Freon eyðir Ósonlaginu – F gös auka hnatthlýnun
.
Nóvember 2019
Björguðum ósonlaginu og bjuggum til nýjan vanda
Það skiptir ekki máli hvernig veðrið er úti það er hægt að kæla það sem þarf að kæla og frysta það sem þarf að frysta. Þetta er gert með kælikerfum og í flest þeirra eru notaðar flúoraðar gastegundir, svokölluð F-gös. Þjóðum heims tókst með Montreal-bókuninni frá árinu 1987 að stoppa í gatið í ósonlaginu og þessi F-gös voru lykillinn að þeim árangri, komu í stað freons og annarra ósoneyðandi efna. F-gösin kærkomnu reyndust þó ekki gallalaus, það lá fyrir frá upphafi að þau væru vandræðagemsar.
F-gösin á útleið
Nú er unnið að því að skipta F-gösunum út fyrir eitthvað annað, einnig á grundvelli Montreal-bókunarinnar. En hvað er að þeim? F-gösin hafa stórkostlegan hnatthlýnunarmátt, geta verið allt að því 23 þúsund sinnum öflugri gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur og á tímum loftslagsbreytinga er það ekkert sérstaklega vinsæll eiginleiki.
„Ég held það hafi legið fyrir áður en efnin voru tekin í notkun að þeim fylgdi ákveðinn umhverfisvandi en ástæða þess að þau voru tekin í notkun þrátt fyrir það var sú að það var verið að bregðast við öðrum og þá meiri aðkallandi vanda sem var eyðing ósonlagsins,“ segir Ísak Sigurjón Bragason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. F-gösin og ósoneyðandi efnin hafa svipaða eiginleika og eru öflugar gróðurhúsalofttegundir en F- gösin hafa þann kost umfram freon og önnur ósoneyðandi efni að þau eru ósonlagsvæn, ef svo má segja.
Aðgerðir gætu komið í veg fyrir hálfrar gráðu hlýnun
Efnin geta losnað út í andrúmsloftið við framleiðslu, notkun og förgun. Ísak telur að það hafi legið fyrir frá upphafi að F-gösin væru ekki framtíðarlausn, að að endingu þyrfti að skipta þeim út líka. Vegna þessa hafi regluverkið um F-gösin verið stíft frá upphafi og mikið lagt upp úr því að koma í veg fyrir leka. Á allra síðustu árum hafi svo verið farið að draga markvisst úr notkun þeirra.
Árið 2014 samþykkti Evrópusambandið tilskipun um að skera sölu á F-gösum niður um 80% fyrir árið 2030. Kigali-viðbótin við Montreal-bókunina var svo samþykkt árið 2016. Hún er lagalega bindandi og gerir ráð fyrir því að framleiðsla og notkun F-gasa dragist saman um 80% á næstu þrjátíu árum. Þessu á að fylgja verulegur loftslagsávinningur. Talið að án aðgerða myndu F-gösin ein og sér leiða af sér hálfrar gráðu hlýnun á þessari öld.
Mikilvægt að þróunarlöndin sleppi F-gasa tímabilinu
Aftur til þess tíma þegar gatið á ósonlaginu var ein helsta heimsógnin. Montreal-bókunin gerir ráð fyrir því að ríkar þjóðir losi sig algerlega við ósoneyðandi efni fyrir árið 2020. Efnaminni ríki fengu að draga hægar úr notkun þeirra, þau byrjuðu að minnka sína notkun árið 2013 og eiga að vera búin að losa sig við ósoneyðandi efni árið 2030. Þessi árin eru þau að skipta yfir en er ekki hætt við því að þau skipti yfir í F-gösin sem nú er verið að reyna að taka út hér. „Það eru einmitt ein af stóru rökunum sem var beitt fyrir því að taka F-gösin inn í Montreal-bókunina ekki bara ósoneyðandi efni. Af því að útfösun ósoneyðandi var seinkað hjá þróunarlöndum og við sáum hvað gerðist í þróuðum ríkjum, þar varð bara gríðarleg notkun á F-gösum í staðinn fyrir ósoneyðandi efni. Þá var það vilji manna að koma í veg fyrir að þegar ósoneyðandi efnin liðu undir lok í þessum löndum myndu þau ekki millilenda í þessum nýja vanda sem hefur þessi alvarlegu áhrif heldur yrði þeim kleift að fara beint í betri lausnir.“
Drawdown beinir kastljósi að kælimiðlunum
Líklega ekki í ísskápnum heima hjá þér
Frá árinu 2015 hefur ekki mátt markaðssetja ísskápa sem nota F-gös með meiri hnatthlýnunarmátt en 150 koltvísýringsgildi hér á landi.
Losunin F-gasa tengist líka stóriðjunni en lofttegundin PFC getur losnað við framleiðslu áls. Loks eru efnin sums staðar notuð til að kæla tæknirými.
F-gasa fjölskyldan fjölbreytt og einstök gös misskæð
F-gösin eru fjölbreyttur gasahópur og þau eru misskaðleg. Þau saklausustu eru sirka 20 sinnum öflugri en koltvísýringur en þau skaðlegustu 23000 sinnum öflugri. Oft eru blöndur nokkurra F-gasa notaðar í kælikerfin. Versta F-gasið sem hér er notað er tæplega 15 þúsund sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. „Það sem við höfum séð í mestum innflutningi hér síðustu ár eru lofttegundir eða blöndur lofttegunda sem eru í kringum 4000 sinnum öflugari en koldíoxíð. Svo eru miðlar í kringum 1400 sem eru í töluverðri notkun og svo er þetta alversta efnið, sem er 14800 sinnum öflugra. Það er notað í eina kælimiðlablöndu hér í mjög sértækum lausnum, í djúpfrystingu fyrir sýni sem eru notuð í vísindum, þessi blanda er ekki í mikilli útbreiðslu.“
Hægt að skipta kerfunum út eða nota skárri blöndu
Ísak segir að það séu til loftslagsvænni lausnir en er alveg tryggt, svona í ljósi sögunnar, að við búum ekki bara til enn eitt vandamálið? Ein leiðin sem hægt er að fara er að nota vægari F-gasablöndur, taka þær verstu út og nota einhverjar sem eru kannski bara hundrað sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, ekki 4000 sinnum öflugri eins og ein vinsælasta blandan hér 404a. „Ef þú ætlar að halda í virkni sama kælikerfis og þú ert með í dag með nýjum miðlum þá ertu væntanlega enn þá að fara að nota skyld efni, það eru þá bara einhverjar aðrar blöndur af F-gösum, aðeins minni gróðurhúsalofttegundir en samt í raun verið að glíma við sama vanda en þá bara minnkaðan. Hins vegar, ef það á að skipta út kerfinu og eiga möguleika á að kæla með miklu betri lausn í heildina þá eru þær lausnir fyrir hendi, það eru þá mismunandi lausnir eftir stærð kerfis. Ef kerfið er mjög stórt getur það verið ammóníak, eins og hefur verið notað mjög lengi. Því fylgja önnur vandamál en umhevrfisvandi mætti segja. Það getur verið eitrað og eldfimt en það þarf þá að tækla þann vanda. Kolsýra er annað sem hefur verið að ryðja sér til rúms, bæði í tiltölulega litlum kerfum upp í þónokkuð stór, svo er eins og það sem er í ísskápum og frystikistum í dag, það sem regluverkið kallar vetniskolefni. Lausnin eru fyrir hendi og efnin sem er hvatt til að séu notuð í staðinn í Evrópu myndu öll falla í þann hóp sem við köllum náttúrulega kælimiðla; ammóníak, koldíoxíð og þessi vetniskolefni. Það er síðan hvati til þess annars staðar en í Evrópu að prófa hýdróflúorólifína, efni sem eru mjög skyld vetnisflúorkolefnum. Þar fyndist mér erfiðara að segja til um hvort einhver umhverfisvandi fylgdi. Fókusinn í Evrópu er að segja nei, nú hættum við að nota það sem við vitum ekki nákvæmlega hvað er og notum bara náttúruleg efni sem við vitum hvernig eru.“
Tíu prósent losunar frá iðnaði vegna F-gasa
F-gösin eru ábyrg fyrir 4% losunar hér á landi og 10% losunar frá iðnaði, stóriðjunni þar með talinni, skrifast á F-gös. Losun frá F-gösum er sambærileg allri losun vegna meðferðar úrgangs. Hér hefur losunin vegna F-gasa aukist hratt á síðustu áratugum samhliða útfösun á ósoneyðandi efnum. Við útreikninga er gert ráð fyrir að á líftíma kælikerfis verði einhver leki á hverju ári, til dæmis þegar nýr kælivökvi er settur á kerfið eða við förgun. Árið 1996 nam losunin vegna F-gasa 18 kílótonnum af koltvísýringsígildum, árið 2010 nam hún 145 kílótonnum og árið 2017 var hún komin upp í 205 kílótonn, hafði aldrei verið meiri. Ísak bendir á að gröfin gefi ekki alveg rétta mynd af þróuninni. „Þarna erum við kannski bara að skoða helminginn af myndinni því á þessum tíma eru F-gösin að koma í staðinn fyrir ósoneyðandi efnin og inni í þessum losunartölum eru bara F-gös, ekki ósoneyðandi efnin sem þau leystu af hólmi en voru líka gróðurhúsalofttegundir.“
Af hverju er ósonið utan bókhalds?
Rúmlega fimmtungs niðurskurður í ár
Evróputilskipun um innflutningskvóta á F-gös tók gildi hér í fyrra og í ár var byrjað að skera notkunina niður hér bæði á grundvelli hennar og Montreal-bókunarinnar. Níu fyrirtæki höfðu heimild til að flytja inn F-gös og kvótinn sem þau deildu með sér nam 78% af innflutningi ársins 2015 og á að vera kominn niður í 20% árið 2030. Samkvæmt Montreal-bókuninni á notkun F- gasa á Íslandi og í öðrum þróuðum ríkjum að vera komið niður í 15% af meðalinnflutningi efnanna á árunum 2011 til 2013 árið 2036.
Umhverfisstofnun spáir því að losun F-gasa aukist áfram hér á næstu árum, nái hámarki í tæplega 250 kílótonnum árið 2023 en fari svo minnkandi. Nokkur óvissa ríkir um þessar tölur. „Losunin er reiknuð þannig að við gerum ekki ráð fyrir því að um leið og efnið er flutt inn sé það losað út í andrúmsloftið heldur gerist það með tímanum með lekum út af kerfum. Losunin á sér stað í nokkur ár eftir að búnaður er fluttur inn. Innflutningurinn er farinn að minnka en það tekur nokkur ár í viðbót þar til við förum að sjá minnkaða losun líka,“ segir Ísak.
Óvenjumikill innleiðingarhalli og nýr skattur
Ísland hefur verið eftirbátur nágrannaríkja sem flest byrjuðu að minnka notkun efnanna árið 2016. Innleiðingarhallinn var aðeins meiri en oft áður og lagatæknileg atriði flæktu málið, það varð skörun milli Montreal-bókunarinnar og EES-samningsins sem kom í veg fyrir að við gætum tekið þátt í kvótakerfinu. Stjórnvöld hyggjast nú spýta í lófana, í fjárlagafrumvarpinu er að finna áform um að leggja skatt á flúorar lofttegundir frá og með árinu 2020, að hámarki tíu þúsund króna gjald á hvert kíló af F-gösum, upphæðin fer eftir styrk þeirra og á skatturinn að stuðla að því að fyrirtæki leiti umhverfisvænni lausna. Með þessu telja stjórnvöld að hægt yrði að taka að mestu fyrir notkun efnanna fyrir árið 2030. „Það er náttúrulega alltaf einhver innleiðingarhalli hér, hann var lengri en annars hefði orðið hér út af lagatæknilegum ástæðum. Við erum aðilar að Montreal-bókuninni og EES-samningnum og það varð skörun þarna á milli þegar gerð var breyting á Montreal bókuninni og við þurftum að standa okkar pligt þar. Þetta gerði það að verkum að við gátum ekki verið þátttakendur í kvótakerfinu sem er lýst í Evrópureglugerðinni. Það tafði innleiðinguna. 2019 er okkar fyrsta niðurfösunarár, við erum þá þessum þremur árum á eftir ríkjum Evrópusambandsins en við erum á sama stað og Noregur til dæmis sem innleiddi þetta með sama hætti og við.“
Vonar að fyrirtæki leggi sig fram
Norðmenn og Danir hafa lagt skatt á F-gös en Finnar og Svíar ekki. Ísak segir Dani hafa náð mestum árangri. Skatturinn hjálpi þar til en dönsk stjórnvöld séu líka með strangara regluverk en þekkist annars staðar. „Auðvitað er það sem mann langar að sjá, því vandinn er fyrir hendi og lausnirnar líka, að sjá þá sem eiga möguleika á því að bæta stöðuna, fyrirtæki sem eru að endurnýja hjá sér, að þau geri það besta sem þau geta gert, bæði fyrir sig og umhverfið og það sem er gott fyrir umhverfið er gott fyrir okkur öll