Heklureitur
.
Febtúar 2019
Uppbygging á Heklu reitnum í uppnámi
Uppbygging á Heklu reitnum mun að óbreyttu ekki ganga eftir vegna deilna lóðhafa og Reykjavíkurborgar. Lóðahafi lýsir ábyrgðinni að fullu á hendur borgarinnar.
Miðað við núverandi stöðu málsins, og afstöðu Reykjavíkurborgar, virðist sem fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi fyrir Heklu-reitinn muni ekki ganga eftir.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, sendir fyrir hönd lóðhafa til borgarráðs Reykjavíkur. Efni bréfsins snýr að breytingum á deiluskipulagi sem Hekla og Reykjavíkurborg óskuðu eftir og byggði á viljayfirlýsingu beggja aðila sem undirrituð var í maí 2017. Skipulagið hefur ekki enn verið samþykkt og nú stefnir í að stað þess að uppbygging hefjist á þessu ári, eins og vonir stóðu til, er líklegt framkvæmdirnar verði blásnar af.
Forsaga málsins er sú að í framhaldi undirskriftar viljayfirlýsingarinnar var haldin samkeppni um gerð nýs deiliskipulags, en vinna við skipulagið var kostað af Heklu eins og kveðið var á um í viljayfirlýsinguna. Þegar kom að því að fá vinningstillöguna að breytingu á aðalskipulagi samþykkta segir í bréfinu „…var þeim skilaboðum komið til Heklu að ekki yrði gengið frá deiliskipulagi á grundvelli vinningstillögunnar nema Hekla samþykkti að borgin fengi frekari endurgjald en áður hafði verið samið um.“
Friðbert segir í samtali við Viðskiptablaðið að borgarráð hafi ekki svarað bréfinu þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir svari fyrir 1. febrúar sl.. „Síðustu upplýsingar sem ég hef eru þær að borgarráð ætli að taka málið fyrir og svara erindinu 20. febrúar nk.,“ segir Friðbert og bætir við að hann vili ekki tjá sig um efni bréfsins á meðan málið er til meðferðar hjá borginni. Á vef Reykjavíkurborgar segir í fundagerð borgarráðs frá 31. Janúar sl. að erindið hafi verið sent skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og borgarlögmanni til umsagnar. Stefán Eiríksson borgarritari vildi ekki tjá sig um efni bréfsins. „Erindið er í vinnslu hjá stjórnsýslu borgarinnar sem muni svo leggja svar sitt fyrir borgarráð á komandi vikum, en mér er ekki kunnugt um að nein dagsetning hafi verið ákveðin í þessu ferli,“ segir Stefán í samtali við Viðskiptablaðið.