Vatnsgjald – Endurgreitt, dómsúrrskurður

Heimild:

.

Leiðrétting vatnsgjalds 2016

Veitur hafa leiðrétt vatnsgjöld ársins 2016 sem úrskurðuð voru of há í vor. Leiðréttingin nær til vatnsveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í flestum tilvikum gengur leiðréttingin til lækkunar á vatnsgjöldum með gjalddaga nú í september. Viðskiptavinir hafa fengið sendar upplýsingar um það með hvaða hætti leiðréttingunni verður háttað, ýmist í tölvupósti eða með bréfi.

Á ég inneign?

Þú getur séð hvort þú átt inneign á https://minarsidur.veitur.is/reikningar undir „Stakir reikningar“. Þar er einnig hægt að sjá upphæð inneignarinnar.

VoF 2016 endurgreiðsla - skýringarmynd

Hvernig verður leiðrétt?

Tilhögun leiðréttingarinnar verður með þrennum hætti og í öllum tilvikum eru reiknaðir vextir á inneignina frá 1. júní 2016 til 31. ágúst 2019.

Í viðskiptum 2016 Í viðskiptum í dag Hvernig fer leiðréttingin fram?
Þau sem greiddu vatnsgjald í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi á árinu 2016 Eru enn í viðskiptum Inneign kemur til lækkunar á greiðslu vatnsgjalds í september
Þau sem greiddu vatnsgjald í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi á árinu 2016 Eru enn í viðskiptum en vegna annarrar eignar Inneign kemur til lækkunar á greiðslu vatnsgjalds í september
Þau sem greiddu vatnsgjald í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi á árinu 2016 Eru ekki í viðskiptum við vatnsveitur Veitna lengur Greitt inn á bankareikning

Þeir viðskiptavinir sem greiddu vatnsgjald til Veitna á árinu 2016 en gera það ekki lengur eru hvattir til að fara inn á Mínar síður – Stillingar – og skrá þar bankaupplýsingar vegna endurgreiðslunnar.

Smelltu hér til að skrá bankaupplýsingar og netfangið þitt á Mínar síður.

Spurt & svarað um leiðréttingu vatnsgjalds 2016

Af hverju fá sumir en ekki allir viðskiptavinir vatnsveitna Veitna leiðréttingu?

Veitur reka vatnsveitur í Reykjavík, Stykkishólmi, Grundarfirði, Munaðarnesi, Reykholti, Borgarnesi, í Úthlíð og á Álftanesi, Bifröst, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Akranesi og nágrenni með sérleyfi. Vatnsgjaldið byggist á fjárfestingar- og rekstrarkostnaði hverrar veitu. Þessi kostnaður er mismunandi á milli vatnsveitna. Endurskoðaður útreikningur á vatnsgjaldinu hjá þeim öllum leiddi til leiðréttingar hjá fjórum vatnsveitum; í Reykjavík, Grundarfirði, Stykkishólmi og á Akranesi. Í hinum var gjaldið innan leyfilegra marka.

Af hverju er bara leiðrétt fyrir árið 2016?

Kæran, sem leiddi til úrskurðar og síðan leiðréttingarinnar nú, var vegna ársins 2016. Um verðlagningu á sérleyfisþjónustu Veitna gilda skýr lög og reglur, það er fyrir hitaveitu og rafmagnsveitu. Lögin um vatnsveitur eru hins vegar túlkuð með mismunandi hætti. Þau á að skýra með reglugerð en sú reglugerð hefur ekki verið sett.

Lesa má um mismunandi skilning á lögunum meðal annars í þessari fréttatilkynningu frá Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja.

Í ársbyrjun 2017 var vatnsgjaldið víðast lækkað um 11,2% og aftur um 10% (8% í Stykkishólmi) í ársbyrjun 2018.

Eru greiddir vextir?

Já, frá 1. júní 2016 til 31. ágúst 2019. Upphafsdagsetningin miðast við að þá hafði helmingur vatnsgjalds þess árs fallið í gjalddaga. Síðari dagsetningin miðast við það að í flestum tilvikum jafnast inneignin á móti vatnsgjaldi sem er á gjalddaga 1. september. Þar sem inneignin er meiri en sem nemur vatnsgjaldinu á gjalddaga í september, verða vextir reiknaðir af eftirstöðvum til greiðsludags.

Hvernig eru vextirnir reiknaðir?

Við vaxtaútreikningana er notuð sama aðferð og ríkið notar við endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda. Hún byggist á að vextir hvers mánaðar, eins og þeir eru gefnir út af Seðlabanka Íslands, eru notaðir. Um áramót leggjast vextir fyrra árs við höfuðstólinn. Hér má lesa sér til um vexti Seðlabankans.

Af hverju hafa liðið nokkrir mánuðir frá úrskurði til þessarar leiðréttingar/endurgreiðslu?

Við höfum notað tímann til að funda með ráðuneytisfólki, reikna út leiðréttingu og útfæra það hvernig leiðréttingunni yrði best komið við.

Hvernig stendur á þessu, hvernig getur svona gerst?

Um verðlagningu á sérleyfisþjónustu Veitna gilda skýr lög og reglur, það er fyrir hitaveitu og rafmagnsveitu. Lögin um vatnsveitur eru hins vegar túlkuð með mismunandi hætti. Þau á að skýra með reglugerð en sú reglugerð hefur ekki verið sett.

Við þetta má bæta að við fjárhagslega endurskipulagningu á Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2011-2016, skuldbatt fyrirtækið sig til að láta verðskrár halda verðgildi sínu, það er að þær mundu fylgja almennu verðlagi í landinu. Á sama tímabili dró mjög úr fjárfestingum, m.a. í ýmsum framkvæmdum vatnsveitnanna. Til dæmis lögðust nýbyggingar nánast af. Því var afkoma sumra vatnsveitnanna árið 2016 komin umfram það sem heimilt var talið í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Hver er ábyrgur fyrir því að þetta átti sér stað?

Við teljum að allar ákvarðanir sem teknar voru um vatnsgjaldið hafi verið teknar í góðri trú. Með leiðréttingunni nú taka Veitur ábyrgð á því sem misfórst.

Hversu há er endurgreiðslan og þá heildarupphæðin?

Af 3,7 milljarða króna tekjum vatnsveitna Veitna árið 2016 nemur leiðréttingin 440 milljónum. Hún dreifist á um 50 þúsund greiðendur og þar af eru mörg fyrirtæki. Hver og einn getur séð endurgreiðsluna á Mínum síðum.

Er gert ráð fyrir hækkunum á næstunni, t.d. á næsta ári?

Vatnsgjöld næsta árs skýrast í vinnu okkar við fjárhagsspá. Þá sjáum við hversu miklar fjárfestingar þarf að ráðast í og hversu mikið fer í viðhald og annan rekstrarkostnað. Fjárhagsspáin verður opinber á haustmánuðum.

Hvað með fráveituna, gilda ekki sömu sjónarmið varðandi hana?

Afkoma fráveitnanna hefur verið lakari en vatnsveitnanna ekki síst vegna þess að þar höfum við verið að fjárfesta mjög mikið.

Geta allir fengið inneign sem myndaðist við leiðréttinguna greidda út?

Við teljum þægilegast fyrir þá sem eru enn í viðskiptum við okkur að fá inneignina skuldajafnaða inná næstu gjalddaga vatns- og fráveitu. Ef það hentar ekki einstökum viðskiptavinum viljum við biðja þá að senda okkur línu hér eða hafa samband í gegnum netspjall hér á vefnum.

Hvenær fæ ég endurgreitt?

Endurgreiðslur verða framkvæmdar þann 30. ágúst og 1. október. Því fyrr sem bankaupplýsingar liggja fyrir þeim mun fyrr færðu endurgreitt.

Fleira áhugavert: