Mathöll Höfða
.
Janúar 2019
„Það er allt komið á fullt og þetta er farið að taka á sig fallega mynd,“ segir Steingerður Þorgilsdóttir, einn eigenda Mathallar Höfða sem opnuð verður í lok næsta mánaðar á Bíldshöfða 9.
„Við ætluðum að opna 15. febrúar en það verður ekki fyrr en í lok mánaðarins, það tekur allt lengri tíma en áætlað var,“ segir Steingerður. Hún er eigandi mexíkóska veitingastaðarins Culiacan á Suðurlandsbraut ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur og sá staður verður einn sjö staða í mathöllinni.
Auk þess munu þær sjálfar reka Svanga Manga þar sem boðið verður upp á íslenskan heimilismat, en slíkt ætti að falla vel í kramið hjá vinnandi stéttum í nágrenninu.
Smurbrauð og morgundjúsar
„Svo verður brugghúsið Beljandi frá Breiðdalsvík hluti af bás Svanga Manga og tekur við þegar honum hefur verið lokað á kvöldin. Þau koma með kútana beint frá Breiðdalsvík, við erum ofboðslega spennt að fá þau,“ segir Steingerður.
„Það verður eitthvað í gangi allan daginn hjá okkur. Þú getur komið og fengið þér morgundjús eða kaffi þegar þú ferð á heilsugæsluna við hliðina á morgnana. Svo verður bakkelsi í kaffitímanum, þetta eru ekki eingöngu matartímarnir,“ segir Steingerður.
Hún segir að alltaf verði líflegt og góð stemning í Mathöll Höfða. „Við verðum með pílukast og ýmsar uppákomur um helgar. Það verður líf og fjör hérna.“