar segir málið gjörsamlega fáránlegt. Að konur þurfi að hafa áhyggjur af því hvort börn þeirra sjái brjóst þeirra eður ei. Hann segir að í raun og veru hafi skjólstæðingur hans játað að hafa gerst sek um að vera berbrjósta fyrir framan eiginmann sinn þar sem tiltekið er að um fullorðna manneskju er að ræða.
Samtök borgaralegra réttinda í ríkinu, The American Civil Liberties Union of Utah, segja að málið gagnvart Buchanan hafi aldrei átt að ganga svona langt. „Þegar ég tala við fólk um málið held ég að enginn geri sér grein fyrir því að hann geti átt yfir höfði sér ákæru fyrir að ganga um heimili sitt skyrtulaus,“ segir lögmaður ACLU, Leah Farrell, í viðtali við New York Times.