Asbest – Í þínu húsi?

Heimild: 

.

Júlí 1997

Er asbest í þínu húsi?

Asbest ætti enginn að eiga við án þess að afla álits sérfróðra manna og fá upplýsingar um meðhöndlun, segir Ragnar J. Gunnarsson, verkefnisstjóri hjá Keflavíkurverktökum og sérfræðingur í meðhöndlun hættulegra efna. Rannsóknir á asbesti hafa sýnt að verði menn fyrir mengun af lausum asbesttrefjum getur það leitt til alvarlegra sjúkdóma. Hvernig hægt er að þekkja asbest, hvernig það veldur heilsutjóni og hvernig er hægt að varast mengun er líklega ekki eins þekkt meðal almennings.

Asbest hefur verið notað sem byggingarefni hérlendis allt til ársins 1980 og þar sem mjög víða má finna asbest í hýbýlum manna væri ekki úr vegi að líta dálítið nánar á þetta efni og reyna að upplýsa hvers vegna það er hættulegt og hvað er hægt að gera til þess að koma í veg fyrir asbestmengun.

Asbest er steinefni unnið úr jörðu (kristölluð sílikatstenefni) og þegar það er mulið, myndar það örfínar trefjar eða þræði sem afar hentugt er að vinna úr eða blanda öðrum efnum. Asbest hefur þá kosti að vera geysilega slitsterkt, það brennur ekki, er mjög meðfærilegt og það hefur litla sem enga leiðni. Asbest var aðallega blandað öðrum efnum til að auka slitþol, einangra og styrkja.

Örsmáir þræðir

En það eru einmitt þessir þræðir sem gera asbestið svo varasamt. Asbestþræðirnir eru örsmáir (mældir í míkró metrum) og ekki sýnilegir með berum augum. Þeir geta verið hvassir sem nálar, og vegna þess hve smáir þeir eru eiga þeir greiða leið niður í lungu manna. Vegna smæðar sinnar ráða bifhár lungnanna illa við að koma þeim burt og þræðirnir setjast að neðst í lungunum og stingast jafnvel inn í lungnablöðrur eða berkjur og valda krabbameini.

Hérlendis hefur verið algengast að nota asbest í vegg- og þakklæðningar. Ending slíkrar klæðningar hefur verið afar góð og víða má sjá í eldri hverfum asbestþök sem orðin eru 50 ára gömul og standa ennþá fyrir sínu.

Þá var asbest notað til einangrunar á kynditæki, rör og hitakúta og jafnvel sprautað eða smurt á timburveggi til eldvarnar. Oft var asbest notað sem einangrun á beygjur og loka í vatnslögnum, þó röreinangrunin sjálf væri úr öðrum efnum.

Asbest er lyktar- og bragðlaust og í mörgum tilfellum er erfitt að gera sér grein fyrir hvað er asbest og hvað ekki. Það má þó telja líklegt að plötur sem notaðar eru til vegg- eða þakklæðningar og eru harðar sem steinn viðkomu, innihaldi asbest. Sem einangrun er asbestið oftast hvítt og ekki ólíkt viðkomu og gifs, en getur reyndar verið hvort sem er, mjúkt eða hart. Miklar líkur eru á því að hús sem byggð voru um og eftir stríð allt fram til 1960 og jafnvel lengur hafi að geyma asbest í einhverri mynd. En verulega dró úr notkun asbestefna hérlendis upp úr 1960. Hægt er að taka sýni og greina svo ekki verði um villst, hvort um asbest sé að ræða. Eins og áður kom fram eru það þessir örfínu þræðir sem geta valdið heilsutjóni. Áríðandi er því að gæta þess að framkvæma ekki eitthvað sem veldur því að asbestþræðir berist út í andrúmsloftið, sérstaklega innandyra. Ekki ætti undir neinum kringumstæðum að bora, saga eða slípa asbestplötur. Slíkt getur valdið mengun sem afar erfitt getur verið að losna við. Aldrei skyldi mylja asbest eða brjóta. Asbest ætti enginn að eiga við án þess að afla álits sérfróðra manna og fá upplýsingar um meðhöndlun.

Viðkvæm einangrun á rörum Asbest-einangrun á rörum er mjög viðkvæm og lítið sem ekkert má við hana koma svo asbestþræðir losnir úr læðingi. Aldrei má hreyfa við slíku asbesti án þess að gera varúðarráðstafanir í samráði við Vinnueftirlit ríkisins.

Í reglugerð frá 1996 er þess krafist að öll meðferð asbestefna skuli gerð í samráði við Vinnueftirlit ríkisins.

Það er að sjálfsögðu slæmt að hafa asbest í hýbýlum sínum, en það er mörgum sinnum verra að hreyfa við því án þess að gera þær ráðstafanir sem krafist er í reglugerðum. Slíkt gæti kostað afar dýra aðgerð við hreinsun seinna meir, að ekki sé minnst á heilsufars- áhættuna. Eins og áður sagði er asbest steinefni og kemur úr jörðu og þar er það best geymt. Þegar asbest er fjarlægt er það urðað á afmörkuðu svæði. Asbestið mengar ekki út frá sér þegar það hefur verið urðað, það er eingöngu hættulegt ef það kemst niður í lungun.

Þeir sem búa í eldra húsnæði eða hafa í hyggju að kaupa slíkt, ættu tvímælalaust að afla sér upplýsinga um það hvort mögulegt geti verið að asbest leyndist þar einhversstaðar. Ef svo reynist vera ætti strax að hafa samband við Vinnueftirlit ríkisins og afla sér nánari upplýsinga.

Fleira áhugavert: