Kjarnaorkuver, raforka – Ódýr, engar gróðurhúsalofttegundir

Heimild: 

.

Mars 2011

Kjarnorkuver á undanhaldi?

japan-nuclear-plants-3.jpg

japan-nuclear-plants – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Alvarleg óhöpp í kjarnorkuverum eru afar sjaldgæf. Og kjarnorkuver eru þokkaleg ódýr leið til að framleiða raforku. Og þau losa engar gróðurhúsalofttegundir.

Þess vegna hafa kjarnorkuver af mörgum þótt einhver besti kosturinn til raforkuframleiðslu. Enda eru allmörg ríki með áætlanir um að byggja mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvera á næstu árum og áratugum. Og í Japan, þar sem kjarnorkan stendur undir um fjórðungi allrar raforkuframleiðslunnar, hafa stjórnvöld haft þá stefnu að hlutfall kjarnorkunnar í raforkuframleiðslu landsins hækki úr núverandi 27% í 40% fyrir 2017! Og að árið 2030 verði hlutfall kjarnorkunnar orðið 50%.

japan_electricity_generation-2009.png

japan_electricity_generation-2009

Þetta eru stórhuga áætlanir hjá Japönum. Þær hafa m.a. orðið til af þeim sökum að Japan er svo gífurlega háð innflutningi á bæði gasi og kolum – og auðvitað líka á olíu. Kjarnorkan skapar Japönum meiri fjölbreytni í raforkuframleiðslu og ný kjarnorkuver eru raunhæfasta leiðin fyrir japönsku þjóðina að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og forðast mengun vegna kolefnisbruna. Já – kjarnorkan hentar Japönum jafnvel þó svo þeir þurfi að flytja inn eldsneytið í kjarnorkuverin (úranið).

Þess vegna hafa Japanir veðjað á kjarnorkuna. Jafnvel þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd að engin þjóð þekkir betur skelfilegar afleiðingar kjarnorkunnar (þegar tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Japan í ágúst 1945).

nuclear-power_europe-2009-map.gif

nuclear-power_europe-2009-map

Kjarnorkan sem orkugjafi átti blómaskeið á 7. og 8. áratugum 20. aldar. En eftir það dró mjög úr byggingu kjarnorkuvera. Ekki síst í Bandaríkjunum, en ástæða þess að kjarnorkan missti meðbyr var m.a. óhappið í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju árið 1979. Og eftir slysið 1986 í Chernobyl í Úkraínu (sem þá var hluti af Sovétríkjunum) jókst andstaða við kjarnorkuver víða í Evrópu. Fyrir vikið hafa mörg kjarnorkuríki í Evrópu stefnt að því að fækka kjarnorkuverum. Þar má t.d. nefna Svíþjóð og Þýskaland.

Sum ríki hafa aftur á móti haldið fullri tryggð við kjarnorkuna. T.d. hefur Frakkland gengið svo langt að framleiða um 75-80% allrar raforku sinnar með kjarnorku. Og kjarnorka stendur undir stórum hluta allrar raforkuframleiðslunnar í mörgum öðrum löndum Evrópu og hefur t.a.m. verið furðu lítið umdeild í Finnlandi, sem hefur verið að auka þýðingu kjarnorkunnar í raforkuframleiðslunni.

germany-nuclear-plants.png

germany-nuclear-plants

Þrátt fyrir nokkuð mikla andstöðu almennings við kjarnorkuver víða um lönd, má segja að sú andstaða hafi veikst þegar athygli fólks beindist að hlýnandi loftslagi – sem mögulega stafar einkum af bruna á kolum, olíu, gasi. Gott ef sumir voru ekki farnir að tala um kjarnorku sem græna orku! Bara vegna þess að kjarnorkuver losa ekki gróðurhúsalofttegundir – og þrátt fyrir margvíslegan og mikinn vanda sem getur fylgt geislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum. Þar að auki olli efnahagsvöxturinn í Asíu því að kjarnorkan fékk sífellt meiri athygli sem góður orkugjafi.

En svo varð jarðskjálftinn við Japan og enn á ný urðu kjarnorkuver ógnvaldur. Ennþá er ekki útséð hvernig fer með kjarnorkukljúfana í Fukushima og þetta atvik er sérstaklega ógnvænlegt þegar haft er í huga þéttbýlið á svæðinu (kjarnaverið er t.a.m. einungis um 200 km frá tugmilljónaborginni Tokyo). Ekki skrítið þótt á ný hafi blossað upp mikil andstaða gegn kjarnorkuverum og að stjórnvöld víða um hinn kjarnorkuvædda heim kippi að sér kjarnorkuhendinni.

En er raunhæft að við getum án kjarnorkunnar verið? Krafan um að loka kjarnorkuverunum virðist hvað háværust í Þýskalandi. Af allri raforkuframleiðslu þar í landi stendur kjarnorkan undir á bilinu 25-30%. Þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst – sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel fyrir fjölmenna þjóð eins og Þjóðverja, er ekki neitt smámál að taka svo mikið afl úr sambandi (samanlagt afl þýskra kjarnorkuvera er um 21 þúsund MW – afl allra íslenskra virkjana er um 2.600 MW).

nuclear-evening.jpg

nuclear-evening

Öll sú orka myndi þá þurfa að koma annars staðar frá. Þetta myndi auðvitað ekki gerast á einni nóttu. Lausnin gæti verið að auka innflutning á gasi og á t.d. einum áratug væri hægt að reisa þúsundir og jafnvel tugþúsundir MW af nýjum vindrafstöðvum (í dag er uppsett afl þýskra vindorkuvera um 26 þúsund MW, sem geta sennilega framleitt jafn mikla raforku eins og ca. 7 þúsund MW kjarnorkuver). Og svo mætti bæta við slatta af sólarorkuverum. Og kannski líka nýjum kolaorkuverum!

Þetta væri hægt. En þessu myndi fylgja gríðarlegur kostnaður. Þrátt fyrir allt, þá er kjarnorkan miklu ódýrari orkugjafi heldur en vindorka og margfalt ódýrari en að virkja sólarorku. Þar að auki hefur kjarnorkan þann kost að vera yfirleitt mjög áreiðanlegur orkugjafi, meðan bæði sól og vindur eru óvissir raforkugjafar og þurfa að geta stuðst við æpandi mikið varaafl.

nuclear_wind_1070905.jpg

nuclear_wind

Því miður er engin góð lausn borðleggjandi. Þjóðverjar vilja forðast að verða enn háðari því að kaupa gas frá Rússum. Og vilja minnka stórlega losun gróðurhúsalofttegunda. Það er vandséð hvernig uppfylla á slík markmið ef loka á þýskum kjarnorkuverum í stórum stíl.

Það er vægast sagt afar hæpið að endurnýjanlegir orkugjafar geti þar orðið allsherjarlausn. Til þess er kjarnorkan einfaldlega of stór og mikil umfangs. Og jafnvel þó svo þetta kunni að vera fræðilega mögulegt yrði kostnaðurinn svimandi. Eftir raforkuverðhækkanir síðustu ára er hæpið að almenningur sé tilbúinn að kyngja miklum hækkunum í viðbót bara til að losna við kjarnorkuverin.

Samskonar sjónarmið eiga við um Japan og flest önnur ríki sem nýta kjarnorku. Ætli menn að gera alvöru úr þeim orðum sínum að minnka notkun kjarnorku umtalsvert og þá helst með endurnýjanlegum orkugjöfum, þá verður það afar kostnaðarsamt. Kannski svo dýrt að almenningur muni snúast á sveif með kjarnorkunni – þrátt fyrir áhættuna, sem nýting kjarnorkunnar skapar.

japan-nuclear-plants-child.jpg

japan-nuclear-plants-child

Orkubloggarinn er á því að EF slysið í Fukushima hefur þegar náð hámarki, muni það ekki hafa miklar langtímaafleiðingar á orkustefnu ríkja. En EF slysið á eftir að verða mun alvarlegra og veruleg geislun frá verinu berist til stórborga í Japan, yrði það mikið högg fyrir fylgjendur kjarnorkuvera. Sú atburðarás virðist þó á þessari stundu fremur ólíkleg. Vonandi hafa Japanir náð tökum á ástandinu í Fukushima. Og vonandi mun atburðurinn hafa þau jákvæðu áhrif, að rannsóknir og þróun á endurnýjanlegri orkuvinnslu verði stórefldar um allan heim.

Ríki heims þurfa að huga miklu meira að endurnýjanlegum orkugjöfum og sem flest ríki ættu að stefna í átt að orkusjálfstæði – ekki bara í orði heldur á borði! Kannski fara íslensk stjórnvöld loksins að hlusta á hvatningar Orkubloggsins – og byrja bráðum af alvöru að huga að því að skapa hér kjöraðstæður fyrir fyrirtæki sem t.d. vinna að framleiðslu á grænu eldsneyti og þróun sjávarorkutækni. Með sitt mikla vatnsafl og jarðvarma er Ísland kjörinn staður fyrir rannsóknir, þróun og framleiðslu á slíkri tækni. Þetta gæti meira að segja verið besta tækifærið í endurreisn íslensk efnahagslífs.

Fleira áhugavert: