Asbest lagnir – Niðurrif og förgun
.
Desember 2017
Asbest í frárennslislögnum
Í þættinum „Gulli byggir“ á Stöð 2, 20. nóvember 2017 var fylgst með endurbótum á hæð í þriggja íbúða húsi í Hlíðunum. Þegar skipta átti um frárennslistengingu frá baðherbergi kom í ljós að múffa og lögn í gömlum stamma sem tengdur var pottjárnsröri var nær örugglega úr asbesti skv. pípulagningameistaranum sem kom að verkinu.
Húsið var byggt 1946 en þekkt er að byrjað var að nota asbest í byggingar hér á landi eftir stríð og fram til 1983 þegar bann við notkun asbests, með sérstökum undantekningum, tók gildi. Þann 1. janúar 2005 gekk svo í gildi allsherjarbann við notkun asbests á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í ljós hefur komið að ekki var rétt staðið að niðurrifi og förgun lagnanna í íbúðinni í Hlíðunum þar sem þær innihéldu að öllum líkindum asbest, en efnið hafði ekki verið efnagreint fyrir förgun.
Fylgja þarf reglugerð um bann við notkun asbests
Af þessu tilefni og vegna annarra nýlegra atvika í tengslum við vinnu við asbest vill Vinnueftirlitið ítreka að skv. reglugerð nr. 430/2007 um bann við notkun asbests á vinnustöðum þá þarf að uppfylla ýmis skilyrði áður en unnið er með efni sem líklegt er að innihaldi asbest, t.d. vegna niðurrifs.
Sækja þarf um undanþágu frá banni við vinnu við asbest hjá Vinnueftirlitinu. Þá skal leggja verkáætlun fyrir Vinnueftirlitið áður en vinna hefst og aðeins þeir sem sótt hafa námskeið á vegum Vinnueftirlitsins, eða sem Vinnueftirlitið hefur samþykkt, mega vinna við niðurrif eða viðhald á asbesti.
Nota skal vinnuaðferðir og verkfæri sem hafa sem minnsta rykmyndun í för með sér og starfsmenn skulu klæðast sérstökum vinnufatnaði og þar með töldum höfuðbúnaði sem ekki tekur í sig ryk og nota viðeigandi öndunargrímur.
Mengunarmörk fyrir asbest eru mjög lág eða aðeins 0,1 asbestþráður í rúmsentimetra en jafnvel þó að mengun mælist undir mörkum á asbestvinnustað þarf samt sem áður að klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði. Nánari leiðbeiningar og fræðsluefni um asbest er að finna í reglugerðinni og á heimasíðu Vinnueftirlitsins.
Förgun
Einnig er mikilvægt að standa rétt að förgun asbestsúrgangs, en skv. reglugerð nr. 705/2009 er óheimilt að farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar viðkomandi sveitarfélags og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.
Asbest er krabbameinsvaldandi
Vinnueftirlitið telur sérstaklega mikilvægt að farið sé eftir reglum um asbestvinnu og niðurrif ef grunur leikur á að um asbest sé að ræða því steinefnið er mjög hættulegt krabbameinsvaldandi efni þótt meðgöngutíminn sé langur (10-40 ár).
Gríðarlegt magn af vörum sem innihélt asbest var flutt inn á árunum í kringum 1980 eða hlutfallslega mun meira en í nágrannalöndunum en stór hluti þess var notaður til einangrunar á heitavatnslögnum þegar hituveituvæðingin stóð sem hæst.
Í grein í vísindatímaritinu J. Occup. Med. Toxicol. (2016; 11:37) frá árinu 2016, sem Kristinn Tómasson læknir Vinnueftirlitsins er höfundur að ásamt öðrum, kemur í ljós að fleiðurþekjukrabbamein, sem nær eingöngu orsakast af asbesti, hefur stöðugt aukist á Íslandi frá árinu 1965 og hefur aldrei mælst í fleirum en á áratugnum frá 2005 til 2014 eða í 34 einstaklingum, sem er eitt hæsta skráða hlutfall krabbameins af þessari gerð í hinum vestræna heimi.
Fleiðurþekjukrabbamein dregur menn nær undantekningalaust til dauða og er því mjög alvarlegur sjúkdómur. Til að koma í veg fyrir að þetta hlutfall hækki enn frekar, og vonandi að minnka það, er því gríðarlega mikilvægt að viðhafa ströngustu varúðarráðstafanir þegar grunur leikur á að efni og hlutir í húsnæði kunni að innihalda asbest og muna að sækja um tilskilin leyfi við vinnu og niðurrif á asbesti.