Tækninördar, lúðar – Nerðir rokka
.
September 2015
Af tækninörðum og lúðum
Upplýsingatæknin er að breyta heiminum og þeir sem neita að læra á tækin og tölvurnar verða einfaldlega ekki færir í samskiptamáta atvinnulífsins til framtíðar. Það er því ekki bara nauðsynlegt fyrir einstaklinga að halda sér á tánum, heldur þurfa fyrirtæki að fylgjast náið með straumum og stefnum í atvinnulífinu. Og það skiptir máli að fá konur til að innritast í tölvunar- og tæknifræðigreinar því jafnrétti innan tæknigreinanna tryggir að þekking og reynsla beggja kynja njóti sín, til hagsældar fyrir samfélagið í heild.
Vantar fyrirmyndirnar
Ólína Helga Sverrisdóttir er 15 ára forritari sem lýsti því í viðtali að það vantaði fyrirmyndirnar er kemur að tæknistelpum. Tökum þessum ábendingum alvarlega. Hún lýsir því þannig að þegar hún hafi verið níu ára að byrja að læra forritun þá hefði henni fundist það mjög nördalegt og hún hefði ekki viljað auglýsa það neitt sérstaklega. Síðar hafði hún kjark til að segja frá og þá fannst strákunum þetta töff en stelpurnar vildu ræða dans. „En það er bara vegna þess að stelpur vantar fyrirmyndirnar,“ sagði hún og lýsti því hvernig hún tók málið í sínar hendur og stofnaði bloggsíðuna techolina.com. Þar hefur hún tekið viðtöl við hverja kvenfyrirmyndina í tækniheiminum á fætur annarri. Meðal annars tók hún viðtal við Megan Smith, yfirmanntæknimála Hvíta hússins, áður yfirmann tæknimála hjá Google. Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar ef framhaldsskólanemi hefði náð viðtali við Warren Buffet, konung fjárfestinganna í hugum margra. Í raun er stórkostlegt hjá Ólínu að ná viðtali við þessa virtu konu og þakkarvert framtak að kynna fyrirmyndir sem Megan.
Tækninerðir framtíðarinnar
Það er gaman að velta því fyrir sér hverjir verða tæknistjörnur framtíðarinnar. Mögulega verður það Ólína eða aðrir íslenskir nerðir. Því tæknin er án landamæra að lokum og heimurinn þarf á tækni og hugviti okkar að halda. Sjáum til þess að tæknistelpan skapi sér sterka og jákvæða ímynd og þori að fara inn í tæknigreinar og verði stolt af því. Því tækni er töff. Og nerðir rokka. Í mínum huga er það tákn um metnað, gáfur og framsækna hugsun.