Hreinsun lagnakerfis – Með Kaloxi

Heimild:  

.

Júlí 1996

Fleira þarf að þvo en gólfið og kroppinn Óhreinindi safnast fyrir í ofnum og leiðslum og ryðmyndun verður, einkum í kaldavatnsleiðslum. En nú er komið til sögunnar efni, sem á að fjarlæga óhreinindin.

Sóðaskapur er orðinn fátíður hérlendis, mikill tími og orka fer í að þvo gólf, vaska, leirtau, fara í sturtu og bursta tennur. Allt er þetta sjálfsagt og fleira svipað mætti telja.

En inni á hverju heimili eru mikil óhreinindi hulin augum sem enginn verður var við lengi vel en að lokum fara afleiðingarnar að gera vart við sig. Ofnarnir, sérstaklega gamlir pottofnar hitna verr, ryðlitur kemur á kalda vatnið og þrýstingur neysluvatnsins minnkar.

Hvað er að gerast?

Þarna er um að ræða algengan „sjúkdóm“ í hitakerfum og neysluvatnslögnum, óhreinindi safnast fyrir í ofnum og leiðslum og ryðmyndun verður, einkum í kaldavatnsleiðslum. Gömlu pottofnarnir eru enn víða í eldri húsum, ofnar sem hafa ótrúlega langan líftíma, en vegna þess hve þröngir þeir eru er mikil hætta á að þeir stíflist og heita vatnið geti ekki streymt um þá til að hita upp vistarverur.

Þetta er ekki nýtt vandamál, á fyrstu árum hitaveitu í Reykjavík kom þetta fljótlega í ljós en með markvissum aðgerðum til að sía lofttegundir úr heita vatninu tókst að ráða bót á þessu.

En ekki til allrar eilífðar, vatn er samansett úr mörgum efnum og við viss skilyrði geta sum þessara efna skilist úr vatninu og orðið eftir í ofnum og leiðslum sem föst efni, safnast fyrir þar sem verst gegnir og ef ekkert er að gert versnar varmaflutningur frá ofnunum og sumir hætta jafnvel alveg að hitna. Það er ekki ólíklegt að margir í eldri húsum, sérstaklega þar sem pottofnar eru, þekki þetta vandamál. Ekki er víst að ofninn sé algjörlega hættur að hitna en líklegt er að stór hluti hans hitni ekki.

Afleiðingin getur orðið furðuleg þversögn; aldrei er nægur hiti í hýbýlum á köldum dögum en þrátt fyrir það hækkar hitaveitureikningurinn.

Hvað er til ráða?

Því er ekki að leyna að það hefur vafist fyrir fagmönnum að leysa þetta vandamál en nú er komin betri tíð og betri ráð.

Margskonar sýrur hafa verið bruggaðar og blandaðar til lausnar með misjöfnum árangri, oft á tíðum hefur blandan verið ærið görótt og jafnvel eitruð svo þurft hefur ýtrustu varkárni við notkun.

En ágætir „bruggarar“ hafa nú haft erindi sem erfiði og framleitt blöndu sem ber nafnið Kaloxi og þarna er vissulega komið sjampúið fyrir hitakerfi og leiðslur sem eru langt leiddar af skít og ryði.

Kaloxi er ekki hættulegt þó það komi á hörund en vissulega er rétt að nota það með varúð og það er ekki á færi annarra en þeirra sem til þess hafa hlotið sérstaka þjálfun. Það er nefnilega ekki sama hvernig það er notað, fylla þarf kerfið með blöndunni af ákveðnum styrkleika og hitastigi, dæla því um í ákveðinn tíma, farga því síðan eftir viðurkendum leiðum og skola að lokum leiðslur og ofna.

Nú þegar hafa nokkrir pípulagningameistarar aflað sér þeirrar þjálfunar sem til þarf og taka að sér þessa þjónustu. Það mikilvægasta er að grípa ekki of seint til aðgerða, svo rækilega getur ofn stíflast að honum verði ekki bjargað.

Þetta efni hreinsar einnig kaldavatnsleiðslur sem skila frá sér vatninu með ryðlit, en það er orðið vandamál víða á höfuðborgarsvæðinu.

Það sést ekki hvað er inni í hitakerfum og leiðslum, þessvegna er eðlilegt að húseigendur taki ekki eftir vandamálinu fyrr en sjúkdómseinkennin, lélegur hiti og ryðlitur á vatni, koma í ljós. Það væri hinsvegar upplýsandi fyrir hvern húseiganda að vera viðstaddur þegar vatn er tæmt af hitakerfi og ofn tekinn frá; það eru ótrúleg óhreinindi, nánast kolsvört drulla sem kann að kom sem síðasta lögg úr ofninum. Þetta eru óhreinindin sem eru að hreiðra um sig í skúmaskotum kerfisins og eiga eftir að setjast innan á ofna og leiðslur með tímanum.

Aldrei er góð vísa of oft kveðin; það er kominn tími til að taka upp fyrirbyggjandi eftirlit og viðhald með lagnakerfum og viðkomandi tækjum í öllum byggingum.

Eitt af því er hreinsun innvortis, það er ekki minni ástæða til að hitakerfi fái sitt bað með reglulegu millibili heldur en að gólfið sé þvegið, að ekki sé talað um bílinn, þegar á hann er minnst skilja flestir þýðingu fyrirbyggjandi eftirlits og viðhalds og nauðsyn á stillingu vélarinnar svo hún vinni vel og nýti orkuna sem best.

En það eiga að gilda nákvæmlega sömu lögmál um lagnakerfin.

Rör fyrir og eftir hreinsun

Fleira áhugavert: