Votlendi.is – Endurheimt

Heimild: 

.

Endurheimt votlendis

Samfélagsleg ábyrgð

Stærsta áskorun samtímans er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur hlýnun jarðarinnar.  Á Íslandi er talið að 2/3 af allri losun gróðurhúsalofttegunda komi frá framræstu eða röskuðu votlendi.

Votlendissjóðurinn hefur það hlutverk að vinna að endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Sérfræðingar Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Fuglaverndar, Rannsóknarsetur HÍ á Suðurlandi og Náttúrstofurnar veita sjóðnum faglega ráðgjöf við mat á verkefnum sjóðsins.

Þrjár leiðir í boði:

  1. Votlendissjóðsleiðin hentar þeim sem vilja setja fé í endurheimt votlendis og láta Votlendissjóðinn um að endurheimta það. Þeir sem leggja til fjármagn fá staðfestingu á samfélagslegri ábyrgð sinni og geta skráð það magn gróðurhúsalofttegunda sem þeir hindra losun á í loftslagsbókhald sitt.
  2. Landeigendaleiðin hentar landeigendum sem eiga framræst land og vilja sýna í verki samfélagslega ábyrgð í loftslagsmálum. Þessi leið myndi henta t.d. bændum sem vilja kolefnisjafna reksturinn sem og sveitarfélögum sem vilja vinna verkið á eigin vegum. Margir landeigendur eiga tæki til verlegra framkvæmda sem nýta má til verksins. Votlendissjóðurinn staðfestir framlag landeiganda sem getur skráð það magn sem hann stöðvar í loftslagsbókhald sitt.
  3. Fósturlandsleiðin hentar m.a. þeim sem vilja taka að sér endurheimt votlendis en eiga ekki land sjálfir. Votlendissjóðurinn er þá milliliður milli landeiganda og þess framkvæmdaraðila sem annast endurheimtina. Þessi leið gæti t.d. hentað félagasamtökum, starfsmannafélögum eða verktakafyrirtækjum sem vilja endurheimta skilgreint svæði og sýna þar með samfélagslega ábyrgð í verki. Árangurinn er skráður á þann sem tekur landið í fóstur og  getur fært árangurinn til bókar í loftslagsbókhaldið.

Faglegt mat og árangurinn staðfestur

Það framræsta votlendi sem á að endurheimta fer í gegnum ákveðið ferli til að tryggja stöðvun á losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrsta skrefið er að sérfræðingur á vegum Landgræðslunnar tekur út svæðið og leggur til aðgerðir. Framkvæmdin sjálf er á ábyrgð framkvæmdaraðila og eftir að búið er að endurheimta votlendið staðfestir sérfræðingur árangurinn. Mikilvægt er að vel sé að framkvæmdinni staðið til að losun stöðvist, ásýnd landsins batni og að ekkert raskist þó vatnsveður komi.

Vöktun í þrjú ár með hinu endurheimta landi

Fylgst verður með hinu endurheimtu votlendi í 3 ár með aðstoð landeiganda sem skuldbindur sig til að senda ljósmyndir af völdum svæðum til Votlendissjóðsins til að geta fylgst með breytingum á vatnsyfirborði og ástandi hins endurheimta votlendis. Sérfræðingar á vegum Votlendissjóðsins og samstarfsaðilar munu auk þess fylgjast með árangri.

Stuðst við losunarstuðla og vinnulag IPCC

Við mat á losun gróðurhúsalofttegunda er stuðst við stuðla IPCC (Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) og innlendar rannsóknir sem sýna að með því að endurheimta votlendi má stöðva losun sem nemur a.m.k. 20 tonnum af CO2 á ári frá hverjum hektara.

Fylgst með líffræðilegum fjölbreytileika

Fuglavernd í samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi og Náttúrustofur landsins munu fylgjast með breytingum á fuglalífi á völdum svæðum.

Ferlið tekið út af fagaðilum

Price Waterhouse Coopers tekur út rekstur sjóðsins og staðfestir að samræmi sé í endurheimt og sölu vottonna. Háskóli Íslands fer yfir framkvæmdir og staðfestir að unnið sé  samkvæmt skilgreindu ferli Votlendissjóðsins.

Unnið með sveitarfélögum

Til að tryggja hámarksárangur og bestu nýtingu fjármagns verður unnið með hverju sveitarfélagi fyrir sig. Farið verður í að finna sameiginlegar lausnir, nýta stærðarhagkvæmi og virkja samfélagið í að endurheimta votlendið. Sveitarfélögin leggja til sitt land og vonast er til að ríkið geri  hið sama.

Hvað kostar að endurheimta votlendi?

Árangur Votlendissjóðsins er mældur í svokölluðum „vottonnum“ (vot/blaut tonn) þ.e. fjölda tonna af CO2 ígildum sem komið er í veg fyrir losun á  með því að endurheimta framræst eða raskað votlendi. Eitt vottonn kostar kr. 5000 og fyrir kr. 100.000 er hægt að fara í framkvæmdir til að stöðva losun á 20 vottonnum.

Votlendissjóðurinn staðfestir að það fjármagn sem sett er í sjóðinn eða sú vinna sem unnin hefur verið á eigin kostnað hafi raunverulega stöðvað losun á þeim fjölda vottonna sem óháður fagaðili áætlaði.

Fyrir framlag sitt fær kaupandi eða kostunaraðili framkvæmdanna rétt til að telja fram ávinninginn.

Dæmi: Viðskiptavinur sem kaupir fyrir eina milljón króna eða endurheimtir sambærilegt magn vottonna fær staðfestingu frá Votlendissjóðnum á stöðvun á 200 vottonnum á ári eða samtals 600 tonn á þremur árum.

Þeir sem kaupa 60 vottonn eða meira eða endurheimta á eigin kostnað sem nemur a.m.k. 60 vottonnum fá rétt til að nota merki Votlendissjóðsins í markaðslegum tilgangi.

Frekari upplýsingar: Eyþór Eðvarðsson s:892 1987 eða eythor@votlendi.is   www.votlendi.is

Þú getur lagt framlag þitt inn á Votlendissjóðinn og fengið greiðslukvittun fyrir framlaginu eða nýttt þér greiðslugáttina okkar.

Kennitala: 620518-1230

Bankaupplýsingar: 537-26-516

Öll framlög nýtast beint til endurheimtar votlendis og stöðvunar á losun CO2.

Fleira áhugavert: