Endurheimt votlendi – koltvísýringur, Bessastaðir 60 tonn/ári , bíll 1-2 tonn/ári
.
Október 2019
„Gaman að sjá hvað margir leggja sitt af mörkum“
„Það er gaman að sjá hvað margir leggja sitt af mörkum þegar á reynir í nafni samfélagslegrar ábyrgðar,“ segir Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins, um endurheimt votlendis við mbl.is.
Í dag var lögð lokahönd á að fylla upp í skurði á um þriggja hektara svæði á Bessastöðum. Það er við hæfi því verndari Votlendissjóðs er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Á þessu svæði, sem fyllt var upp í, losna 60 tonn af koltvísýringi á ári. Til samanburðar losar meðalbíll um 1-2 tonn á ári. „Þetta er ansi mikill slatti,“ segir Eyþór.
Garðlist vann verkið og notaði létta pallbíla til að valda sem minnstu óþarfa jarðraski. GT verktakar gáfu efnið sem kemur úr Vatnsmýrinni og fluttu efnið á svæðið.
Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur tekur út svæðið á morgun til að kanna hvort þessar aðgerðir hafi mögulega haft áhrif á fornminjar á svæðinu. Talsvert er af þeim á þessu svæði. Bent hefur verið á að þessar framkvæmdir gætu mögulega haft áhrif á varðveislugildi fornminja á svæðinu. Eyþór bendir á að fornminjar geymist vel í mýrlendi og því ekki víst að ástandið versni við þetta. „Þetta var gert í samráði við staðarhaldara. Við tökum enga sénsa á þessum stað. Þetta er höfuðdjásnið okkar,“ segir Eyþór um Bessastaði.
Í dag lauk einnig framkvæmdum í Bleiksmýri þar sem fyllt var upp í skurði. Á dagskrá er að endurheimta votlendi á 25 jörðum víðs vegar á landinu. Í fyrramálið verður hafist handa í Krísuvíkurmýri, það er um 60 hektara land Hafnarfjarðarbæ. Þar verða endurheimt um það bil 1.100 tonn af CO2-ígildum á ári.
Í þessum mánuði verður fyllt upp í skurði á jörðinni Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði. Með þeim aðgerðum verður stöðvuð losun sem nemur 481 tonni á ári sem samsvarar útblæstri um 240 fólksbíla. Á jörðinni Hofi í Norðfirði hefur verið stöðvuð losun sem samsvarar útblæstri á ári frá um 150-200 bifreiðum.