Herferð gegn eldsvoðunum

Heimild:

.

Júní 1996

Herferð gegn eldsvoðunum

Enn eyðir eldurinn. Er ekki kominn tími til, að lagnamenn hefji herferð gegn eldsvoðunum. Það má gera með markvissri upplýsingaherferð um vatnsúðakerfi.

Hroðarlegar fréttir um hrikalega eldsvoða berast með öllum fjölmiðlum, eignatjón gífurlegt og mikil mildi að ekki varð manntjón. Áleitnar spurningar vakna; er þetta óumflýjanlegt, er ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir þessa verðmætasóun? Fyrir eigendur skiptir það máli að tryggingar séu í lagi en fyrir þjóðfélagið í heild er hver eldsvoði tap, það eru ekki tryggingafélögin sem bæta tjónið, þeir sem það gera eru allir þeir sem iðgjöld greiða fyrir tryggingar.

Þjóðhagslega er hver eldsvoði tap, skaði fyrir hvern einstakling og þjóðfélagið í heild, eldsvoðinn og bætur fyrir tjónið eru ekki einkamál eiganda þeirra verðmæta sem fóru forgörðum og þess sem bætir tjónið því að lokum lendir það á öllum þegnum landsins. Eldvarnir eru því ekki einkamál fasteignaeigenda, hirðuleysi þeirra og slóðaskapur er ekki þeirra einkamál. Ekki síður vekur það furðu að tryggingafélögin sem greiða bæturnar virðast ekki taka á þessum málum af festu, ekki heldur sveitarfélögin eða þær opinberu stofnanir sem eiga að veita aðhald og eftirlit. En höfuðábyrgðina ber hver einstaklingur, hann á ekki að skáka endalaust í því skjóli að hann fái allt bætt ef illa fer, hann á ekki heldur að skjóta sér á bak við opinbera eftirlitsaðila.

Hann á að vera ábyrgur fyrir því að eldvarnir hans séu í lagi. Tveir eldsvoðar í tréiðnaði Allt brann sem brunnið gat í tréiðnaðarfyrirtæki í Hafnarfirði, eldur kom upp nýlega í sams konar fyrirtæki í Innri-Njarðvík en þar varð óverulegt tjón. Hvað gerði gæfumuninn? Í Innri-Njarðvík var vatnsúðakerfi, ekki í Hafnarfirði. Lagnamenn heimsóttu tréiðnaðarfyrirtæki fyrir austan fjall fyrir nokkrum árum og eftir gönguferð og skoðun um þetta merka fyrirtæki hlaut að koma spurning úr hópnum: „Hvers vegna er ekki brunavarnakerfi, vatnsúðakerfi, í fyrirtækinu?“ Svarið kom um hæl „slíkt kerfi er alltof dýrt“. Það er einmitt það, vissulega er svarið skiljanlegt en það er afstætt hvað er dýrt eða ódýrt og frekar má segja að þetta sé ekki dýrt heldur að það vanti fjármagn til framkvæmda. Þetta ágæta fyrirtæki austan fjalls starfar enn áfallalaust, þar hafa ekki orðið eldsvoðar en ef kviknað hefði í væri hægt að segja „slíkt kerfi, vatnsúðakerfi, er ekki dýrt við höfum ekki efni á að setja ekki upp slíkt kerfi?“.

Eftir brunann í Hafnarfirði benti brunamálastjóri á þýðingu vatnsúðakerfanna í sjónvarpsviðtali, taldi hann að kerfið í tréiðnaðarfyrirtækinu í Innri-Njarðvík hefði bjargað húsum, vélum og framleiðsluvörum að verðmæti 750 milljónum. Það munar um minna. Þetta gengur ekki lengur Það verður einhver að ganga fram fyrir skjöldu og segja; hingað og ekki lengra, það verður að samfylkja öllum sem hagsmuni eiga í eldvarnamálum og þeir eru hvorki meira né minna en allir landmenn. Hér í pistlunum hefur áður verið bent á nauðsyn vatnsúðakerfanna sem er einhver besta brunavörn sem völ er á, vatnsúðakerfin eru í stöðugri þróun, nýlega var sagt frá nýjum úðahaus sem dreifir vatninu ennþá betur með fínni úða en áður og getur unnið á eldi með minna vatnsmagni sem er geysimikið atriði.

Lagnamenn hafa haft forgöngu um að vekja almenning til umhugsunar um lagnir í húsum á undanförnum árum, benda á að þar eru fyrirbyggjandi aðgerðir besti kosturinn. Er ekki kominn tími til að þeir hefji enn nýja herferð gegn þessari hrikalegu sóun sem eldsvoðar eru, hefji markvissa upplýsingaherferð um vatnsúðakerfi, fái með sér tryggingafélögin, sveitarfélögin, samtök húseigenda og opinberar stofnanir og sanni í eitt skipti fyrir öll að það er rangt að „hafa ekki ráð á því að setja upp vatnsúðakerfi í byggingar“ heldur hið gagnstæða „enginn hefur ráð á því að sleppa eldvörnum“. ALLT brann sem brunnið gat í tréiðnaðarfyrirtæki í Hafnarfirði fyrir skömmu.

Fleira áhugavert: