Göngu-, reiðbrú – þjórsá Búrfelshólma
.
Ágúst 2019
„Þetta er heilmikil framkvæmd. Markmiðið er að hefjast handa næsta sumar,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar.
Áform Landsvirkjunar um byggingu göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá við Búrfellshólma eru á áætlun. Fulltrúar Landsvirkjunar fóru yfir stöðu málsins með sveitarstjórnarmönnum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á dögunum. Umrædd brú mun tengja saman kerfi reiðvega og göngustíga beggja vegna Þjórsár, í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá er bygging brúarinnar liður í mótvægisaðgerðum vegna framkvæmda við Búrfellsstöð 2 sem gangsett var sumarið 2018. Leiðin í Búrfellsskóg að vestanverðu lá yfir frárennslisskurð sem ekki var vatn í fyrr en stöðin var tekin í notkun.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Óli Grétar þegar farið að leggja drög að byggingu brúarinnar með malbikun vegar niður að Hjálparfossi og malbikun plans þar. Fram undan sé vinna við að koma brúnni inn á skipulag hjá sveitarfélögunum, sækja um öll nauðsynleg leyfi og fleira slíkt. Verkið verði boðið út þegar öll leyfi verði komin í hús á nýju ári.