Vatnsklósettið – Hvenær, hvar, hver fann upp
.
Mars 2003
Hver fann upp vatnsklósettið? Hvenær og hvar var það?
Áður en við svörum þessu er vert að átta sig á því hver er megingaldurinn við þetta merka tæki sem hefur haft meiri áhrif á daglegt líf okkar en mörg önnur. En megineinkenni nútíma salernisskálar er vatnslásinn sem í því er og kemur í veg fyrir að loft berist inn í herbergið frá skolpræsunum, og þar með bæði óþefur og sýklar. Jafnframt þessu kemur fram í svarinu að miklu skiptir gagnvart hreinlæti hvaða efni er í skálinni.Eiginlega hefst saga vatnsklósettsins seint á 16. öld en finna má fornar fyrirmyndir í mannkynssögunni. Á tímum Indusmenningarinnar, kringum árið 2500 f. Kr., var að finna vel þróað pípulagningakerfi í þorpinu Mohenjo-daro, þar sem nú er Pakistan. Þar var vatni sturtað niður úr hverju húsi í aðallögn. Á Bareineyju í Persaflóa var fundið upp skolklósett árið 1000 f. Kr. og bæði Rómverjar og Fornegyptar byggðu flókin holræsakerfi.
Þessi kunnátta féll hins vegar í gleymsku og segja má að lítil þróun hafi orðið allt þar til að Englendingurinn John Harington fann upp vatnsklósettið (e. water closet) árið 1596. Sú uppfinning hlaut þó enga útbreiðslu og voru líklega aðeins tvö eintök smíðuð, annað að sögn handa Elísabetu I Bretlandsdrottningu, guðmóður Haringtons. Harington var raunar margt annað til lista lagt – hann þýddi meðal annars epíska kvæðið Orlando Furioso eftir Ariosto úr ítölsku á ensku.Á mörkunum er að hægt sé að kalla klósett Haringtons uppfinningu, frekar er um að ræða góða hugmynd sem ekki reyndist framkvæmanleg á sínum tíma. Vatnsklósett Haringtons lá í þagnargildi í hartnær 200 ár, allt til ársins 1775 að Englendingurinn Alexander Cummings endurbætti það með því að hanna vatnslás til að setja undir klósettskálina.
Endurbót Cummings olli heldur engum straumhvörfum, ekki síst vegna þess að enn vantaði nokkuð upp á að hentug efni hefðu verið þróuð fyrir innanhúspípulagnir.Á 19. öld kom steypt járn til sögunnar og betri gerðir leirpípna sem gerðu það mögulegt að hafa klósett inni í húsum. Samhliða var vatnslás Cummings gerður öruggari og afkastameiri. Fyrirtæki Englendingsins Thomas Twyfords er talið hafa smíðað fyrsta klósettið alfarið úr postulíni á áttunda áratug 19. aldar, en áður tíðkuðust vatnsklósett úr málmi sem áttu það til að safna í sig óhreinindum.
Síðan þá hafa vatnsklósett lítið breyst, framfarir hafa þó orðið og má þar nefna að vatnsmagn við hverja skolun hefur minnkað umtalsvert.Eins og sést hafa Englendingar staðið í framvarðarsveit klósettframleiðenda en bandarískir framleiðendur voru einnig áberandi á 19. öld. Ekki verður sagt frá sögu vatnsklósettsins án þess að geta manns sem margir halda að hafi fundið það upp. Hann hét Thomas Crapper, var enskur og mikilvirkur framleiðandi klósetta á árunum 1861-1904. Þegar bandarískir hermenn fjölmenntu til Englands í fyrri heimsstyrjöldinni, ráku þeir augun í þetta nafn á mörgum klósettum og tengdu það við orðið „crap“ sem ekki var notað á Bretlandi en hafði merkinguna úrgangur í Bandaríkjunum. Þannig hlaut klósettið eitt nafna sinna og goðsaga varð til um leið.Heimildir og myndir:
- Um Harington og vatnsklósett á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Toilet – Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 19.11.2015).
- A History of the Embossed Toilet á vefsetrinu Victoriancrapper.com
- Theplumber.com
- Sulabhtoiletmuseum.org
- Toiletmuseum.com – með hljóði!
- Thomas-crapper.com
- Toiletpaperworld.com