Barentshaf – Gas, orkulindir

Heimild:

.

Maí 2011

Olía í norðri

Kynning var á vegum Orkustofnunar í olíubænum Stavanger á vesturströnd Noregs. Þar sem reyna á að vekja áhuga manna á því að leita að olíu og gasi á Drekasvæðinu.

Í Stafangri eru Íslendingarnir komnir í einhvern mesta þekkingarbrunn olíuleitar og -vinnslu í Norðurhöfum. Landgrunnsolía Norðursjávar er löngu þekkt og sömuleiðis mikil olía út af vesturströnd Noregs. Heimskautasvæðin evrópsku hafa aftur á móti verið treg til að skila mönnum olíu. Til að mynda leituðu bæði Rússar og Norðmenn árangurslaust eftir olíu í Barentshafi í heilan aldarfjórðung. En fundu ekki deigan dropa.

goliat_article_1089115.gif

Smella á myndir til að stækka

Sú leit var samt alls ekki árangurslaus. Því þarna í Barentshafi fundust fyrir fáeinum árum æpandi miklar gaslindir. Fyrir vikið stunda Norðmenn nú umfangsmikla gasvinnslu á Mjallhvítar-svæðinu og einnig er verið að byggja upp gasvinnslu á Golíat-svæðinu skammt frá. Það fundust einnig stórar gaslindir Rússlandsmegin lögsögunnar í Barentshafi, sem kallast Shtokman. Og EF kolvetnisauðlindir finnast á Drekasvæðinu norðvestur af Íslandi gæti einmitt verið að þær yrðu aðallega í formi jarðgass fremur en olíu.

Þetta merkir þó alls ekki að olía sé útilokuð á landgrunnssvæðunum langt í norðri. Það gerðist nefnilega á sjálfan allt-í-plati-daginn 1. apríl s.l. (2011) að norska olíu-undrið Statoil gat sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að loksins, eftir aldarfjórðungsleit og samtals um 80 þurra brunna, hefði borinn í Barentshafi hitt í mark!

statoil_ceo_helge_lund.jpg

statoil_ceo_helge_lund

Það er svo sannarlega gleðilegt að rétt í þann mund sem Norðmenn voru farnir að hafa verulegar áhyggjur vegna þverrandi olíulinda í norsku lögsögunni, eru nú að opnast þar ný vinnslusvæði. Það er því engin furða að undrabarnið hann Helgi Lund, forstjóri Statoil, brosi út að eyrum.

Þetta nýjasta svæði ljúflinganna hjá Statoil er kallað Skrugard. Þarna telja menn sig vera búna að finna um 250 milljón tunnur af vinnanlegri olíu. Og að þetta sé bara smjörþefurinn af því sem norsku heimskautasvæðin eigi eftir að gefa af sér. Loksins geta menn í alvöru leyft sér að trúa því, að þarna sé vinnanlega olíu að hafa. Og það að öllum líkindum talsvert mikla olíu.

skrugard_map.jpg

skrugard_map

Sjálfir segja Norðmenn þetta merkasta viðburðinn í norskri olíusögu síðustu 10-20 árin. Þess vegna er svolítið broslegt að hjá Statoil fögnuðu menn þessum miklu tímamótum í olíuleit í Barentshafi með því að skála í áfengislausu kampavíni. Norska naumhyggjan greinilega allsráðandi. Og íslenskur apaútrásarhugsunarháttur víðs fjarri. Jamm – Norsararnir vinna alltaf.

Orkustofnunin íslenska verður líklega bara að vona að þessi nýjasta olíulind á norska landgrunninu verði ekki til þess að Barentshafið hirði alla athygli þeirra sem áhuga hafa á olíuleit í norðrinu. Vandamálið við Drekasvæðið er að það er algert virgin territory. Núna þegar menn fá hungraðan Barents-glampa í augun, er hætt við að óþekktur Drekinn þyki svolítið ægilegur og áhættusamur.

Á móti kemur að EF Drekasvæðið hefur mikið að geyma, er svolítið glatað ef enginn alvöru player er tilbúinn í áhættuna. Að verða brautryðjandi á svæðinu gæti skilað geggjuðum ávinningi. Kannski væri ráð að Orkustofnun og íslensk stjórnvöld viðurkenni að þau eru byrjendur í faginu. Og leiti einfaldlega eftir beinum samningum við Statoil og kannski líka ítalska ENI um olíuleit á Drekasvæðinu (ENI er nefnilega líka með  mikla reynslu af Norðrinu) .

transocean-riggen_polar_pioneer-skrugard.jpg

transocean-riggen_polar_pioneer-skrugard.

Kannski gætu þeir hjá Statoil meira að segja sent sama flotpall á svæðið; sjálft tækniundrið Polar Pioneer frá Transocean, sem er sérhannaður til olíuleitar á heimskautasvæðunum unaðslegu.

Úr því sem komið er verður þó líklega að ljúka við þetta annað útboð á olíuleitarleyfum á Drekanum. Og vonast eftir því að eftirspurnin verði allt önnur og betri núna en var þegar fyrsta útboðið floppaði gjörsamlega á fyrri hluta árs 2009. Vonandi var það fall barrrasta fararheill.

Fleira áhugavert: