Lagnasýning – Perlunni 1996, sagan
.
Nóvember 1996
Lagnasýningin að baki
Lagnasýningin í Perlunni hlaut mikla aðsókn. Hún sannar, að þörf er fyrir slíkar sýningar með reglulegu millibili.
Lagnasýningin í Perlunni tókst vel og aðsókn var mikil, raun ar miklu meiri en búist var við. Þetta sýnir að almenningur er farinn að láta sig meira varða „hvað er inni í veggnum“, allar þessar ósýnilegu lagnir eru ekki eilífar og lagnakerfi þurfa eftirlit og viðhald. Sýnendur voru opinber þjónustufyrirtæki, innflytjendur og seljendur lagnaefnis og ýmsir sem buðu ýmiskonar þjónustu. Perlan er ágætur staður fyrir sýningar af þeirri stærð sem Lagnasýningin var, raunar hefðu fleiri aðilar getað sýnt, því í kjallara er talsvert rými sem hefði mátt nota. Aðkoma er þægileg og flestir rata upp á Öskjuhlíð, það er einnig hægt að fá þar veitingar, ís fyrir börnin, njóta útsýnisins ef veður er gott og yfir því var ekki að kvarta þessa helgi.
Hverjir komu og hverjir sýndu? Að sjálfsögðu voru tæknimenn af öllum gráðum fjölmennir og það var athyglisvert að lagnamenn mættu nánast hvaðanæva af landinu. En ekki síður var það ánægjulegt að sjá hinn almenna borgara koma, með börn og barnabörn, það er augljóst að húseigendur og þeir sem hér eru nefndir almennir borgarar eru margir hverjir fullfærir að ræða við tæknimennina sem þarna voru til viðtals og buðu vöru og þjónustu. Það er ef til vill að fara á hálan ís að nefna nokkra sýnendur en sleppa öðrum en til að sýna heildardrætti sýningarinnar má nefna að þar sýndu tvö fyrirtæki,
Ísleifur Jónsson hf. og Byko, rör-í-rör kerfi sem mikið hafa verið í umræðunni, Hringás hf. og Fjöltækni hf. sýndu hvort sitt lagnakerfið úr plaströrum sem bæði eru nýjung hérlendis, Tækja-Tækni sýndi Mannesmann stálrör og þrýstitengi úr svörtu stáli og ryðfríu, Héðinn hf. kynnti það sem allir þekkja, Danfoss sjálfvirka ofnloka, auk þess rafeindastýritæki og það gerðu Hitatækni hf. og Hátækni hf. einnig. Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf. og Verkvangur hf. kynntu þá þjónustu sem þessar stofur bjóða. Vatnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur voru með vel útbúna sýningarbása og mörgum gestum þótti fengur að geta fengið skýrslu um það hjá Hitaveitunni hve mikið þeir notuðu af heitu vatni og hvort sú notkun væri eðlileg eða of mikil.
Margar opinberar eftirlits- og þjónustustofnanir kynntu það sem þær eru að starfa að og hvaða þjónustu þær bjóða, vissulega ánægjuleg þróun að slíkar stofnanir eru að reyna að nálgast almenning og skapa þar með gagnkvæmt traust. Hverja vantaði? Slík sýning sem þessi sýnir á vissan hátt á hvaða stigi við stöndum í lagnamálum, en hún afhjúpar einnig viss vandamál innan greinarinnar. Hún afhjúpar það að ýmis fyrirtæki telja sig ekki þurfa að kynna vöru né þjónustu, jafnvel ekki eiga neitt vantalað við almenning, þeirra markhópur séu tæknimennirnir sem velji og ákvarði fyrir húsbyggjandann og neytandann.
Það fór ekki á milli mála að margir spurðu eftir baðinu og öllu sem því fylgir, hreinlætistækjum, blöndunartækjum og mörgu sem baðið á að prýða, þetta vantaði. Það var líka skimað eftir ofnum, þá vantaði einnig og í þriðja lagi vildu margir eiga orðastað við fyrirtækin sem losa stíflur úr frárennslislögnum og geta sýnt á skjá ástand þeirra lagna, en þau létu ekki sjá sig. Þessi sýning er fyrsta lagnasýningin hérlendis af þessari stærð en Lagnafélag Íslands hefur efnt til minni lagnasýninga jafnhliða fræðslufundum í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Selfossi og Egilstöðum. Lagnasýningin í Perlunni sannar að það er þörf fyrir slíkar sýningar með vissu millibili, t. d. á þriggja ára fresti.
Þáttur fjölmiðla Einn erfiðasti þátturinn við að koma slíkri sýningu á koppinn er að kynna hana, umstangið er til lítils ef enginn veit um hana og enginn gestur kemur þar af leiðandi. Spjallþættir á Rás 2 og Bylgjunni gerðu sýningunni góð skil, annað er að segja um fréttastofur ljósvakamiðlanna. Sjónvarpið boðaði komu sína á opnun sýningarinnar þar sem hún var formlega opnuð af Guðmundi Bjarnasyni umhverfisráðherra. Fréttamenn og tökulið lét ekki sjá sig, að orð standi á þeim bæ virðist aukaatriði, fréttastofa hljóðvarps taldi engan hafa áhuga á lögnum.
En fréttastofa sjónvarps hefur samt sem áður áhuga á sýningum, þessa sömu helgi fengu áhorfendur að sjá ketti af öllum gerðum á kattasýningu í Kópavogi og er það vel, ef rör springur og hitinn hverfur er kannske hægt að bjarga sér með því að kúra hjá kettinum.