Þörungasvifið – Frá veiðum til ræktar
.
Þörungasvifið gæti reynst gullnáma
Júlíus er doktor í líffræði með áherslu á lífeðlisfræði laxa og starfaði m.a. í fiskeldisgeiranum áður en hann tók þátt í að koma Orf líftækni á laggirnar, þar sem hann er núna framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs.
Í nýútkomnu riti Sjávarklasans, Bak við ystu sjónarrönd, birtist stuttur pistill eftir Júlíus um hvernig mætti hugsanlega nýta þörungasvifið. Hann bendir á að þörungasvif myndi megnið af öllum lífmassa í hafinu og sé upphafið á fæðukeðju sjávarlífvera. „Þörunga- svifið er fæða fyrir skeldýr, krabbadýr og önnur smádýr sem síðan mynda dýrasvif sem fiskar eins og loðna og síld lifa á, sem svo aftur eru étnir af stærri fiskum og þannig koll af kolli,“ útskýrir Júlíus og bætir við að á hverju þrepi fæðukeðjunnar tapist um 90% lífmassans.
Frá veiðum til ræktar
En að nýta þörungasvif er hægara sagt en gert, og væri t.d. illmögulegt að ætla að t.d. eima þörungasvif úr hafi til að nota sem hráefni í fóður. Besta leiðin til að nýta þessa náttúruauðlind virðist vera að rækta t.d. krækling sem nærist á svifi sem hann síar úr sjónum. Kræklingarækt er nú þegar stunduð í einhverjum mæli á nokkrum stöðum umhverfis Ísland en Júlíus segir forvitnilegt að ímynda sér hvernig greinin gæti orðið ef tækist að tæknivæða hana, ná enn betri tökum á ræktuninni og um leið stórauka afköst greinarinnar og umsvif.
Mætti margfalda kræklingaframleiðslu
Júlíus líkir þessu við það skref sem mannkynið tók þegar forfeður okkar tóku fyrst upp á því að fanga dýr og ala frekar en að veiða sér til matar. „Um leið væri verið að svara betur vaxandi matvælaþörf mannkyns og auka hlut sjávarafurða í fæðuframboðinu en í dag fær heimsbyggðin aðeins 5% af fæðu sinni úr sjó á meðan 95% verður til á landi.“
Myndi byggjast á hugviti
Þrátt fyrir mikla vinnu og metnað hefur skelfiskrætk átt erfitt uppdráttar hér á landi og segir Júlíus að það standi þessari grein m.a. fyrir þrifum að kræklingarækt er mannaflsfrek og störfin allt annað en auðveld. Fyrir vikið séu það einkum lönd í Asíu, þar sem vinnuafl er ódýrt, sem stunda kræklingarækt í miklu magni í dag. „Tæknistigið er ekki hátt en mig grunar að megi gera betur og ná framförum af svipuðum toga og við höfum séð eiga sér stað í sjávarútveginum á undanförnum áratugum. Ætti að líta á skelfiskrækt sem nýsköpunargrein og eitt risastórt nýsöpunartækifæri.“
En til að skelfiskrækt geti tekið stór skref í átt að tæknivæðingu og vexti myndu margir þurfa að leggjast á eitt. Júlíus segir að helst þyrftu einkageiri og stjórnvöld að snúa bökum saman um gerð aðgerðaáætlunar sem myndi miða að því að byggja greinina upp og tæknivæða. „Aðstæður hér við land eru á margan hátt hentugar fyrir kræklingaræktun og tæknifyritækin sem þjónusta sjávarútvegin hafa fyrir löngu sýnt hvers þau eru megnug. Hér þurfum við að virkja hugvitið til að geta nýtt auðlindina.“
Júlíus ímyndar sér að aðgerðaáætlun fyrir kræklingarækt myndi m.a. fela í sér að ryðja úr vegi sem flestum hindrunum og auðvelda áhugasömum að hefja alls kyns ræktunartilraunir í stórum og smáum stíl. „Þó svo að tekjumöguleikarnir geti verið miklir verður að gæta þess að leyfa uppbyggingunni að eiga sér stað áður en byrjað er að leita leiða til að leggja á greinina skatta og skyldur. Ef það er gert gætum við, að einhverjum tíma liðnum, eignast mjög stóra og öfluga viðbót við atvinnulífið og útflutningstekjur landsins.“
Verðmæti í þanginu
Fleiri tækifæri af svipuðum toga kunna að kalla á nánari skoðun og nefnir Júlíus í því sambandi ræktun á þangi og þara. „Þar erum við líka að vinna með neðsta þrep fæðukeðjunnar og nýta næringarsöltin í sjónum og sólarorkuna. Nú þegar sjáum við fyrirtæki í Kína stunda tæknivædda ræktun á þangi og fer ræktunin fram samhliða skelfiskræktun í hringrás næringarnefna.“