Neysluvatn – Lítið af örplasti

Heimild:

.

Janúar 2020

Afar lítið örplast finnst í neysluvatni frá vatnsveitum Veitna þrátt fyrir að vitað sé að örplast er að finna í töluverðu magni í umhverfinu. Það sýnir ný óháð rannsókn gerð af ReSource International ehf. (RI) sem staðið hefur yfir sl. ár. Í rannsókninni var einnig skoðað vatn frá vatnsveitum HS Orku og Norðurorku.

Tekin voru sýni í borholum, vatnstönkum og dreifikerfum og fundust örplastsagnir í um helmingi sýnanna í dreifikerfinu en minna í borholum og vatnstönkum. Að jafnaði fannst um ein ögn í hverjum 10 lítrum vatns. Til samanburðar má nefna að í rannsókn ORB Media á neysluvatni víða um veröld, sem birt var árið 2018, fundust að meðaltali 50 örplastsagnir í 10 l vatns.

Jamie McQuilkin, rannsókna- og þróunarstjóri RI, segir að vitað sé að örplast sé að finna nær allsstaðar í umhverfinu. “En niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að lítið sé af því í neysluvatni í vatnsveitum fyrirtækjanna þriggja. Í raun var mesta áskorunin í þessari rannsókn að gæta þess að vatnssýnin okkar smituðust ekki af utanaðkomandi örplasti úr umhverfinu – það tók okkur marga mánuði að þróa tilsvarandi aðferðir svo að niðurstöðurnar yrðu eins áreiðanlegar og mögulegt væri.” Magn örplasts í andrúmslofti eða á fatnaði rannsakenda getur verið mörg hundruð sinnum meira en í sýnunum sjálfum.

Örplast eru plastagnir sem eru minni en 5mm í þvermál. Rannsóknin náði til allra plastagna yfir 0,027mm. Að auki var sjálflýsandi litarefni notað til að lita plastagnir svo hægt væri að greina þær frá öðrum náttúrulegum efnum, svo sem bómull og ull.

Í skýrslu sem gefin var út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), í ágúst 2019 kemur fram að þrátt fyrir að ekki sé til mikið af upplýsingum, sérstaklega um mjög smáar örplastsagnir, séu engar vísbendingar  sem bendi til þess að þær séu hættulegar heilsu manna. Stofnunin segir þó að frekari rannsókna sé þörf.

Fleira áhugavert: