Vestfjarðargöng – Foss, hreint vatn virkjað

Heimild:  

.

Ágúst 1996

Fossinn í göngunum

Ísfirðingar urðu að fjárfesta í vatnshreinsibúnaði til að hægt væri að nota það neysluvatn sem byggðarlaginu bauðst. Vart hafi búnaðurinn verið tilbúinn þegar spratt fram foss af hreinu vatni úr jarðgöngunum góðu sem gjörbreytti hafi neysluvatnsmálum Ísfirðinga.

Hún er lífseig fullyrðingin sem oft er kastað fram í ræðu og riti að á Íslandi sé heimsins tærasta, besta og hollasta vatn. Vissulega er víða afbragðsgott drykkjarvatn hérlendis, tært og hreint, en sums staðar er mengað vatn notað til drykkjar og matvælaiðnaðar vegna þess að á betra er ekki völ. Einn af þeim stöðum sem átt hafa við vatnsvandamál að stríða er Ísafjörður, sem þó hefur mikla þörf fyrir hreint vatn. Þar er mikil útgerð og úrvinnsla á sjávarfangi, bæði botnfiski og rækju eins og allir vita. Stöðugt aukast kröfur erlendra markaða um hreinleika svo hér er um háalvarlegt mál að ræða; vatnið sem notað er í fiskvinnsluhúsum verður að standast ákveðnar kröfur.

Þessvegna var ráðist í það á Ísafirði að kaupa hreinsitæki sem síuðu allt neysluvatn, tæki sem kostuðu milljónatugi. Hreinsitækin eru samstæða af mörgum síum úr ryðfríu stáli og síurnar þarf stöðugt að hreinsa.

En ekki var fyrr búið að setja upp búnaðinn en undrið gerðist. Eftir eina sprenginguna við gerð ganganna undir Breiðadalsheiði hvolfdist yfir menn og vélar geypilegur foss niður í göngin. Svo voru hamfarirnar miklar að vatnsflaumurinn tók með sér vinnuvélar og fleytti þeim langa leið og út úr göngunum. Engan sakaði sem betur fer en þeim sem viðstaddir voru, er bergið opnaðist og vatnið steyptist fram, mun seint líða það úr minni.

Mikil umskipti

Ísfirðingar létu hendur standa fram úr ermum og nú streymir „fossinn í göngunum“ úr hvers manns krana þar í bæ, fiskiðnaðurinn hefur eins mikið af tandurhreinu vatni og hann þarf á að halda og hreinsisamstæðan dýra er atvinnulaus og til sölu ef einhver staður á landinu er svo óheppinn að þurfa á slíku tæki að halda.

Sá sem fer um göngin í dag (eða þegar þau verða opnuð) verður ekki var við fossinn. Hann hefur fengið sitt eigið afdrep til hliðar við akbrautina, þar steypist hann stöðugt niður í skál og heldur áfram ferð sinni eftir leiðslu út úr göngunum Ísafjarðarmegin. Vatnsmagnið er það mikið að þegar út úr göngunum kemur fær hluti af vatninu frelsi og fer sína leið, verður að myndarlegum læk. Það er ekki þörf fyrir allt þetta vatnsmagn til kaupstaðarins en þar tekur við önnur leiðsla sem liggur niður að deilihúsi. Þar er vatnið greint inn á fjórar leiðslur til mismunandi byggðasvæða.

Á hverri leiðslu er ventill, svo hægt sé að loka fyrir ef þörf krefur, þrýstistillir sem stilltur er þannig að ekki verði of mikill þrýstingur á bæjarveitunni og rennslismælir til að hægt sé að sjá hver vatnsnotkunin er á hverjum tíma.

Fallhæð vatnsins frá gangaopinu og niður að deilistöðinni er um 160 m svo engin þörf er á dælum til að koma vatninu til notenda, fallhæðin sér fyrir því, enda verður að takmarka þrýstinginn.

Það hafa orðið mikil umskipti hjá Ísfirðingum eftir að bergið opnaðist í göngunum og vatnið tók að streyma þaðan.

Gárungarnir segja að hér eftir verði Ísfirðingar að fara varlega í mataræði ef þeir fara til sólarlanda, fram að þessu hafi þeim verið óhætt að éta þar allt sem að kjafti kom, fengu aldrei magakveisu, sumir segja að framfærslukostnaður í bænum hafi hækkað, allt sem kom með „gamla“ vatninu hafi ekki verið einber óhollusta, sumt nærandi.

Fleira áhugavert: