Baðlón Kársnesi – 4 milljarðar

Heimild:

.

Desember 2019

Nýtt baðlón mun opna vestast á Kársnesi í Kópavogi 2021. Í fyrsta áfanga verkefnisins er gert ráð fyrir heitu baðlóni við sjóinn, kaldri laug og gufuböðum. Heildarverkefninu er skipt í nokkra áfanga og í þeim fyrsta verður framkvæmt fyrir um 4 miljarða króna. Verkefnið er að fullu fjármagnað og eru framkvæmdir hafnar. Mikil viðbótaruppbygging er fyrirhuguð á lóð félagsins sem er um 3 hektarar að stærð sem innifelur meðal annars umtalsverðar stækkanir baðlónsins með tilheyrandi mannvirkjum.

Verkefnið er í eigu Nature Resort ehf. og hafa aðaleigendur félagsins, Eyþór Guðjónsson og Gestur Þórisson stýrt uppbyggingu þess á undanförnum árum í samvinnu við afþreyingar- og ferðaþjónustu fyrirtækið Pursuit. Pursuit verður rekstraraðili baðlónsins og hefur Dagný Hrönn Pétursdóttur, sem starfaði sem framkvæmdastjóri Bláa lónsins í 10 ár, verið ráðin framkvæmdastjóri.

„Pursuit leggur metnað sinn í að bjóða upp á fyrsta flokks upplifanir fyrir ferðamenn“, segir David Barry forstjóri Pursuit. „Ísland er einn af þessum stöðum sem fólki þykir kraftmikill og spennandi og veitir því innblástur. Eftir að hafa opnað FlyOver Iceland sem sýnir gestum landið á einstakan hátt erum við ákaflega spennt fyrir því að bjóða upp á aðra hágæða upplifun á Íslandi. Það hefur verið gefandi að taka þátt í þróun á einstakri baðlónsupplifun á höfuðborgarsvæðinu.”

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi segist hlakka mikið til að sjá þetta metnaðarfulla verkefni rísa á næstu misserum. „Það mun leggja stórt lóð á vogarskálar þeirrar miklu uppbyggingar sem nú er á fullu skriði á Kársnesinu. Það er enginn vafi á því að baðlónið og þjónustan sem því tengist verður eitt af sterkustu kennileitum höfuðborgarsvæðisins um langa framtíð og um leið glæsilegur kyndilberi fyrir ferðaþjónustu á Íslandi.“

Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri segir það gífurlega spennandi verkefni að byggja upp frá grunni baðlón með allri tilheyrandi þjónustu á þessum stað. „Útsýnið frá vestasta hluta Kársnessins er alveg einstakt og þessi manngerði óður til náttúrunnar og friðsældarinnar í nokkurra mínútna fjarlægð frá þéttbýlustu stöðum höfuðborgarsvæðisins gefur tilefni til bjartsýni um góða aðsókn allt árið um kring á komandi árum.“

Fleira áhugavert: