Eldsneytisspá 2016 – 2050
.
Júlí 2016
Eldsneytisspá
Í eldsneytisspá er spáð fyrir um eldsneytisnotkun eftir tegundum og notkunarflokkum. Fjölmargir aðilar nýta sér spána, bæði vegna þeirra sögulegu upplýsinga sem þar koma fram sem og til áætlanagerðar.
Eldsneytishópur Orkuspárnefndar sér um gerð eldsneytisspár og hefur hópurinn starfað frá árinu 1998. Í honum eiga sæti fulltrúar Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Atlantsolíu, N1 og Skeljungs. Formaður nefndarinnar er Ágústa Loftsdóttir (Orkustofnun).
Starfshættir eldsneytishóps
Eldsneytishópurinn vinnur eftir skilgreindum markmiðum sem Orkuspárnefnd hefur sett starfi hans:
- Hópurinn skal útbúa eldsneytisspá byggða á gögnum um eldsneytisnotkun og upplýsingum um hagræna þætti sem Orkuspárnefnd skilgreinir. Spárnar skulu útbúnar eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti og þá verði farið gaumgæfilega yfir allar forsendur og útbúin ítarleg skýrsla.
- Rauntölur síðastliðins árs skulu bornar saman við spár og skal samanburðurinn liggja fyrir í byrjun maí hvers árs. Jafnframt ber hópnum að upplýsa Orkuspárnefnd um það ef nýjar tölur benda til þess að nýjasta eldsneytisspá muni ekki standast nógu vel, og metur þá Orkuspárnefnd hvort þörf sé á að gera lagfæringar á spánni.
- Allar niðurstöður hópsins og spár skulu birtar á vef nefndarinnar ásamt eldsneytisgögnum í samræmi við verklag hópsins um birtingu gagna.
- Árlega safnar Orkustofnun saman í gagnagrunn sinn rauntölum um: – Eldsneytissölu olíufélaga eftir notkunarflokkum, hún skal liggja fyrir í lok mars. – Notkun fyrirtækja á Íslandi á eldsneyti sem þau flytja sjálf inn til landsins svo sem kolanotkun stóriðjufyrirtækja og Sementsverksmiðjunnar.
- Eldsneytishópurinn skal vera Orkustofnun innan handar við mat á skekkju og fleira í úrvinnslu gagnanna. Frumgögnin sjálf eru þó trúnaðarmál, og hafa fulltrúi Orkustofnunar og ritari hópsins einir aðgang að þeim.
Tímasetningar miða við að gögn liggi fyrir tímanlega en ef svo er ekki getur úrvinnslu seinkað.
Eldsneytishópur orkuspárnefndar sér um gerð eldsneytisspár og hefur hópurinn starfað frá árinu 1988.
Ágústa Loftsdóttir, Orkustofnun – Formaður
Anna Lilja Oddsdóttir, Orkustofnun
Bjarni Már Gylfason, Samtök iðnaðarins
Magnús Ásgeirsson, Samtök verslunar og þjónustu
Kristján Andrésson, Umhverfisstofnun
Jón Vilhjálmsson, EFLA verkfræðistofa – Ritari