Lagnaefni – Huga þarf að gæðum

Heimild:  

.

Ágúst 1996

Er sama hvað keypt er?

Ekki er allt sem sýnist um mun á gæðum í efni í hita- og neysluvatnskerfi húsa. Hyggja þarf að fleiru en útliti í þessum efnum.

Sá sem byggir sér hús eða kaup ir íbúð í blokk lætur sig í flest um tilfellum litlu varða hvaða efni er notað í hita- og neysluvatnskerfið að ekki sé talað um frárennsliskerfið. Eru ekki öll þessi hné og té eins og eru ekki allar þessar pípur eins? Vissulega líkist þetta allt hvert öðru, rennilokar eru líkir hver öðrum, sama máli gegnir um hitamæla, þrýstimæla, öryggisloka og margt fleira. En ekki er allt sem sýnist.

Gæðamunur kann að vera umtalsverður, en það er sjónarmið sem alltof fáir láta sig varða. Það sem ræður úrslitum er oftar en ekki krónutalan, tengi sem kostar 30 kr. er frekar keypt heldur en tengi sem kostar 35 kr. þó gæðamunur sé miklu meiri en verðmunur.

Gæði lítils metin

Auðvitað er það ekki á færi hvers og eins að meta gæði þeirrar vöru sem hann kaupir en því miður eru gæði stundum bókstaflega hundsuð af þeim sem eiga að vita betur.

Innflutningsstjóri í stóru fyrirtæki, sem flytur inn hverskonar lagnaefni, var átalinn af fagmanni fyrir að oft á tíðum hefðu þeir til sölu efni sem ekki stæðist lágmarks gæðakröfur. Svar hans var mjög svo athyglisvert: okkar stærstu viðskiptavinir, sem eru stórbyggjendur, krefjast þess að við bjóðum lagnaefni á eins lágu verði og mögulegt er, það er sjónarmiðið sem ræður því að við bjóðum ekki gæðavöru.

Rétt er að taka fram að þetta er ekki algilt, margir stórbyggjendur leggja metnað sinn í að velja gæðavöru. En því verður ekki á móti mælt að þeir sem virða gæði lítils ráða oftar en ekki ferðinni, það eru þeir sem ráða hvaða vara er á boðstólum og þá er ekki að undra að almennur kaupandi velji það sama, láti eingöngu krónutöluna ráða.

Annað gildir um sýnilega hluti, eða hvað?

Það er oft fróðlegt að fylgjast með því þegar eigandi nýbyggingar fer að velja sér sýnilegu hlutina, salernið, handlaugina, baðkerið og blöndunartækin.

Hvað sjónarmið ráða þá?

Útlitið ræður mestu og verðið talsverðu en líklega hugsa alltof fáir um gæði þeirra tækja sem þeir kaupa, er ekki klósett bara klósett?

Enganveginn, ekki frekar en bíll er bara bíll, og það þarf að taka tillit til fleiri þátta en hér hafa verið nefndir, útlits, verðs og gæða.

Það er nú einu sinni svo um öll mannanna verk að þau endast ekki eilíflega, vandaðasta framleiðsla þarfnast viðhalds og þjónustu.

Þess vegna er ekki lítils virði að staldra við þegar tæki eru valin og spyrja; af hverjum er ég að kaupa?

Það hefur því miður komið of oft fyrir að eitthvert gorkúlufyrirtæki er sett á laggirnar, selur um stund ýmis tæki á allgóðu verði, jafnvel sæmileg tæki, en eftir nokkur ár þegar stund viðhalds og þjónustu rennur upp er fyrirtækið hvergi finnanlegt og hvar á þá að fá varahluti?

Í hvað ástandi varan er afhent getur skipt máli. Húseigandi sem var að endurnýja hús sitt fór í leiðangur til að kaupa salerni og í einni verslun átti hann kost á tveimur gerðum sem voru mjög álíka en verðmunur var eitt þúsund krónur. Aðvitað valdi hann það ódýarara, fékk það afhent í pakkningum og hélt með það heim. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að það dýrara var samansett en það ódýrara ekki, búnaðinn í kassann átti eftir að setja á sinn stað og tengja saman, kassann átti eftir að festa á salernisskálina.

Það kostaði umtalsverða vinnu pípulagningamanns að setja þetta saman svo líklega hefur ávinningurinn af innkaupunum rokið út í veður og vind og vel það.

Það eru vissulega til innflytjendur og seljendur sem kappkosta að hafa aðeins gæðavöru á boðstólum en þeim er ekki umbunað af kaupendum sem skyldi.

Meðan svo er að kaupendur hafa ekki uppi gæðakröfur vantar hvatann, neytendur geta ráðið ferðinni ef þeir vilja, en þá verða þeir að vakna og standa saman.

VIÐ val á hreinlætistækjum er það líklega útlitið sem skiptir höfuðmáli en að fleiru þarf að hyggja.

Fleira áhugavert: