Hraunbær – Bjarg íbúðafélag, 99 leiguíbúðir
.
Maí 2019
Fyrsta skóflustungan var í dag tekin að 99 íbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir við Hraunbæ 153-163 í Árbæ. Greint er frá uppbyggingunni á vef Reykjavíkurborgar, en Félagsbústaðir munu eiga og leigja út 20% íbúða í húsunum á móti Bjargi, sem er íbúðauppbyggingarfélag verkalýðshreyfingarinnar.
Íbúðirnar verða í fjórum húsum sem verða tvær til fimm hæðir. Afhendingar og upphaf leigu eru á þremur ólíkum dagsetningum, sú fyrsta áætluð þann 1. nóvember 2020 og sú síðasta þann 1. mars 2021. Í boði verða 2ja, 3ja, 4ra og 5 herbergja íbúðir og sérstaklega er tekið fram að hluti íbúða á neðstu hæðum húsanna muni bjóða upp á að þar verði hægt að halda gæludýr.
„Íbúðir Bjargs íbúðafélags eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB sl. 24 mánuði miðað við úthlutun. Til að eiga möguleika á úthlutun er nauðsynlegt að vera skráður á biðlista hjá Félagsbústöðum eða vera félagi í Bjargi,“ segir á vef borgarinnar.
Arkþing arkitektar sjá um hönnun í verkefninu og Ferill verkfræðistofa fer með verkfræðihönnun. Íslenskir Aðalverktakar eru verktakar.